stúlkan léttmeti28.3.03
 
ætli ástæðan fyrir því að þeir hafi valið ó guð vors lands fyrir 59 árum hafi verið að þeir hræddust að eitthvað líkt því sem er að gerast í dag myndi gerast. ég sé enga aðra ástæðu fyrir því að þeir hafi ekki valið þetta:hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún unir grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífið sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
hver dagur líti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð.
svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

texti: hulda


::: posted by anna at 09:57

27.3.03
 
2. hluti: að vera eða ekki vera fátækur
þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar frá stjórnendum þessa lands er það staðreynd að fátækt er til, og meira að segja stórt vandamál í íslensku samfélagi í dag. fátæktin kemur kannski ekki fram eins og fátækt í afríku þar sem fólk deyr úr hungri, en sú fátækt sem er til staðar hér er þrátt fyrir það mjög alvarleg.
á íslandi er fullt af fólki sem á ekki fyrir því að lifa. þeir peningar sem þetta fólk fær, hvort sem þeir eru í formi launa eða bóta, ná ekki til að borga húsnæði, hita, rafmagn og eitthvað að borða. þetta fólk þarf þá að leita annarra lausna til að ná endum saman, lausna sem oft eru erfiðar og niðurlægjandi að mati sumra.
það er staðreynd að fólki sem leitar til mæðrastyrksnefndar til að fá matargjafir, fjölgar í hverri einustu viku. það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að fólk leitar eftir svona gjöfum í algjörri neyð, ekki til að fá eitthvað án þess að borga fyrir það.
það er sorglegt hve fáir virðast skilja þetta. meira að segja forsætisráðherrann, sem þó á að bera uppi hagsmuni þjóðarinnar, lýsti yfir á alþingi rétt fyrir jólin þegar fátækt var til umræðu að hann væri ekki hissa á því að fólk kæmi til mæðrastyrksnefndar: það væri alltaf eftirspurn eftir því sem væri ókeypis. ef forráðamenn landsins eru ekki með á hreinu hvernig lægsta stéttin í landinu hefur það, eiga þeir rétt á því að vera við völd?
í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur skattbyrði látekjufólks aukist (mér er alveg sama þótt Geiri Haarde segi eitthvað annað, hún hefur aukist!!), á meðan t.d. tekjuskattur á fyrirtæki hefur verið lækkaður næstum því um helming. er eitthvað réttlæti í því?
mæðrastyrksnefnd segir það, así segir það, við sjáum það. fátækt hefur aukist á íslandi síðastliðin ár, án þess að gripið hafi verið til fullnægjandi aðgerða. það er ekki í lagi!


::: posted by anna at 10:20

24.3.03
 
ég get fullyrt að ég hafi aldrei farið eins sátt út af tveimur bíómyndum í röð eins þeim síðustu tveimur sem ég sá. fyrri myndin heitir lilya 4-ever og sú seinni píanistinn. ég skrifaði pistil varðandi lilyu 4-ever í þessari viku, sem birtist ekki hér vegna þess að tölvan mín var hungruð í eitthvað til að éta. samt er nú komið að píanistanum.

stríð er klassískt viðfangsefni í bíómyndum. margar góðar stríðsmyndir hafa verið gerðar, sem og margar mjög lélegar. seinni heimstyrjöldin er líklega vinsælasta bíóstríðið, ef hægt er að segja það. gyðingaofsóknirnar hafa verið uppspretta margra góðra mynda, og kannski bara sem betur fer. ég er amk viss um að við hér værum ekki eins meðvituð um þessi gífurlegu þjóðarmorð nasista ef það hefðu ekki verið gerðar svona margar hollívúddmyndir um þetta efni.
allar gyðingahatursmyndirnar sem ég hef séð eiga það sameiginlegt að ég hef gengið út af þeim og hugsað "sem betur fer mun þetta ekki gerast aftur". en er það rétt? mun þetta aldrei gerast aftur?
þegar ég gekk út af píanistanum á laugardaginn var þetta ekki það fyrsta sem ég hugsaði. við vitum öll að þjóðarmorð eru staðreynd í heiminum í dag. allsstaðar er fólk að útrýma öðrum þjóðum og öðrum menningarheimum. þau eru alltaf bara svo langt í burtu frá okkur að við gleymum þeim.
þjóðarmorð eru hræðileg, og auðvitað er ekki hægt á nokkurn hátt að réttlæta þau. sú spurning sem mig langar til að varpa fram er hvort það sé ekki eitthvað sem er líkt með árásarstríðum og þjóðarmorðum?
í írak býr þjóð sem hefur búið við stanslausar árásir vinþjóða okkar í 12 ár. í írak býr þjóð sem hefur búið við viðskiptabann í jafn mörg ár og ekki fengið nóg að borða. einangrunarbúðirnar sem írak hefur búið í eru auðvitað miklu stærri en gettóin í varsjá voru, en lífsskilyrði að mörgu leyti lík. fólk sem á báðum stöðum býr/bjó við hungur, dauða og endalausan ótta um að hver dagur gæti verið sá síðasti. eru það ekki töluverð líkindi?
Auðvitað er eðlismunur á því að vilja drepa sem flesta óbreytta borgara og að vilja koma einræðisherra frá völdum. samt verður að hafa í huga að þótt meiningarnar séu tvær, er eins og þær birtist á svipaðan hátt, þ.e. með dauða fólks. það má ekki gleyma að írakar, eins og gyðingarnir og við eiga bara eitt líf. ef þau týna því þá eiga þau ekkert annað.
með stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðið í írak erum við íslendingar að myrða fólk. þótt við séum ekki beinlínis að skjóta á saklausa borgara og drepa fólk úr hungri, erum við fylgjandi því. og það er skammarlegt. ég vona svo sannarlega að íslenska þjóðin hafi manndóm í sér að refsa þeim mönnum sem nú eru við völd með því að setja kross við frið 10 maí. við eigum ekki að láta vaða yfir okkur eins og kúgaða borgara í einræðisríki. ekkert stríð í okkar nafni!

::: posted by anna at 11:18

14.3.03
 
gerðu ekki mistök
núna eru einungis 2 mánuðir í kosningar og að því tilefni langar mig að beina orðum mínum til þeirra sem eru að fara að kjósa í fyrsta skipti.
við íslendingar búum við lýðræði. okkur finnst sjálfsagt að fá að tjá okkur um það sem við viljum, t.d. skrifa það sem við hugsum á allskonar heimasíður á veraldarvefnum, og kjósa fulltrúa okkar á hið háa alþingi, svo fátt sé nefnt. þessir fulltrúar (eiga að) gera síðan það sem þeir lofuðu okkur, standa fyrir því sem okkur finnst skipta mestu máli.
það er mikilvægt að vita hvað maður vill, og til þess að það sé hægt verður maður að kynna sér málin. það er ekki svo erfitt: allir flokkar eru með heimasíður og er þannig veraldarvefurinn tilvalinn til að kynna sér það sem þessir flokkar standa fyrir. Allir flokkar reyna að ná í atkvæðið þitt, og það verður að passa sig á því að kjósa ekki bara eitthvað af því að einu sinni var einhver sem sagði eitthvað gáfulegt einhversstaðar, og var ógislega kammó. maður má ekki láta glepjast af loforðum eins og lækkunar aldurs til áfengiskaupa... þegar maður setur lítinn kross við einhvern flokkbókstaf er maður ekki að kjósa eitthvað eitt málefni eða einhverja eina manneskju, maður er að kjósa málefnaskrá og heilan hóp af fólki
það stafar af fáfræði að segja að allir stjórnmálamenn og -flokkar séu eins, eins og að segja að stjórmál komi manni ekki við. þetta sem karlarnir í jakkafötunum og konurnar í drögtunum á alþingi eru að ræða um alla virka daga, er ekki bara eitthvað rugl. þetta er það daglega líf blasir við öllum á hverjum degi. er skólinn skringilega skipulagður? of dýrt í strætó? vantar bílastæði? of lág laun?... allt þetta og svo endalaust mikið fleira eru hlutir sem tengjast á einn eða annan hátt störfum þingsins; einhverju sem þú getur haft áhrif á. mikilvægt að sjá samfélagið í heild sinni og reyna að setja sig í spor annarra, sem og í sín eigin spor í framtíðinni, þegar valið er hvað maður ætlar að kjósa. staða manns getur breyst á einni nóttu, og litli krossinn sem einu sinni í kjörklefa virtist svo saklaus, getur stungið þig í bakið seinna.
það tekur auðvitað upp svolítin tíma frá amstri dagsins og annarra brýnna verkefna að kynna sér stjórnmál. það að taka ábyrga afstöðu er eina leiðin til þess að lýðræði geti haldist í landinu, og til að allra sjónarmið og allra hagur komi fram í þeim reglum sem settar eru.
gerðu ekki mistök, kjóstu rétt (og vertu viss um það)

::: posted by anna at 13:33

13.3.03
 
í grárri, drungalegri menntastofnun einni í hlíðunum eru nokkrir góðir hlutir að gerast. í fyrsta sinn svo að ég viti til er í þeirri stofnun í boði áfangi sem heitir umhverfisfræði 103. þessi áfangi mun kenna áhugasömum nemendum um rétta nýtingu á náttúruauðlindum, umhverfisrétt og siðfræði náttúrunnar, svo að dæmi séu tekin. ég nýti hér með stöðu mína á veraldarvefnum til að hvetja mh-inga til að skrá sig í þennan áfanga, svo að þetta góða framtak líffræðideildar verði að veruleika.

::: posted by anna at 16:01
 
hér hefst greinaflokkur sem ber yfirskriftina "að vera eða ekki vera", þar sem ég hyggst fjalla um... jahá, það kemur bara allt í ljós

1. hluti: að vera eða ekki vera tónlistarmaður
að vera tónlistarmaður er vinna. fólk velur að mennta sig í tónlist, og engin eðlileg menntun þar á ferð. fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því, en tónlistarnám er mjög erfitt og tímafrekt nám. flestir sem hafa tónlist að ævistarfi sínu á íslandi í dag byrjuðu að spila mjög snemma. algengt er að fólk byrji um 8 ára aldur, en bæði er til fólk sem byrjaði fyrr, eins og seinna. Það er nefninlega ekki eins og allir geti bara byrjað að læra á hljóðfæri eftir að grunnskóla sé lokið, lært í nokkur ár, og byrjað síðan að vinna við það.
eins og grunnskólakerfið er í dag er ekki ætlast til þess að krakkar séu að læra á hljóðfæri. ungir tónlistarnemar sem hafa einbeitt sér verulega að tónlistarnáminu geta örugglega sagt marga söguna um umhyggjusama kennara sem predika í sífelltu um mikilvægi þess að forgangsraða hlutunum rétt; að setja tónlistina í annað sæti á eftir bókum. auðvitað er einnig mikilvægt að vera með menntun, en skylduskólar ættu að vera örlítið sveigjanlegri hvað varðar aðra menntun sem nemendurnir eru að sækja sér.
einnig vantar mikið upp á það að almenn tónlistarkennsla innan grunnskólana sé í lagi. mikil mismunun er í grunnskólakerfinu á milli tónlistar annars vegar, og íþrótta og annara listgreina, s.s. myndlistar hins vegar. íþróttir er til dæmis skyldugrein í öllum grunn- og framhaldsskólum, á sama tíma og tónlist er ekki einu sinni valgrein í ýmsum gagnfræðideildum grunnskólana.
eins og flestir vita eru nánast allir grunnskólar á reykjavíkursvæðinu orðnir einsetnir. einsetningin var auðvitað mjög góður hlutur, en ekki gallalaus, sérstaklega hvað varðar tónlistarnám, þar sem enginn sveigjanleiki er í þessu kerfi sem miðar að því að veita aðra menntun en skylduna fyrr en eitthvað eftir hádegið. öfugt við eins og það var áður fyrr getur vinnudagur tónlistarkennarans ekki byrjað fyrr en um klukkan 2, og kennarar í fullu starfi eru að vinna fram í kvöld alla daga. vinna tónlistarmanna byggist auðvitað ekki eingöngu upp á því að kenna, en það er sama þótt maður drepi niður í aðrar greinar þessarar starfstéttar, mikill skortur er á viðunandi vinnuumhverfi fyrir tónlistarmenn.
sinfóníuhljómsveit íslands hefur verið starfrækt um margra ára skeið, en enn hafa stjórnmálamenn ekki séð þá brýnu þörf sem er á því að byggja almennilegt hús fyrir þessa góðu hljómsveit. á meðan íþróttahús spretta upp eins og gorkúlur, hafa tónlistarunnendur í höfuðborginni beðið árum saman eftir húsi sem væri hannað gagngert með tónlistarflutning í huga. einnig virðist ekki vera eins og grundvöllur sé fyrir því að vera eingöngu að vinna við að spila með sinfóníuhljómsveitinni. nánast hver einn og einasti meðlimur hljómsveitarinnar er einnig að vinna við kennslu. það má að stóru leyti rekja til þeirra launa sem eru í boði fyrir menntaða tónlistarmenn. þessi laun eru nánast hlægileg, enda hafa m.a. tónlistakennarar verið í mikilli launabaráttu um nokkura ára skeið.
hvenær á að viðurkenna tónlist sem starfsgrein? hvenær á að hætta að niðurlægja þetta fólk sem er virkilega hæft í því starfi sem þau hafa ákveðið að gera að lifibrauði sínu?
eru stjórnvöld að vinna markvisst að því að drepa niður þessa starfstétt?
það er ljóst að mikilla umbóta er þörf.

::: posted by anna at 15:18

10.3.03
 
það lítur út fyrir að fólk sé eitthvað byrjað að setja tengla á mig á ókunnugum heimasíðum þannig að ég verð að standa mig í skrifunum.

umfjöllunarefni dagsins í dag er pólitík.
pólitík er fögur, pólitík er list, pólitík gefur lífinu fyllingu. pólitík er uppspretta endalausra upræðuefna. pólitík er nefninlega lífið sjálft í hnotskurn. pólitík snertir alla... enginn getur sagt að pólitík komi sér ekki við (ég veit að sumir gera það, en það er ekki hægt að rökstyðja það á nokkurn hátt). pólitík er rædd alsstaðar, í öllum heimsálfum, öllum löndum, öllum sveitum, bæjum og borgum, öllum skólum, öllum vinnustöðum. fólk sem þekkist ekki neitt getur spjallað saman um pólitík, eins og bestu vinir geta gert það... og alltaf er hægt að læra, breyta til hins betra og kynnast hinum örlítið betur. umræður um pólitík þurfa ekki að taka tillit til aldurs, og getur oft verið skemmtilegra að tala við aðrar kynslóðir til að sjá hlutina frá öðrum sjónarhornum.
allt þetta, og svo margt fleira gott er hægt að segja um pólitík. hins vegar verður að taka til greina að pólitík er eins og hver önnur íþrótt. í pólitík, eins og annarsstaðar verða að gilda ákveðnar reglur sem fólk fer eftir. pólitík er í eðli sínu þannig að fólk hefur hvert sína skoðun og getur því oft verið mjög ósammála. það verður því að gilda að fólk beri virðingu fyrir skoðunum annara, einfaldlega vegna þess að við gerum öll kröfu um að aðrir beri virðingu fyrir okkar eigin skoðunum.
pólitík er flókin, pólitík er erfið og pólitík er tímafrek. flóknar stöður geta komið upp, m.a. innan fjölskyldna og vinahópa, þar sem fólk er oftar en ekki ósammála um ýmis málefni. þetta getur orsakað ýmis konar erfiðleika, sem í versta falli gætu orsakað upplausnir af ýmsu tagi.
þess vegna verðum við að passa okkur. virðing gagnvart nágunganum á að vera einn af hornsteinum í okkar samfélagi, og hún á að gilda jafnt fyrir alla flokka, hversu fáránleg málefni, hugsjónir og röksemdafærsla þeirra er. því að þrátt fyrir allar tilraunir stjórnarinnar og ónefndra stjórnarandstöðuflokka til miðstýringar, mun að öllu óbreyttu mál- og skoðanafrelsi okkar lifa um alla eilífð.
munum bara að nýta okkur það vel, og virða hvort annað.

::: posted by anna at 10:47

6.3.03
 
ætla bara að byrja að tjá mig hérna, þótt að allt sé enþá í tómri vitlausu. ég lagði leið mína í sveitina í morgun, nánar tiltekið í flensborgarskóla hafnarfjarðar klukkan 10. Þar var haldinn stjórnmálafundur þar sem efstu menn allra lista Kraganum ræddu málin fyrir opnum dyrum. ágætis stemmari var í salnum, en þó ekki laust við að áhorfendur væru allir eins á litin, eða appelsínugulir.
Margt skemmtilegt kom upp, og þar bar hæst þegar siv friðleifsdóttir marg-lýsti því yfir að framsóknarflokkurinn, með hana í fararbroddi væru í reynd hobbitar. svo eitthvað friðarsinnuð og glöð. þetta kom upp eftir allt talið tveggja turnana, og vakti afar mikla kátínu í salnum. hún er svo dugleg við að ná til fólksins, hún sif. ég tók sérstaklega eftir því að fatavali hennar var hannað til að heilla flensborgardrengi, og þannig ná til þess fólks sem þarna var. afskaplega lekker lillableik peysa með skyrtuna uppúr, og svo auðvitað leðurjakki. alveg hreint ótrúleg kona, hún sif. kemur mjög vel fyrir, amk þangað til að hún fer að opna munninn. það ætti að gera rannsókn á því hve margar málfarsvillur hún gerir á mínútu.
og svona, ef ég er nú á fatalínunni má ég til með að gagrýna barrmerki frjálslyndra. oddviti þeirra í Kraganum (sem ég man nú ekki hvað heitir, því miður), bar eitt svona merki. það var á stærð við jógúrtdollu og kom út eins og það væri álrós úr straumsvík, í annars vel völdum jakkafötum mannsins. barrmerki samfylkingarinnar eru einnig ekki svo rosalega vel heppnuð. öll eins á litin, eða appelsínugul, þannig ekki er hægt að velja þann lit sem passar best við þá flík sem maður vill helst næla hana í hverju sinni. og svona til að enda þetta stjórnmálatísku-bull verð ég að segja að engin barrmerki slá út barrmerki UVG. koma í mörgum litum, eru áberandi, og svo eitthvað passlega stór og skemmtileg.

::: posted by anna at 14:40

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla