stúlkan léttmeti30.8.03
 
allt fyrir vísindin
í spjalli við einhvern í vikunni kom upp þessi fullyrðing "allt fyrir vísindin". hægt er að rökstyðja hana, t.d. með því að undirstrika að framfarir eigi sér ekki stað nema fyrir vísindin og æðsta takmark mannkyns hljóti að vera að skilja heiminn og það gerist ekki nema með vísindunum. hins vegar má líka benda á að margt illvirkið hefur verið unnið undir yfirskini vísindanna og má þar meðal annars nefna tilraunir nasista á gyðingum. eftir að hafa velt fyrir mér rökum og mótrökum fyrir fullyrðingunni fór ég strax að hugsa um hvernig hún ætti við hvalveiðar okkar íslendinga.

nú erum við búin að veiða 13 hrefnur. myndir af einhverjum af þessum hrefnum hafa birtst í fjölmiðlum um allan heim. einhliða fréttaflutningur erlendra fjölmiðla um tilgang veiðanna og stöðu hrefnustofnsins við íslandsstrendur hefur valdið múgæsingu og reiði í öðrum löndum. ekki samt hérna á íslandi. það er ótrúlegt miðað við hversu gaman mér finnst að leita uppi fólk sem tekur afstöðu, hvort sem það er fylgjandi minni afstöðu eða gegn henni, að ég hef varla enþá lent í rökræðum um hvalveiðar. það er eins og þær skipti fólk engu máli, þótt hljóti að vera að svo sé.

ég verð að viðurkenna að ég er á báðum áttum um hvort við eigum að veiða hrefnur í vísindaskyni. hrefnustofninn má alveg við því að veidd séu 38 dýr, og miðað við hversu mikið af fiski við veiðum á miðunum getur ekki verið annað en eðlilegt og beinlínis hollt fyrir vistkerfið að nokkrar hrefnur séu veiddar til að halda einhverju í átt við vistfræðilegt jafnvægi. við vitum ekki nákvæmlega á hverju hrefnur nærast hér við ísland, og kannski eiga þessar rannsóknir eftir að leiða til merkra uppgötvana í heimi vísindanna, þótt ég efist stórlega um að þær eigi eftir að færa okkur nær takmarkinu að skilja heiminn. það er mjög asnalegt að ætla að hætta við þessar veiðar einfaldlega vegna þess að bandaríkjamenn hafa smitað allan heiminn með rómantískum gamanmyndum þar sem hvalir leika stór hlutverk, í því að finnast hvalir vera sætir og of mannlegir til að megi drepa þá.

svo er auðvitað hin hliðin. það er alveg rétt að 13 af stærstu hvalategundum heims eru í útrýmingarhættu, þótt hrefnan sé það ekki. ísland er ferðamannaland og ímynd okkar út á við skiptir bara óvart alveg gríðarlegu máli. þótt við viljum vera sjálfstæð og gera allt sem við viljum, verðum við líka að huga að því að við erum smáþjóð með hagkerfi á völtu jafnvægisbretti og þessar veiðar eiga eftir að hafa áhrif. við erum bara hórur ferðaiðnaðarins, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og eina leiðin til að vaxa í greininni til að græða er að leggjast auðmjúkur undir kröfur kúnnans. við seljum okkur fyrir að vera ósnert náttúruperla og það þarf ekki neinn snilling í ímyndahönnun til að fatta að hvalveiðar passa ekkert inn í þá mynd.

það er eitthvað element sem ég hef virkjað í mér sem lætur mig aldrei vera á sama meiði og bandaríkjamenn og þeirra spillta viðhorf til heimsins. við drepum 38 hrefnur í vísindaskyni og eigum á hættu að verða beitt viðskiptaþvingunum. bandaríkjamenn beita dauðarefsingum á marga tugi einstaklinga á ári hverju án þess að nokkurn tíman sé talað um viðskiptaþvinganir í því samhengi. geta þá ekki litlu bandarísku börnin dregið af því þá ályktun að hrefnulíf sé meira virði en mannslíf, eða er það bara oftúlkun frá minni hálfu.

ég hef samt unnið í ferðaþjónustu og ég veit hvað erlendir ferðamenn vilja. ég veit líka hvað blessaðir túrhestarnir gefa byggðarlögum úti á landi nýtt líf á sumrin og mikla vinnu fyrir fólkið. miðað við reynslu mína trúi ég því að ferðamannaiðnaðurinn á íslandi sé grein sem getur vaxið langt út fyrir okkar björtustu vonir og leiki eitt af aðalhlutverkunum hetjanna í raunveruleikaþættinum byggðaþróun. við getum ekki bæði átt kökuna og étið hana. í kynningu okkar á hvalveiðunum fyrir heiminum hefur greinilega eitthvað farið alveg rosalega öfugt ofan í almenninginn og hann bara hatar okkur fyrir það. og við eigum hagsmuna að gæta í almenningsálitinu.

niðurstöður: 1) fórnum sjálfstæðri ákvarðanatöku og mögulegum vísindalegum ávinningum fyrir peningalega hagsmuni. þetta borgar sig einfaldlega ekki.
2) ég er farin að hljóma eins og versti frjálshyggjupúki.

::: posted by anna at 11:16

28.8.03
 
neyslumenningin
nú er ekki seinna vænna að fara að taka sér tak og hefja þau gríðarlegu fjárútlát sem fylgja skólabyrjun og fjárfestingu í skólabókunum sem mann vantar. ég á það nefninlega til að draga skólabókakaupin fram úr hófi og er ein þeirra sem kaupa ítrekað bækurnar viku fyrir próf, ef ég fjárfesti í þeim á annað borð. bækurnar eru dýrar og þar sem er einhver brenglun hjá mér í forgangsröðun þá finnst mér alltaf vera mikilvægara að kaupa eitthvað annað í staðin.

ég fór sem sagt í bóksölu stúdenta til að kaupa mér tvær stærðfræðibækur, eftir að hafa komist að því að þær voru ekki til í máli og menningu. ekki gekk skár í bóksölunni þar sem hvoruga bókina var þar að fá. (mig vantar ss stæ 503 og línulega algebru ef einhver á notaðar...) hins vegar fengust þar franskar skáldsögur á mjög góðu verði og ég gerði mér lítið fyrir og fjárfesti í einum fjórum slíkum.

þetta hljómar auðvitað mjög menningarlega, en á leiðinni út úr bóksölunni gerði ég mér grein fyrir afleiðingum þessarar ákvarðanar. ég mun ekki lesa þessar bækur nema bara í mesta lagi glugga í þær þegar ég er á bömmer yfir því hversu stórstígum afturförum ég tek í frönsku með hverjum deginum. og ef ég myndi lesa þær myndi ég vera að gera það á þeim tíma sem ég ætti að vera að reikna eða læra undir önnur fög. síðan þegar samviskusama stúlkan í mér fer að kvarta yfir því við mig á næstu vikum að ég verði að fara að kaupa mér stærðfræðibækur á hin stúlkan eftir að segja við hana: við eyddum öllum menningar- og menntunarsjóðnum í uppbyggilegar franskar skáldsögur. eyðum restinni í eitthvað annað... og hin samviskusama á eftir að kaupa þau rök.::: posted by anna at 12:24

21.8.03
 
uppgjör haustsins
það er eitthvað við árstíðaskipti sem lætur mig verða rosalega væmna. í dag er ég sem sagt mjög væmin þar sem í gær var hásumar með sólskini og fuglasöngi en í dag er haust. í fyrsta sinn í tvo mánuði er nefninlega ógeðslegt veður hérna á egilsstöðum, haustveður með tilheyrandi rigningu og roki.

þótt haustveðrið hafi kannski hrint væmninni af stað hjá mér í dag er veðrið ekki það eina sem minnir mig á haustið. ég er líka væmin í dag þegar ég hugsa um alla hina fuglana sem eru þegar flognir heim til sín og eru tilbúnir að byrja í skólanum á morgun. mig langar til að vera þannig fugl, en á meðan allir hinir lifa í spánýju hausti er ég enn föst í leifum sumarsins.

og eins og venjulega eru leifarnar miklu verri en maturinn sjálfur og mér hefur ekki leiðst svona mikið í allt sumar. vinnan snýst nú að langstærstu leyti um þrif og þrif og ekkert nema þrif. alltaf er maður þó að uppgötva eitthvað nýtt og ég verð að viðurkenna að áður gerði ég mér engan vegin grein fyrir þeim fjölda fjölskyldna hreinsiefna sem eru á markaðnum.

ég ylma eins og r-2, sótthreinsandi yfirborðshreinsir, og þrátt fyrir mjög ítrekaðar tilraunir hefur mér ekki tekist að fjarlægja fullkomlega af höndunum kísilhreinsinn sem ég var að vinna með í gær. heilinn minn er við það að gefast upp af aðgerðarleysi, en það mest krefjandi sem hann þurfti að takast á við í dag var að passa að ég pússaði alveg örugglega allar veggflísarnar inni á kvennaklósettinu í lobbýinu.

frídagana mína síðan ég kom hingað til egilsstaða get ég talið á fingrum einnar handar. þótt ég hlakki mikið til að koma heim þá get ég varla hugsað um að ég þurfi strax að byrja í skólanum. er ekki einhver í stemingu fyrir að skrópa nokkra daga í skólanum og fara út í hlýindin? það myndi óneitanlega draga úr væminni þar sem það myndi dreifa og þar með deyfa árstíðaskiptaniðursveifluna.

***

mér þætti vænt um ef einhver myndi lesa greinina mína á uvg.vg. þegar heilabúið er ekki vant því að nota gagnrýna hugsun er erfitt að setja sig í gírinn og hugsa skipulega. það væri gott ef góðhjartaðir lesendur myndu nenna að lesa greinina yfir og segja mér hvort það lesist í gegn að í staðinn fyrir heila er ég komin með hafragraut.

::: posted by anna at 19:58

17.8.03
 
myndbrot úr daglegu lífi III
þar sem ég sat í rúminu mínu í eftirmiðdaginn við prjónun tók ég eftir lítilli flugu sem var að klifra upp fótinn á náttborðinu mínu/ferköntuðu skólaborði. ég reyndi fá hana til að fljúga af stað en hún haggaðist ekki þegar ég reyndi að slá til hennar.
ég hætti að hugsa um hana í smá stund og fór að einbeita mér að því að telja lykkjur, þangað til ég tók eftir henni á veggnum nokkrum mínútum seinna. aftur reyndi ég að slá til hennar, en hún hljóp bara upp vegginn eins og hún ætti lífið að leysa. þá fór ég að skoða hana betur og tók eftir að hún var bara með einn væng.
ég ákvað að hætta við að drepa hana. maður getur ekki verið þekktur fyrir að drepa fatlaðar flugur.

::: posted by anna at 20:15

16.8.03
 
daginn í dag, daginn í dag gerði drottinn guð
það er orðin ný lenska í bloggheiminum að blogga um allt það sem fólk gerir á daginn en fara þar fremst í flokki ragnheiður og bragur. þótt ég hafi ekki í hyggju að apa þetta upp eftir þeim ætla ég þó að heiðra þetta trend með því að tileinka færslu dagsins deginum í dag.

ég var vakin hastaralega við það að stjúpmóðir mín/hótelstjórinn, kom inn til mín klukkan tuttugu mínútur yfir ellefu og tjáði mér að ég yrði að rífa mig á lappir. þetta kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir þar sem ég átti ekki að mæta á vakt fyrr en klukkan tólf. hún skýrði mér stöðu mála í snarhasti: hópurinn sem átti að vera í hádegismat klukkan tólf vildi borða klukkan hálf tólf og ég yrði að leysa hana af í móttökunni.
ég reis upp og mér til armæðu komst að því að hárið mitt var ekki gestum bjóðandi. ég dreif mig því á almenningssalerni hótelsins/heimili míns/menntaskólans þar sem aðstaða til steypibaða er fyrir hendi. þar sturtaði ég mig í flýti og var mætt í vinnuna tíu mínútum seinna.

þegar ég settist í móttökustólinn fann ég fyrir svengd í maganum. svengdin ágerðist og varð að hungri þennan einn og hálfa klukkutíma sem tók kanana að borða. þegar stjúpmóðirin/hótelstjórinn kom niður stökk ég af stað og tríttlaði upp stigann í matsalinn. þar tóku á móti mér hreindýrakjötbollur í brúnni sósu og kartöflur: ekki meltingarléttasti morgunverður í heimi. ég át þó bollurnar og hlunkaðist aftur niður í lobbý, þar sem magaverkur leyfði hvorki fleiri stökk né meira trítl.

vinnan eftirmiðdaginn var sérstaklega ánægjuleg þar sem á annan tug frakka heimsótti hótelið þannig að ég gat glatt mig og kúnnann með ýmsum leiðbeiningum upp á frönskuna. ég vökvaði, klappaði og talaði við blómin, ásamt því að að strauja dúka og tala við útlendinga. um sexleytið var aftur kominn matartími þannig að ég fór upp, enþá hálf slöpp í maganum eftir bollurnar, og þar lágu á matarbakkanum stærstu pítur sem ég hef áður augum litið. hver píta var á stærð við andlit venjulegs starfsmanns, þótt þær væru óneitanlega örlítið minni um sig. starfsmenn héldu að þarna væri komin máltíð fyrir tröllin í næsta húsi, en kom í ljós að ægir kokkur hafði einungis misreiknað sig örlítið þegar stærð pítanna var valin. þær voru engu að síður mjög bragðgóðar.

ég hélt áfram að vinna eftir matinn þangað til um ellefuleytið þegar ég ákvað að blogga örlítið um daginn í dag. eftir vinnu mun ég síðan heimsækja "v" nightclub á egilsstöðum, en þar ku vera ágætis dansiball í kvöld.
og þarna hafiði það.

::: posted by anna at 23:07

15.8.03
 
misskilningur
það er svo margt skemmtilegt sem kemur í ljós þegar maður verður eldri. í einmanaleika mínum tók ég upp á því um daginn að fara að lesa þyrnar og rósir, dæmabókina í íslenskum bókmenntum sem kennd er í ísl503. ég er búin að vera að reyna að lesa fávitana eftir dostojevskí í allt sumar, en þar sem ég næ aldrei löngum leslotum hef ég einhvern veginn ekki náð að komast inn í hana og þannig fór ég út í að lesa þessa bók.
í bókinni fann ég ljóð sem ég kunni að syngja þegar ég var lítil. ég gerði mér þá grein fyrir í fyrsta sinn að ljóðið sem ég hef sungið svona oft við þetta lag meikaði einhvern sens og það sem meira er, það er alveg óendanlega fallegt og rétt.

þú veist í hjarta þér
þú veist í hjarta þér,
kvað vindurinn,
að vegur drottnarans
er ekki þinn, -
heldur þar sem gróanda þytur fer
og menn þerra svitann af enni sér
og tár af kinn.

þú veist í hjarta þér,
kvað vindurinn,
að varnarblekking
er dauði þinn. -
engin vopnaþjóð er að vísu frjáls,
og að vanda sker hún sig fyrr á háls
en óvin sinn.

þú veist í hjarta þér,
kvað vindurinn,
að vald og ríki' er ekki
manngrúinn. -
hvað þarf stóra þjóð til að segja satt,
til að sólarljóð hennar ómi glatt
í himininn.

þorsteinn valdimarsson
smalavísur, 1977


::: posted by anna at 23:47
 
ég viðurkenni fúslega að síðan ég kom til egilsstaða hef ég ekki látið mig vanta á þá leiki með hetti sem fram fara þegar ég er ekki að vinna. þaðan kemur næsta myndbrot.

myndbrot úr daglegu lífi
á meðan liðið er í sókn stendur mótíveraður varnarmaðurinn við miðjuna. "einbeita sig, strákar! horfa á bolti, horfa á bolti" öskrar hann og bætir við með dönskum hreim "tala svo meire saman!".

::: posted by anna at 01:04
 
fótbolti
þegar maður er að vinna vaktir og á eiginlega hvergi heima missir maður af ýmsum hlutum alveg óvart, og getur ekki munað að gera þá af sjálfsdáðum. ég ætlaði mér að ná sjö-fréttunum en steingleymdi því, en var síðan svo heppin að muna eftir og ná tíu-fréttunum. í því að ég sá svipmyndir af kr-ingunum mínum gera jafntefli við valsara gerði ég mér grein fyrir að ég hefði ekki hugmynd um hvort kr væru efstir í deildinni eða í fallhættu!
þetta kann að hljóma eins og ekkert væri eðlilegra. það er auðvitað fullt af fólki sem veit ekki einu sinni hvaðan haukar eru, en ef tekið er tillit til minna fyrri ára þá er þetta stórfurðulegt!

ég var nefninlega einu sinni sjúkur fótboltaaðdáandi. aðdáun mín beindist að vísu fyrst og fremst að fótbolta á englandi, en jaðaráhrifa hennar gætti þó óneitanlega í áhuga á íslenskum fótbolta. á hápunkti þessa tímabils horfði ég á amk þrjá fótboltaleiki í viku, en þeir voru oft fleiri. það voru auðvitað fyrst og fremst helgarleikirnir, tveir á laugardögum og einn á sunnudögum, og síðan bættust við meistaradeildarleikirnir og aðrir evrópuleikir á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum.
ég lét mér ekki nægja að kaupa fótboltartímarit heldur hafði ég skoðun á því hvaða tímarit væru best. við upphaf áráttutímabilsins var tímaritið match langbest, en því hrakaði á sama tíma og shoot gekk í gegn um andlitslyftingu, og þannig náði shoot yfirhöndinni.

þekking mín á fótboltamönnum á englandi var til fyrirmyndar. ég vissi hvað þeir hétu, hvaða stöðu þeir léku, hjá hvaða liðum þeir spiluðu og höfðu áður spilað hjá... og síðan vissi ég hvað væri uppáhaldsmaturinn þeirra (útaf tímaritumun, sko). ég átti mér sálufélaga í þessum málum og við bjarney skemmtum okkur við að slúðra um fótboltamenn og keppast um vissi meira (hvað getur þú nefnt marga leikmenn hjá west ham? manstu hjá hvaða liðum thierry henry spilaði áður en hann fór til arsenal?)

það voru síðan ákveðin atvik í lok leiktíðarinnar 98/99 sem létu mig skilja að áhugi minn væri orðinn í hæsta máta óeðlilegur, þótt ekki sé farið nánar út í þau. ég sá ljósið og fór að sjá allan þann tíma sem fór til spillis í fótboltagláp sem skilaði engu. eftir því sem ég fjarlægðist fótboltamenninguna fór ég að hafa minni áhuga á leikjunum og svo framvegis.

allt er gott sem endar vel, þótt ég verði að viðurkenna að eitthvað eimir enn eftir af þráhyggjunni. þótt mér líki ekki beint illa við fólk sem heldur með man utd eða inter milan þá verð ég ósjálfrátt skeptísk á það . núna er mér nokk sama um fótbolta ef ég heyri ekki neitt af honum. hins vegar ef ég frétti eitthvað af honum fer ég strax í bullandi meðvirkni.
til dæmis hugsaði ég strax þegar ég heyrði í fréttunum í kvöld að kr væri einu stigi á undan fylki og ætti leik til góða fór ég að hugsa illilega um allt fólk sem ég þekki í árbænum og fór að vona innilega að fylkir grúttapi næsta leik.
eins og mér var dásamlega mikið sama um fótbolta klukkan tíu mínútur í tíu í kvöld.

::: posted by anna at 00:59

13.8.03
 
ég ætla að byrja nýjan þátt á blogginu í dag. mér hefur að vísu ekkert gengið neitt rosalega vel að halda þessum blessuðu þáttum mínum gangandi. hrós dagsins átti til dæmis að vera daglegur viðburður en hefur ekki einu sinni verið vikulegur og röðin "að vera eða ekki vera..." dó eiginlega í fæðingu.

myndbrot úr daglegu lífi
háfsköllóttur og þéttvaxinn húsvörður á miðjum aldri íklæddur köflóttri skyrtu og sparibuxum sem hanga á honum með breiðum axlaböndum með lítið bros á vör, flautandi open your heart og starandi út í loftið án þess þó að vera að horfa á neitt sérstakt.

::: posted by anna at 12:53
 
menningarviðburðir
ég er að glíma við enga smá dílemmu. ef ég verð ekki að vinna á föstudagskvöldið eru heilir tveir viðburðir sem mig langar að fara að sjá. ég er ekki að meina að þar sem ég sé stödd sé eitthvað lítið við að vera á venjulegum dögum, ég á við að báðir þessir viðburðir líta út fyrir að vera stórfenglegir og eitthvað sem má alls ekki missa af.

fyrri viðburðurinn eru tónleikar í egilsstaðakirkju með kammersveitinni ísafold. ég sá auglýsingu frá þessarri sveit sem var mér að öllu ókunn og hreifst af tónskáldavali þeirra. í framhaldinu heimsótti ég heimasíðu hljómsveitarinnar og komst að því að þessi kammersveit er bara skipuð elítu ungra tónlistarmanna á íslandi! efnisskráin virkar mjög spennandi og mér sýnist á öllu að þetta sé skemmtun sem bara geti ekki klikkað. ég myndi fara án þess að hugsa mig tvisvar um ef...

...það væri ekki fyrir trúbadorfest 2003 á reyðarfirði. akkúrat þetta kvöld eru kk og magnús einarsson í egilsbúð og ætla að flytja ferðalög. þessi geisladiskur er ekki bara einn besti trúbadordiskur sem ég hef heyrt heldur bara einn af bestu geisladiskum sumarsins. það er að vísu óneitanlega galli að ég á ekki bíl og þótt ég ætti bíl myndi ég hvort eð er ekki kunna að keyra hann. þrjátíuogfjórir kílómetrarnir til reyðarfjarðar eru eiginlega fulllangir fyrir stúlku á tveimur jafnfljótum, jafnvel þótt þeir yrðu nýttir að stíga reiðhjól.

þetta leysist auðvitað allt mjög farsællega ef ég þarf að vinna... sem er reyndar alls ekki svo ólíklegt. en segiðið mér síðan að það sé ekkert að gerast á landsbyggðinni!

::: posted by anna at 12:03

12.8.03
 
samræmd stúdentspróf, hvað er það?
eftir hádegi vissi ég ekkert hvað ég átti af mér að gera. ég var vöknuð, en átti ekki að byrja að vinna fyrr en tveimur tímum seinna. þar sem ég bý í skólastofu ákvað ég að fara smá rúnt til að kynna mér skólakynni annarra framhaldsskóla. ég fann ekkert rosalega margt skemmtilegt, skoðaði kennlustofur og endaði inni á kennarastofunni. þar fann ég skólavörðuna, blað kennarasambands íslands og þar sem ég var einu sinni í kennarasambandi íslands og fékk þetta merka rit sent heim fannst mér ég þurfa að setjast niður og blaða aðeins í því. yfirskrif tölublaðsins var samræmd stúdentspróf og þar gleymdi ég mér í litla klukkustund við að lesa ýmsa pistla og viðtöl um þetta mál.

meðal annars var þarna umfjöllum um opinn fund sem haldinn var um samræmd stúdentspróf í maí. þar kom fram að gunnlaugi íslenskukennara hafi verið nokkuð heitt í hamsi og að guðmundur edgarsson sé á móti samræmdum stúdentsprófum (sem er reyndar þvert á þann flokk sem hann hefur stutt frá blautu barnsbeini). sigurborg áfangastjóri lætur líka í ljós, í grein eftir hana sjálfa, efasemdir um að samræmdu stúdentsprófin eigi eftir að geta metið alla þá þætti sem á að kenna í framahaldsskóla skv. aðalnámskrá.
niðurstaðan sem hægt var að draga af lestrinum var sú að kennarar væru ýmist sammála eða ósammála því að taka upp samræmd stúdentspróf. hins vegar væru þeir upp til hópa frekar ósáttir hvernig tíminn sem hefur liðið síðan ákveðið var að þeim yrði hrint í framkvæmd hafi verið notaður, þar sem enginn vissi neitt um hvernig staðið yrði að þessum prófum.

það rann upp fyrir mér að lestri loknum að ég hafði eiginlega ekki heyrt minnst á samræmd stúdentspróf síðan 10. maí síðastliðinn. það kom fram í skólavörðunni að frekari upplýsingar kæmu fram á heimasíðu kennarasambands íslands innan skamms og fólk gæti farið þangað til að skoða framhald þessarar umræðu. ég fór þangað og sá margt mjög áhugavert. samræmd próf í íslensku mun fara fram mánudaginn 3. maí 2004 og fimmtudaginn 2. desember sama ár og hafiði það. þarna var líka bréf frá félagi framhaldsskólakennara frá 20. júní þar sem framkvæmd prófanna var gagnrýnd. ég man ekki eftir að nein fjölmiðlaumfjöllun hafi verið í kring um hvorugan af þessum þáttum.
af því dreg ég þá afstöðu að þetta mál falli greinilega í flokk með þeim sem enginn nennir að tala um nema í nokkra vormánuði á fjögura ára fresti.

::: posted by anna at 00:52

10.8.03
 
...fyrr en misst hefur
það er alveg ótrúlegt hvað maður getur saknað lítilla hluta þegar þeir eru farnir, þótt maður hafi aldrei pælt í tilvist þeirra fram að því.
stóra klukkan í lobbýinu er orðin batteríislaus og hefur verið fjarlægð af veggnum. ég komst að því þegar hún fór hversu stór hluti af þeim tíma sem ég eyði í vinnunni fer í að glápa á þessa klukku. Ég þarf að halla mér aðeins fram og horfa aftur á bak til að sjá hana þar sem póstkortastandur stendur í beinni sjónlínu frá skrifstofustólnum mínum. núna er ég bókstaflega alltaf að halla mér fram og og stara aftur yfir öxlina á tóman vegginn, eins og alllgjör bjáni. gestirnir horfa skringilega á mig því þeir halda að ég sé að horfa á þá!
svo veit ég aldrei hvað klukkan er. ég fór meira að segja allt of seint úr vinnunni í gærkvöldi út af því að ég fattaði ekki að klukkan væri farin að hægja á sér af batteríisleysi.
enginn veit hvað átt hefur...

::: posted by anna at 07:42
 
pólitík eða léttmeti
nú er orðið dálítið langt síðan að ég hóf bloggun, en það gerðist í aðdraganda alþingiskosninganna. í hinni endalausu leit að því að skera mig úr fjöldanum ákvað ég að reyna að hafa mitt blogg með öðru sniði en önnur blogg. ég vildi vera með pólitískan áróður en jafnframt vera dálítið persónuleg. tilgangurinn var göfugur: að fá sem flesta til að kjósa rétt.

fyrst bloggaði ég næstum því bara um pólitík, enda var á þeim tíma vart rætt né hugsað um neitt annað. eftir blessaðar alþingiskosningarnar tók ég mér síðan blogghlé í nokkrar vikur, áður en ég endurvakti þessa síðu og þá aðeins á öðrum nótum. yfirskriftin pólitískt léttmeti á ennþá við, en ballansinn á milli pólitíkurinnar og léttmetisins er eilítið breyttur. þetta var víst orðið svo leiðinlegt að enginn nennti að lesa þetta, og nú reyni ég með dönnu-ískum aðferðum að fá fólk til að meðtaka áróðurinn (sjá síðustu færslu).

ástæðan fyrir því að ég er að tjá mig svona mikið um þetta er sú að atli nokkur bollason gerði athugasemdir við að ég skipti krækjum á annarra manna blogg eftir yfirskriftinni, það er í flokk pólitíkur og hins vegar léttmetis. Hann velti upp spurningum á eigin bloggi hvernig stæði eiginlega á þessari skiptingu. ég mun nú reyna að svara því.
eins og áður sagði átti þessi síða að vera pólitísk og í upphafi áttu bara að vera tenglar á fólk sem tæki afstöðu á veraldarvefnum. hins vegar ímyndaði ég að gæti skapast nokkur félagslegur órói í kring um þá ákvörðun, þar sem það myndi þýða útskúfun góðra vina með góðar, ópólitískar bloggsíður. og þannig varð skiptingin til. ég setti fólk sem ég veit að er flokksbundið beint í pólitíkina sem og fólk sem tjáði sig fjálgslega um pólitík, en hef haft þá reglu að spyrja fólk í hvorum flokknum það vill tilheyra. ef ekkert samráð er haft við bloggara hef ég sett hann í léttmetið, enda hefur reynslan kennt mér að fólk vill heldur vera í léttmetinu, nema það sé þeim mun pólitískara. þessi flokkun er þó langt frá því einhver endanlegur dómur og ef bloggarar vilja vera endurflokkaðir verða þær óskir auðvitað teknar til greina.

ég geri mér grein fyrir að þessi skipting er líklega úrelt, enda eru næstum því allir hættir að hugsa um pólitík. hvaða máli skiptir hún eiginlega, nema bara í aðdraganda kosninga: þessa nokkra mánuði sem ekkert skiptir máli nema hún.

::: posted by anna at 01:21

8.8.03
 
döggu-ismi eða dönnu-ismi
ég hef ákveðið að taka upp hinn alræmda döggu-isma. nafnið kemur frá högum hinnar bloggþekktu döggu í kringum greinaskrif hennar. hugmyndafræði döggu-isma tengist mikilvægi upplýsingaflæðis og hvernig bloggsíður geta orðið staðgenglar auglýsinga ef vel er haldið á spöðunum.

ég á nefninlega grein á uvg.vg.

mig langar til að reyna að stækka hugtakið um döggu-isma og jafnvel breyta nafninu í dönnu-isma. í útvíkkuninni felst að spila inn á nálægðina sem fylgir persónulegum bloggunum til að "selja" betur.
í þessu einangraða tilfelli er um um það að ræða að fá fólk til að lesa pólitískan áróður. ég þekki af eigin reynslu að fólk sem sér krækju í bloggpistlum á pólitískar síður fer ekki að skoða þær nema á blogginu sé á einhvern hátt að finna annan vinkil en á pólitísku síðunni. þannig verða umræður á athugasemdakerfum* oft til þess að maður lesi pólitíska áróðurinn, einmitt vegna þess að þar fær maður vinkil annars fólks á málið.
þar sem ekki er hægt að hafa bein áhrif á skrif annarra á athugasemdakerfum er vert að benda á aðra leið sem hægt er að fara til að ná fram sömu áhrifum. í sambandi við áðurauglýsta grein langar mig nefninlega til að greina stuttlega frá því sem varð þess valdandi að ég valdi akkúrat þetta umræðuefni. til að lesendur geri sér glögga grein fyrir því sem ég er að fara með þessum sálfræðilegu útskýringum ætla ég nú að hefja skrif eins og þau ættu að vera til að fylgja dönnu-isma, en ekki til að greina hann niður. það er hægt að bera saman muninn á skáletraða tilkynningaforminu hér að ofan og þessum litla pistli sem hér fylgir.

síðan ég kom til egilsstaða hef ég farið að hugsa dálítið öðruvísi hvað varðar dreifaraskap (hagi fólks sem býr í dreifbýli). þótt ég hafi bara verið hérna í rúman mánuð finnst mér samt að ég skilji miklu betur hvað fólk er að tala um með slæma þróun í byggðamálum. þegar reykvíkingar tala um dreifara er eins og dreifarar séu bara einhver aðskotadýr sem þarf að sýna ljósið og flytja til reykjavíkur.
menningin hérna er að miklu leyti öðruvísi, en hver segir að hún sé eitthvað verri? afhverju vorkenna unglingar í reykjavík krökkum á landsbyggðinni? er það ekki bara fáviska um hagi fólksins?
skoðiði hugmyndir mínar um borgríkið ísland og byggðaþróun, núna á uvg.vg


*ég skil ekki afhverju ég hef hingað til notað orðið kommentakerfi, sem er óþjált vegna fjölda káa, þegar hægt er að nýta íslenskulegri útgáfu af sama hlut.

::: posted by anna at 00:54

6.8.03
 
sigur!
það er engin undankomuleið frá hápunkti leiðindanna lengur. ég þarf að fara að læra upp tónfræði þar sem stöðupróf bíður mín í tónlistarskólanum áður en skólaárið hefst. ég er búin að vera að slá lærdómnum á frest vegna þess á hvað hálum ís tónlistarskólaganga mín væri, en nú þýðir ekkert á morgun lengur...
... því ég hef hrósað hálfum sigri í baráttunni við setljarnarnes! sigurinn felst í skilaboðum sem ég fékk frá bæjarskrifstofunum um að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af tónlistarskólanámi mínu næsta skólaár. seltjarnarnes mun sjá fyrir því að ég geti stundað mitt nám að vild. húrra og jibbí og allt það!
þótt ég hafi ekki tilkynnt það á blogginu mínu (eins og ein ákveðin stúlka gerir þegar hún skrifar greinar) þá birtist aðsend grein eftir mig í fréttablaðinu í síðustu viku þar sem ég gagnrýndi seltjarnarnes harðlega fyrir seinaganginn. miðað við viðbrögð bæjarfélagsins síðan greinin birtist er ég farin að halda að hér hafi ég loksins fundið veikan blett á íhaldssamfélaginu á nesinu. þess vegna nú er komið að því að ég fari að láta eins og illa uppalið barn: um leið og ég fæ eitthvað nýti ég sömu leið og ég fékk það til að fá eitthvað annað. það er margt sem ég vil fá breytt í sveitarfélaginu. meðal annars er ég á því að launin í unglinga- og bæjarvinnunni á seltjarnarnesi séu glæpsamlega lág, og svo hef ég alltaf verið ósátt við hvað jólaskrautið okkar er eitthvað smekklaust. best ég skrifi grein í fréttablaðið, þá fæ ég mínu fram!!
nei, ég segi svona. ég held bara að þó við búum í allgjöru mafíulýðveldi þar sem dómsvaldinu er stjórnað af hagsmunaaðilum og allt viðskiptalíf sé meira og minna ofið inn í vef með valdhöfum þessa lands, geti réttlætið náð fram að ganga... einstaka sinnum.

::: posted by anna at 20:10

5.8.03
 
jæja, nú er allt fallið í ljúfa löð aftur eftir reykjavíkurflandur mjög svo kryddað af krítaræsingi nokkura vina minna. austurlandið heilsaði mér með fegurð sinni strax þegar flugvélin mín flaug yfir á svæðið norðan vatnajökuls, þar sem ekki var ský á himninum til að eyðileggja þessa ánægju fyrir mér.
heima beið mín svo vel skrifaður launaseðill og ekki laust við að hann hafi kallað fram bros á varirnar.
ég ber öllum þeim sem gerðu litla helgarfríið mitt að ánægjuþrunginni verslunarmannahelgi bestu þakkir. góðar stundir.

::: posted by anna at 00:27

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla