stúlkan léttmeti26.11.03
 
viðbætur í bloggheima
mér hefur fundist upp á síðkastið bloggheimurinn vera að slappast. margir gamlir og góðir bloggarar hafa tekið upp aumingjablogg og sumir jafnvel hætt fyrir fullt og allt. þegar ég reiknaði út sorg mína yfir verri bloggheimi tók ég ekki inn í myndina alla þá nýju bloggverja sem nú eru að stíga sín fyrstu skref. fjöldinn er slíkur að ég hef varla við að bæta nýjum krækjum í safnið.

meðal hinna nýju er systir mín hún helga. hún hefur ekkert bloggað enþá en vonandi kemur þessi umfjöllun henni til að gera það. nú er bara að vona að bloggheimurinn stækki og bestni enn frekar með því að hinar systurnar komi sér til að blogga. á ég þá sérstaklega við hina orðheppnu sædísi og er þetta áskorun til hennar.

ég vona að lesendur verði duglegir að skoða nýjar krækjur. minni einnig á að með þessu hefur leikurinn minn, tour de blog, gengið í endurnýjun lífdaga. skora á alla að fara dálítið um hina nýju bloggheima, og koma síðan við á haltukjafti.blogspot.com, því það er bara fyndið.

::: posted by anna at 18:20

24.11.03
 
afmælisblogg
afmælisdagar eru næst bestu dagar ársins. bestu dagarnir eru jólin. ef maður er ekki glaður á afmælisdaginn, hvenær á maður þá að vera það? ef maður bloggar ekki á afmælisdaginn, hvenær á maður þá að gera það? ef manni þykir ekki vænt um aðra á afmælisdaginn, er maður ekki óhæfur til að þykja vænt um aðra?

ég er sem sagt orðin nítján ára og allt gott og blessað með það. ég get samt ekki sagt að síðustu nítján ár hafi farið alveg sem skyldi. þegar ég hugsa um það get ég eiginlega ekki sagt að eitthvað merkilegt hafi gerst þetta átjánda ár ævi minnar, hvað þá öll hin sautján. ég hef einhvern veginn áorkað heldur litlu og get ekki stoppað mig í að hugsa, á þessum nítjánda afmælisdegi mínum, að ég sé:

a) sex árum eldri en beethoven þegar hann gaf út fyrsta tónverkið sitt.
b) tveimur árum eldri en laxness þegar barn náttúrunnar kom út.
c) tveimur árum eldri en britney spears þegar baby... one more time kom út. d) tveimur árum eldri en wayne rooney þegar hann spilaði í fyrsta sinn með enska landsliðinu.
e) jafn gömul og pabbi þegar hann átti von á fyrsta barninu sínu.

ég held að tíminn sé að hlaupa frá mér.

::: posted by anna at 16:54

20.11.03
 
eta
í leit að fréttamynd til að vera uppspretta ljóðs, sem er eitt af heimaverkefninum í ritlist, rakst ég á áhugaverða frétt í fréttablaðinu. hún kemur örugglega öllum öðrum en mér fyrir sjónir sem hver önnur frétt, en vegna þess hversu víðförul ég er snertir hún mig persónulega. þetta var frétt um að meðlimir í eta, aðskilnaðarhreyfingu baska, hefðu verið handteknir.

fyrir nú tæpum tveimur árum fór ég í ferð til franska hluta baskalands. margir halda að baskaland sé á spáni, en í rauninni er þetta landsvæði sem þekkir ekki landamæri eins og þau eru í dag og þess vegna nær lítill hluti baskaland yfir til frakklands. þetta var rúmlega hálfs mánaðar ferð þar sem ég bjó hjá frönskum böskum og lærði um baskneska menningu. ég fór í skóla þar sem krökkunum var boðið að taka basknesku sem annað mál, en bærinn sá heitir einmitt navarra.

að lifa með böskum var magnað. fjölskyldan mín talaði að vísu ekki basknesku heima hjá sér, en það gerðu þó margar fjölskyldur á þessu svæði. útvarpið var á basknesku og í íþróttum voru meira að segja æfðar baskneskar íþróttir. ég fékk að prófa pailla (já, alveg eins og rétturinn) sem er næstum því eins og skvass, nema þau nota mjög þunga tréspaða til að slá boltanum í vegginn.

í fréttinni í fréttablaðinu var sagt frá tíu handtökum meðal annars í navarra, bænum sem ég var í. þegar ég var þar gerði ég mjög heiðarlegar tilraunir til að komast í samband við eta, en með engum árangri. fólk sagði mér að eta væru mjög veik samtök í frakklandi og það væru bara asnar sem væru í því. samt sögðu allir að baskaland ætti að vera frjálst land.

eftir dvölina í baskalandi finn ég að sýn mín á eta hefur breyst. áður hefði ég örugglega fagnað handtöku tíu forustumanna í samtökunum, en núna er ég bara dálítið spæld. ég veit að baskaland á sér eigin menningu, eigið tungumál og að böskum finnst mjög asnalegt að landið sé skorið í tvennt af því að ekkert tillit var tekið til þeirra þegar landamæri frakklands og spánar voru ákveðin. ég segi því bara euskadi ta askatasuna, frjálst baskaland!!

::: posted by anna at 13:35

11.11.03
 
vefvæmni
ég á svo dásamlega væmna grein á uvg.vg. endilega tékkiði á henni og elskið pólitíska vefvæmni. (ég er jafnvel að hugsa um að sérhæfa mig í henni)

::: posted by anna at 13:22

7.11.03
 
saumaskapur
ég kann ekki að sauma. það er dálítið leiðinlegt þegar mann langar til að sauma eitthvað. ég hef stundað ýmsa tilraunastarfsemi með saumaskap. skemmst er að minnast "hólksins" sem ég saumaði. hann átti upphaflega að vera hvítur kórkjóll, en varð að hólki sem ég þurfti að vanhelga sjálft aðfangadagskvöld með að klæðast.

mér er sagt að saumaskapur gangi í erfðir í kvennlegg. mamma kann ekki að sauma og ekki amma heldur. ég held að rauðsokkugenið í ömmu sé ríkjandi yfir saumageninu, og þess vegna kunnum við ekki að sauma. amma var nefninlega rauðsokka og það var mamma líka. fyndið samt að hugsa til þess að það eina sem ég man eftir að mamma hafi saumað er púði með útsaumuðu rausokkumerki.

ég erfi þessa genastökkbreytingu þó ekkert við hana ömmu. ég er ágætlega sátt við að vera afkomandi rauðsokkuhreyfingarinnar. svo eiga ömmugen fimmtíu prósent í rauða hárinu mínu. ég hef líka komist alternatífi fyrir saumaskap, en það eru hárspennur. það er hægt að festa ótrúlegustu hluti saman ef maður er leikinn með hárspennur.

boðskapur færslunnar: maður á aldrei að skýla sér bak við genagalla.

::: posted by anna at 11:37

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla