stúlkan léttmeti29.12.03
 
sorgardagur
í dag er mikill sorgardagur í lífi mínu. í dag get ég ekki lengur gengið inn og út um dyr strætisvagna reykjavíkur og nágrennis án þess að setja klinkpeninga í baukinn. í dag rann rauða kortið mitt út. að því tilefni hef ég ákveðið að ganga með rautt band um vinstri upphandlegginn. alla þá strætisvagnabílstjóra sem eru fastagestir á þessari síðu bið ég að sýna mér samhug í sorginni.

að því tilefni ætla ég að viðra skoðanir mínar um strætókort. mér finnst að fastagestir í gulu vögnunum ættu að geta keypt sér árskort í strætó. það myndi vera hagstæðara og þægilegra fyrir alla aðila, svo ekki sé nú minnst á að sú sorg sem fylgir því að sjá á eftir strætókortinu sínu á vit útrunna bræðra sinna myndi einungis hitta mann fyrir einu sinni á ári.

svo finnst mér að strætókortin ættu að vera með mynd af manni sjálfum. þá gæti enginn annar notað það nema sá sem myndin er af og strætókortaþjófnaður myndi vera úr sögunni. einhver stal einu sinni af mér þriggja vikna gömlu rauðu korti. því fylgdi nístandi sársauki sem ég óska ekki einu sinni verstu óvinum mínum.

::: posted by anna at 18:26

26.12.03
 
einu sinni var...
einu sinni var ég á egilsstöðum. þá spilaði ég mikið rommí við bylgju og dísu á hverjum degi og leiddist aldrei. kannski var það sérstaklega því að þakka að ég vann þær allaf með miklum yfirburðum, oftast með helmingi fleiri stig en næsta fyrir neðan. þá borðuðum við líka kex fyrir tuttugu og níu krónur en það er önnur saga.

núna er öldin önnur. í dag spilaði ég púkk eins og venja er hjá mér á jólunum. ég vinn næstum því alltaf nema greinilega í dag. um leið og ég gaf fyrsta spilið hófst ósigurganga mín sem endaði í skammarlegu gjaldþroti. ég skil ekki hvað er að gerast með mig!

ég get samt huggað mig við það að ég hef ekki tapað mönduhæfileikanum. ég fékk möndluna annað árið í röð og bíð spennt eftir næstu jólum til að ég geti fengið hana aftur og jafnað "þrjú ár í röð" metið hennar helgu.

::: posted by anna at 23:48

25.12.03
 
dyraat
væri ekki fyndið að gera dyraat hjá davíð oddsyni á jóladag?

::: posted by anna at 15:23
 
vinsamleg tilmæli til biskupsins yfir íslandi
kæri biskup!
ég var við miðnæturmessu þína í dómkirkjunni á sjálfri jólanóttinni. það var mjög hátíðlegt að vanda og gott að vita að það er til fólk sem nennir að mæta í vinnu klukkan hálf tólf á jólanótt til að predika yfir lýðnum. ég verð samt að segja að mér fannst þú ekki hafa unnið vinnu þína nógu vel. þér tókst nefnilega með predikuninni þinni næstum því að skemma jólanóttina fyrir mér.

fyrir mér snúast jólin um gleði og frið. ég er ekki trúuð en tek samt jólin inn á mig. mér finnst bara að predikun biskups í sjálfri dómkirkjunni á aðfangadagskvöld eigi ekki að snúast um að rakka niður síðdegisblöð og tala í kaldhæðni um stöðu þeirra í samfélaginu. ég játa að mér varð svo mikið um að ég átti í erfiðleikum með að svara þér í söngnum og gat ekki fyrir mitt litla líf muldrað með í faðir vorinu.

ekki veit ég af hverju þú ert svona bitur. mér finnst það líka ekki koma mér við, sérstaklega ekki á aðfangadag. mér finnst að það fólk sem mætir til miðnæturmessu í dómkirkjunni eigi að fá að fara heim með gleði í hjartanu en ekki svo hálfpirrað að því finnst það knúið til að deila reynslu sinni með öðrum á veraldarvefnum. með von um glaðari jólapredikanir í framtíðinni, stúlkan.

::: posted by anna at 15:22

23.12.03
 
friðarganga
allir mæta auðvitað í friðargöngu. ef einhver telst ekki með í þessum öllum langar mig til að koma á framfæri eftirtöldum atriðum. kannski segir það sig sjálft en friðargöngunni fylgir ósk um frið. mér finnst gangan vera til friðar í víðum skilningi, ekki síður til að halda friðinn á milli fólks í daglegu lífi en til friðar í heiminum. margir eru í friðargöngunni og ef til dæmis lítið barn á þá æðstu ósk að fá að hitta steingrím j. eða ingibjörgu sólrúnu þá verða þau örugglega þar. það er rosalega jólalegt og öruggt að margir þeir sem hafa óskað þess að komast í jólaskap verður að ósk sinni. einnig er óskandi að söngurinn í göngunni verði íðifagur að vanda.

hún leggur af stað á slaginu sex frá hlemmi. ekki missa af þessu frábæra tækifæri til að fá óskir uppfylltar.

::: posted by anna at 01:17

22.12.03
 
laugavegurinn
ég er mikil miðbæjarkona. ekki bara fyrir þær sakir að ég hef alltaf búið í vesturbænum og finnst hundraðogeinn og hundraðogsjö vera staðirnir sem maður á að vera á (með undantekningu frá þessari reglu fyrir hundraðogsjötíu). mér finnst bara úthverfi vera slæmir staðir. maður getur ekki labbað neitt. til dæmis er lífisins ómögulegt að fara labbandi á milli staða í smárahverfinu. það er einfaldlega ekki hannað til þess.

miðbærinn er mikilvægur fyrir reykjavík. allar borgir hafa miðbæ, sérstaklega höfuðborgir. þess vegna legg hin pilsklædda ég á mig að ganga eftir laugaveginum þegar ég ætla að kaupa jólagjafir. ég fer bara í kringluna og smáralind í allgjörum undantekningatilvikum. mér finnst náttúrulega vera stemning að labba eftir laugaveginum, en fyrst og fremst hugsa ég um verslunina í miðbænum og mikilvægi þess að efla hana.

::: posted by anna at 12:10

19.12.03
 
trúartákn
íslenskir fjölmiðlar fjalla mikið um chirac og trúarbragðamálið svokallaða. chirac ætlar nefninlega að banna trúartákn í skólum, þá er átt við blæjur, gyðingahúfur og krossa. mér finnst mjög skrítið að vera að fjalla um þetta svona mikið. þegar ég var í frakklandi var bannað skv skólareglum að bera trúartákn í skólanum.

samt var ein stelpa sem var alltaf með höfuðklút að hætti múslima. fólk horfði mikið á hana. áður en ég var búin að vera í mánuð í skólanum vissi ég að hún ætti pabba sem væri strangtrúaður múslimi. hann átti líka að lemja hana ef hún væri ekki með höfuðklútinn á hverjum degi.

enginn annar var með höfuðklút nema hún. samt voru margir með stóra krossa um hálsinn.

::: posted by anna at 01:30
 
dagurinn runninn upp
ég er búin að skera hundrað lauka, tvö hundruð sveppi og fimmtíu tómata. ég er búin að blanda því við þúsund lítra af grænmetissoði ásamt áttatíu lárviðarlaufum og fjórtán dósum af karrý. ég er búin að sótthreinsa allt húsið mitt svo vel að enginn má stíga fæti inn í það, allra síst subban ég.

ég er búin að kaupa ný föt á mig yst sem innst. ég er búin að klippa á mér neglurnar en samt er ég hvorki búin að fara í bað né klippingu þótt það sé á dagskrá. ég er búin að hugsa um margt í dag, samt ekki jólin. ég er búin að reikna út meðaleinkunina mína og fara að kaupa hvítan og ljótan hatt sem ég hlakka í alvörunni til að setja á mig.

allt þetta hlýtur að gera morgundaginn fullkominn. ef ekki getur ekki verið að ég sé tilbúin að takast á við lífið. þá ætla ég aftur að innrita mig sem busi í menntaskóla. ætli ég prófi þá samt ekki einhvern annan.

::: posted by anna at 01:09

15.12.03
 
Það kex eitt sem hafði klesst 'ann

Það kex eitt sem hafði klesst 'ann
og hor þótti meir' en nóg
lemur með rósum á sæðum
og treður í gubbusjó.

Ég vann kexi seina tómi
sem skvaldur sig hékkst og má,
þótt þingið borði minn huga
í tjóðri á seinvana krá.

Og í streng ég er ár og ölur
með amandi vörð við hyl.
Það kex eitt sem hafði klesst 'ann
það skeit ekki, ég er til.

úr ljóðabálkinum "frumleg ljóð tileinkuð minningu halldórs laxness og steins steinarrs" eftir mig og uglu.


::: posted by anna at 19:24

12.12.03
 
frændadiss
auglýsi svokallað frændadiss á bestu síðu allra tíma. allir að skoða og það vel.

::: posted by anna at 15:01
 
tónleikaundirbúningur
ég er að fara að spila á tónleikum í kvöld. þetta eru jólatónleikar framhaldsdeildar í tónskóla sigursveins og verða mörg góð atriði að vanda. í aðdraganda þessara tónleika hefur mikið verið æft af allskonar nótum. en það er ekki það eina sem þarf að skipuleggja.

eins og allir vita sem hafa spilað á klassískum tónleikum skiptir fataval miklu máli. greinilegt er að mikil vakning hefur orðið meðal nema í tónlistarskólum hvað þetta varðar. kannski sem betur fer, því ég leyfi mér að fullyrða að engin stétt manna í landinu klæðir sig verr en tónlistarmenn. fátt er líka hræðilegra en að sjá kóra eða hljómsveitir með fullfrískum börnum og unglingum koma fram klædd eins og fimmtugir einstaklingar á leið í jarðarför.

kvartettinn minn er duglegur í að velja falleg föt til að vera í. mörgum er í fersku minni þegar við komum fram í öllum regnbogans litum og fengum viðurnefnið regnbogakvartettinn. (hann hefur reyndar líka verið kallaður kvartettinn sem fann grúvið, en það er önnur saga.) í kvöld verður þemað rautt.

ég er líka að spila með píanóleikara á sömu tónleikum. það skapar dálítinn vanda þar sem mér finnst kannski ekki alveg upplagt að vera með sama fataþema í tveimur atriðum á sömu tónleikum. þótt það sé dálítið djarft held ég að þetta verði að leysast þannig að ég komi með föt til skiptanna og hreinlega skipti á miðjum tónleikum.

::: posted by anna at 11:43

5.12.03
 
loftárás
mér varð að orði um daginn að segja að herbergið mitt liti út eins og eftir loftárás. eins og oft verður með málvenjur veltir maður ekkert sérstaklega fyrir sér hvað maður er að segja. ég fór hins vegar að hugsa hvað lægi í þessum orðum. eftir það fattaði ég að herbergið mitt myndi alveg örugglega ekki líta út eins og það gerir ef húsið mitt hefði í alvörunni lent í loftárás.

þá væri allt fallega dótið mitt brotið. bækurnar fuðraðar upp og málverkin líka. í slæmu tilfelli væri rúmið hennar systur minnar örugglega hálft ofan á mínu eftir að hafa dottið gegn um gólfið (eða loftið, eftir því hvoru megin við maður stendur). í sérstaklega slæmu tilfelli myndi hún síðan liggja þar í blóði sínu og ég myndi ekki geta séð það vegna sprengjubrota sem væru í augunum mínum.

þá fór ég að hugsa hvað við værum heppin að þurfa ekki að hafa áhyggjur af loftárásum. það er til dæmis alveg fáránlegt að kvíða fyrir því að fara heim vegna þess að það er svo mikið drasl í herberginu manns. við erum bara heppin að þurfa ekki að kvíða fyrir því að fara heim og sjá kannski útsprengt hús. eftir þessar pælingar ákvað ég að sleppa því að taka til.

::: posted by anna at 13:47

3.12.03
 
lærdómsöld
eins og flestir framhaldsskólanemar stend ég í ströngum prófalestri um þessar mundir. þótt maður sitji sveittur við bækurnar alla daga og fram á nótt kemur það ekki í veg fyrir að ýmislegt skemmtilegt gerist. á svona tímum eru það einmitt litlu hlutirnir sem krydda lífið.

ég beiti ákveðnum aðferðum við að halda á spöðunum við lærdóminn. stundum kaupi ég mér lítil nammi, til dæmis súkkulaðihúðaða lakkrísbita, og verðlauna mig með því að borða einn og einn. í stærðfræðinni borða ég til dæmis einn eftir hvern skammt í dæmasafni og í ritgerðarsmíðum einn á þrjúhundruð orða fresti.

um daginn var ég niðursokkin í stofnbrotsliðun og ætlaði að svindla og fá mér mola þótt dæmaskammturinn væri enn ókláraður. ég stakk honum upp í mig og sökkti tönnunum í hann. það hefði ég samt ekki átt að gera því að óbragðið var þvílíkt að ég get með engu móti lýst því! ég hafði nefnilega bitið í boxistrokleðrið mitt.

::: posted by anna at 13:02

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla