stúlkan léttmeti30.1.04
 
ég veit ekki með ykkur...
...en ég sakna uglunnar. færsla dagsins verður tileinkuð henni. hún er meira að segja væmin, en það er eitthvað sem uglu finnst alveg æðislegt og berst alltaf fyrir með goggi og klóm þegar við komum saman.

hér er hún, fjörugust allra fugla,
flýgur um ganga, stundum til að rugla
í nemum í hamrahlíð,
sem munu alla tíð
muna að hún heitir ugla.

fuglinn ugla brosir ávallt blítt.
brúnin létta gerir andlit frítt.
blá sem sær
eru augun skær,
römmuð inn í hár sem er ekki sítt.

ugla þessi er undurfögur,
yndi hefur af að segja sögur.
flestar eru spunnar
upp úr henni runnar,
þótt fáar hún setji í bögur.

fleira hefur til brunns að bera
sem bendlar hana við það að vera
fugladrottning,
henni borin er lotning
fyrir að syngja ei líkt og aðrir gera.

heppn’ er með öllum sem uglu þekkja,
ávallt mun vini að sér trekkja.
gerir það sem ekki má,
hún er ill við þá,
gamnar sér við að þá plata og blekkja.

ekkert takmarkað getur hennar huga,
hindranir aldrei munu hana buga.
hana stoppar ekki neitt,
ef hún einsetur sér eitt.
ugla mun aldrei drepast, -heldur duga.

::: posted by anna at 18:23

28.1.04
 
veikindi
ótrúlegt hvað maður getur áorkað þegar maður er einn heima á læknadópi.

::: posted by anna at 17:39

26.1.04
 
myndbrot úr daglegu lífi IV
ég sat á hlemmi með henni halldóru minni fyrir einhvern tímann á síðustu dögum, gott ef það var ekki bara í gær. við þurftum dálítið að bíða og vorum að spjalla saman um lífið og tilveruna eins og maður á til að gera þegar maður er helmingur af dúett á hlemmi. það var mjög ánægjulegt en þó ekki jafn ánægjulegt og það sem eftir kom.

ég tók eftir því þegar strætó var alveg að koma að potturinn í gullnámunni á móti hlemmi var alveg að ná tíu milljónum. hann stóð í svona níumilljónumníuhundruðníutíuogníuþúsundumáttahundruðogsjötíu krónum. þegar einungis fimmtán krónur voru eftir í tíu milljónirnar kom sexan. vegna þess hversu útséð ég er, náði ég með klókindum að hlaupa aðeins til hliðar og sjá gullpottinn detta í tíu milljónir. þá fann ég fyrir því að hver manneskja er einstök.

::: posted by anna at 00:08

22.1.04
 
samræður
það er eitthvað svo gaman að sjá fólk sem er í hörku samræðum við sjálft sig. ég efast reyndar ekki um að langflestir sem eru einir séu að tala við sjálfan sig en það er bara svo gaman þegar það sést á því. fólk muldrar eitthvað, hreyfir munninn og svona. sýnir síðan rosaleg svipbrigði. ég tala alltaf voðalega mikið við mig, bæði til að skemmta mér og öðrum.

ég velti því líka alltaf fyrir mér um hvað fólkið sé að hugsa. það getur verið að taka mikilvægar ákvarðanir um framtíðina, verið að ákveða hvort það ætli að kaupa seríós eða kornflex eða eitthvað allt annað. best er samt að trufla fólk sem er í djúpum samræðum við sig því að er illmögulegt að ná sambandi við það.

mér finnst líka viðkunnanlegt þegar fólk raular. margir raula í strætó og halda að enginn heyri það, til dæmis ég. svo man ég alltaf eftir því að þótt maður heyri raulið varla sjálfur heyra hinir það frekar vel. mér finnst að fólk ætti að raula meira í strætó því þá yrði það ekki eins asnalegt.

::: posted by anna at 23:41
 
saga kryddstúlkna
þessa dagana leiði ég mjög oft hugann að kryddpíunum. það er tiltölulega langt síðan ég hugsaði svona mikið um þær. því miður er ég nefnilega næstum því hætt að krydda líf mitt með tónlist þeirra. einhvern tímann fyrir langa löngu skrifaði ég á þetta blogg að ég ætlaði að stofna aðdáendaklúbb kryddpíanna sem hefur þó ekki verið gert.

saga kryddpíanna er mjög margslungin og full af ósvöruðum spurningum. þótt ég eigi töluvert af heimildum um blómaskeið stúlknabandsins er fjölmargt sem er í ósamræmi og sannur fræðimaður, sem ég vissulegar er, verður að vega og meta sannleiksgildi hverrar heimildar.

ástæðan fyrir því að ég hugsa svona mikið um þetta er stór kryddpíuviðburður sem er í uppsiglingu. ég þori sem minnst um hann að segja af ótta við að með því sé ég að ljóstra upp leyndarmálum og það vil ég ekki. örvæntið ekki því uppljóstrun er að vænta, að minnsta kosti áður en kemur að atburðinum. fylgist með.

::: posted by anna at 22:46

21.1.04
 
málfundur í mh
ég reyni að leggja í vana minn að ræða ekki mikið um hvað ég geri við daginn í dag á þessu bloggi. þó ætla ég að gera það hér og nú og bið fólk sem tekur það nærri sér afsökunar. í dag fór ég sem sagt á fund um styttingu námstíma til stúdentsprófs í mh. þar var vel mætt og greinilegt að mh-ingar ætla ekki að bora í nefið á meðan tillögurnar sigla framhjá þeim.

fátt kom fram á fundinum sem ég vissi ekki nú þegar. nemendur eru almennt afar ósáttir við styttingartillögurnar og eru hræddir um að fjölbreytileiki eigi eftir að skaðast ef þær ganga í gegn. mjög réttmæt hræðsla sem ég deili fullkomlega með þessum stóra hópi nemenda. kolbrún halldórsdóttir var hetja dagsins og fékk salinn til að brjótast út í fagnaðarlátum æ ofan í æ.

það sem kom mér mest á óvart var þó vanþekking sigurðs kára kristjánssonar á menntakerfnu. maðurinn kom upp um sig strax í framsöguræðu sinni þegar hann fór að tala um að styttingin myndi eingöngu hafa áhrif á bekkjakerfisskólana. hann niðurlægði áfangakerfið með því að tala næstum því um að námið væri miklu einfaldara í áfangakerfi en í bekkjarkerfi og þess vegna þyrfti engar breytingar í áfangakerfi.

þegar talið barst að vali og kjörsviði var mjög greinilegt að sigurður kári hafði ekki hugmynd um hvað það nú einu sinni var. þótt það hafi ekki komið beint fram er ég ekki einu sinni viss um að hann viti hvað margar einingar þarf til að ná stúdentsprófi. hann var svo heimskulegur að tvisvar sinnum kom fyrir að salurinn í heild sinni hló kaldhæðnislega að röksemdafærsum hans. vissulega er mh frekar svona vinstri oríenteraður og ekki alltaf vinsamlegir við hægrimenn. en samt, maðurinn gróf sína eigin gröf með hlægilegum málflutningi.

::: posted by anna at 23:20

20.1.04
 
skrítnar stéttir I
enn einn bálkurinn hefur hafið göngu sína á þessu bloggi. fæðingu hans fylgir von um að hann hljóti langlífi í vöggugjöf eða að minnsta kosti lengra og innihaldsríkara líf en forverar hans á þessu sviði. í þessum bálki hyggst ég fordæma skrítnar stéttir, (þá í merkingunni dæma fyrirfram án þess að hafa kynnt sér málið. það er for-dæma eins og róbert haraldsson myndi skrifa það,) alhæfa og lýsa þeim frá mínum eigin sjónarhóli sem veitir skert útsýni.

í þessum fyrsta þætti ætla ég að einbeita mér að líkamsræktarþjálfurum. þar eð ég hef hafið að stunda þrekhús borgarinnar hef ég komist í kynni við þessa stétt og þykir nokkuð merkileg. líkamsræktarþjálfarar eru til dæmis með lélegan tónlistarsmekk þar sem næstum því öll löginn sem eru spiluð á líkamsræktarstöðvum eru leiðinleg. það besta er að þau hætta ekki að dásama hana.

líkamsræktarþjálfarar eru upp til hópa alveg drepfyndin og reyta af sér brandarana. á meðan svitinn lekur niður ennin á þeim gefa þau frá sér allskonar fyndin hljóð, eins og "úúhh" og "oooahh" en það eru ekki viðurkennd hljóð í samfélaginu sem tekur við þegar líkamsræktarstöðin er yfirgefin.

þau virðast líka lifa nokkuð einangruðu lífi. flest fólk sem maður hittir svona á einum stað hittir maður reglulega á öðrum, eins og kennara, afgreiðslufólk í verslunum og fleiri. líkamsræktarþjálfara hittir maður hins vegar aldrei á förnum vegi, hvar svo semhann nú er eða liggur.

::: posted by anna at 14:13

18.1.04
 
að stækka
kvöldinu eyddi ég í að taka til í herberginu mínu. það er svo sem ekki frásögu færandi, ég er mikil subba og þarf oft að taka til. alltaf þegar ég tek til breyti ég aðeins í herberginu. þannig stækka ég örlítið í hvert einasta sinn sem ég geri það. tiltektin var þó með stærra sniði en venjulega þar sem ég ákvað að taka líka til á veggjunum.

ég tók niður star-wars veggspjaldið og marilyn monroe veggspjaldið. ég ætlaði meira að segja að fjarlægja el che líka, en mér fannst herbergið mitt eitthvað svo tómlegt þannig ég ákvað að skilja hann eftir á veggnum. í staðinn setti ég vatnslitamyndir. mjög svona kúltíverað.

ég held að þarna hafi ég verið að stíga stórt skref í átt að fullorðinsárunum, í áttina að því að verða gömul. í dag er ég nær dauðanum og ég var í gær, og reyndar við öll ef maður hugsar þetta í víðara samhengi. ekki að það sé eitthvað slæmt samt.

::: posted by anna at 22:53
 
skóást-sönn ást
ég gerði mér ferð í miðbæinn í dag. með mér í för var stígvélaður einstaklingur sem var þó ekki köttur heldur pabbi minn. við fórum saman að kaupa skó sem ég finn á mér að hljóti að eiga eftir að leika mikilvægt hlutverk í framtíð minni. það er líklega þess vegna sem ég er ástfangin af þeim. ég er búin að vera skotin í þessum skóm í eitt og hálft ár, án alls gríns og ýkja sem ég get þó viðurkennt að eigi til að einkenna frásagnir mínar. þeir eru búnir að kalla á mig ofan úr hillunni í kron í allan þennan tíma og núna eru þeir loksins mínir.

ástæðan fyrir því að ég var ekki löngu búin að kaupa þá er að þetta skópar, eins fallegt og það er, jaðrar við að vera það ópraktískasta á jarðarkringlunni. þegar ég er í þeim slaga ég hátt í hundraðogníutíu sentímetra, þeir eru með alvöru manndrápshæl og þótt ég hafi nú aldrei lært hvernig maður drepur fólk með hælaskóm sé ég fyrir mér að ég gæti auðveldlega hálsbrotið sjálfa mig með því að misstíga mig óvart.

en ástin er blind og maður er tilbúinn að líta framhjá þessum smávægilegu göllum. aðal málið er að núna get ég dáið vitandi að ég á eina fallegustu skó í heimi. ef þeir ganga að mér dauðri þá getur fólk að minnsta kosti huggað sig við það að ég dáði skóna af öllu hjarta.

::: posted by anna at 01:22

15.1.04
 
háskólalífið
mér hefði aldrei dottið í hug að það væri svona vinalegt að byrja í háskólanum. ekki það að ég hafi strax fundið sálufélaga minn í heimspekideildinni. það er bara eitthvað svo ljúft og mannvænt að vera háskólanemi, ekki eins og þetta óálitlega umhverfi í menntaskólunum þar sem manni finnst maður endalaust vera sekur um eitthvað.

strax í fyrsta tímanum leið mér eins og ég væri að hitta gamlan vin aftur. að heyra frönskuna aftur, sama blessaða orðaforðann, svo ekki sé nú minnst á það að í ákveðnum kúrsum er verið að fara yfir sama efni og var kennt í frönskutímunum í frakklandi. ég er að mastera gömlu góðu glósutæknina.

í fyrsta skipti alveg síðan ég var í frakklandi hef ég líka tíma til þess að staldra við og hugsa á daginn. ekki í endalausu prógrammi frá morgni til kvölds. í stuttu máli: franskan er mjög ljúf og háskólalífið dásamlegt.

::: posted by anna at 18:38

14.1.04
 
stafsetningargenið
í móðurfjölskyldunni minni er ríkjandi gen sem ég kýs að kalla stafsetningargenið. réttar væri kannski að nefna það réttritunargenið vegna eiginleika þess: að stafsetja óaðfinnanlega rétt. genið ríkir yfir villugeninu í systrum mínum og mömmu. eitthvað virðist þó hafa misfarist við getnað minn hvað þetta varðar, sem glöggir lesendur þessarar síðu hafa eflaust tekið eftir. þetta veikir mjög stöðu mína á heimilinu þar sem ég er, óumdeilanlega, stalli fyrir neðan hinar konurnar hvað þetta varðar.

ýmsum kenningum hefur verið fleygt um villugenið mitt. þær eru allt of margar til að fólk hafi þolinmæði til að meðtaka þær allar. sú sem mér finnst standa uppúr er stutt og einföld og skýrist svona: villugenið er nátengt gleraugnageninu, án efa á sama litningi. ég er sú eina af mæðgunum sem nota gleraugu, meira að segja dálítið sterk, en það rennir einmitt stoðum undir þessa kenningu.

villugenið háir mér og er til mikilla skamma. oft er híað á mig, pískrað og allslags öðrum opinberum og óopinberum niðurlægingum fleygt á minn kostnað. en, eins og með aðra genagalla, er ekki hægt að lækna þennan krankleika. bara reyna að bæla einkennin með ýmsum aðferðum. ég reyni mitt besta og bið ykkur að sýna genagallanum skilning.

::: posted by anna at 19:13

10.1.04
 
samsæriskenning
þótt ég hafi ekki séð idolið í gær er ég stórhneyksluð. að hann jón sigurðsson sé í úrslitum í þessari keppni er allgjörlega fáránlegt, miðað við fyrri framistöður mannsins. þegar maður horfir á hann og heyrir syngja falskt með sinni takmörkuðu rödd er ekkert skrítið að einhver fari að efast um að hann sé með hreint mjöl í pokahorninu.

ég er með samsæriskenningu um jón sigurðsson. hann vinnur hjá símanum. hann á vini sem vinna hjá símanum. síminn sér um úrslit símakosninga. hvað ætli stoppi vini jóns sigurðssonar að hringja ókeypis úr allskonar óskráðum númerum, hvað þá fiffa úrslitin. hann á ekki skilið að vera þarna!

::: posted by anna at 13:00

9.1.04
 
"að taka texta og vinna úr honum"
ég er að horfa á kastljósið þar sem hannes hólmsteinn er að verja sig. það er greinilegt að honum finnst málsvörn sín ekki vera síður merkileg en málsvörn sókratesar í denn. málsvörn hans byggist á því að allir íslendingar séu á móti honum, eins og aþenubúar voru á móti sókrates, og að búið sé að dæma hann áður en hann fái sanngjörn réttarhöld. píslarvotturinn hannes.

"það má ekki íþyngja lesendum með of mörgum tilvitnunum."

ekki öfunda ég kristján og svanhildi af því að sitja á móti hannesi og reyna að koma höggi á hann. hann er listamaður á sviði rökræðulistarinnar og sveigir vandlega framhjá öllum alvarlegum spurningum og ásökunum. hann saumar að þáttastjórnendunum og reynir að nálgast þau óþægilega mikið því að nefna nafn þeirra í upphafi allra svaranna. það er eiginlega greinilegt að hann á margt sameiginlegt með fyrrnefndum sókrates.

"ég ætla að halda eitt boðorð og það er að vera aldrei leiðinlegur"

ég er ekki alveg sammála þessari fullyrðingu hannesar því ekki finnst mér hann sérlega skemmtilegur maður. það myndi líka ekki skipta máli ef hann myndi standa í báðar fætur í sporum sókratesar. hann virðist samt þarna vera að reyna að beina sér á braut voltaire með því að reyna að tileinka sér skemmtilegheitin líka. mér finnst honum ekki takast það eins vel og að verða eins og sókrates. enda kannski aðeins of stór munnbiti, jafnvel fyrir hannes hólmstein gissurarson.

sókratesarbrautin á betur við hann, að mér finnst. ég held líka að það hljóti að vera að hann fái sömu örlög og sókrates. mér finnst hann eiga eiturbikarinn frekar skilinn en að vera hylltur í parís sem eldgamall maður.

::: posted by anna at 00:43

8.1.04
 
fuglinn floginn
þá er litli unginn minn floginn á vit ævintýranna. mæli með því að þessi dagur verði tileinkaður henni og skoðunum á nýjum heimshornum.

::: posted by anna at 00:48

6.1.04
 
eftirköst jóla - formúluslys
dagarnir eftir jól eru mörgum erfiðir. maður er alltaf svangur enda maginn vanur því að fá allt of mikið af mat ofan í sig dag hvern. nú þarf að taka skrautið af jólatrénu og setja það aftur ofan í geymslu og allra helst að taka niður jólaseríurnar, þótt það hafi reyndar aldrei talist sérstaklega aðkallandi verkefni á mínu heimili.

margir þurfa að glíma við önnur eftirköst. ég nefni mig sjálfa sem gott dæmi um það. á jólunum lenti ég nefnilega í svokölluðu jólaboðaslysi en þau eru víst algeng hér um slóðir. fóturinn minn lenti í árekstri við formúlueittbíl og hefur ekki enn beðið þess bætur.

það bar til að ég var gangandi niður stiga heimilis míns í jólaboði með disk í annarri hendi og glas í hinni. þar höfðu illkvittin stjúpfrændsystkini mín komið fyrir litlum en þó fögrum formúlueittbíl. hin grandalausa ég gekk auðvitað beint í gildruna og steig allhart ofan á oddhvassan topp bílsins.

að launum fékk ég ljótan marblett á fáránlegum stað á ilinni. (þarna sem hún kemur upp í miðjunni er svona mjúkt og veiklulegt svæði. það var þar.) síðan hef ég örugglega tognað í ilinni líka því hún gefur frá sér skrítin hljóð þegar ég hreyfi hana, rétt eins og hún sé að urra á mig.

::: posted by anna at 01:14

4.1.04
 
dagur hinna brúnu pilsa
ég held að fjórði janúar verði héðan í frá kallaður dagur hinna brúnu pilsa. ég er viss um að aldrei áður í sögu minni sem mannveru hafi ég fjárfest í tveimur brúnum pilsum samdægurs. ég skellti mér nefninlega á útsölur. ljótt að segja frá því að ég fór á bakvið laugaveginn minn og verslaði í kringlunni. ég nota það þó sem afsökun að verslunina gk konur er ekki að finna á laugaveginum, en það er einmitt ein uppáhalds fataverslunin mín á útsölutíðum.

ég er að vinna í því að koma nýjum litum inn í fataskápinn minn. síðastliðið ár hefur rauði liturinn nánast tekið yfir fataskápinn minn sem er mikið áhyggjuefni. eins og áður hefur komið fram á þessari síðu er ég í-stíl-fíkill, það er að segja fíkill í að fötin sem ég vel mér tóni saman. þegar maður er haldinn þessari fíkn er mjög auðvelt að detta í einslitavefi, berjast aðeins um og flækja sig allgjörlega í þeim.

í dag lenti ég einmitt í mjög erfiðri stöðu. ég var búin að klæða mig í bláa tóna, meira að segja búin að toppa það með því að setja á mig bláa perlufesti. þá fann ég ekki bláu gleraugun mín. af því leiddi að ég hef ekki getað séð almennilega í allan dag, því ekki gat ég sett á mig rauðu gleraugun. það hefði ekki verið í stíl.

að lokum langar mig að biðja þá sem hafa komið auga á blá gleraugu sem virka eins og stækkunargler þegar maður horfir í gegn um þau að láta mig vita. ég sakna þeirra.

::: posted by anna at 17:34

2.1.04
 
menn sem gráta
skellti mér loksins á þriðju hringadróttinssögumyndina í gærkvöldi þrátt fyrir illstýranlega þreytu. fannst mér það hin mesta skemmtun, þótt við vigga höfum kannski angrað aðra bíógesti með tilþrifamiklum andköfum og niðurbældum ópum á ögurstundum. skemmtilegast fannst mér þó að hitta aftur fyrir vin minn hann legolas því að mér þykir vænt um hann.

eftir myndina fór ég að velta fyrir mér af hverju allir mennirnir í myndinni þykja svona kynþokkafullir. ég hef lent í nokkrum samtölum um meintan kynþokka allra karlkyns sögupersóna í myndinni og þykist hafa komist að því að nánast allir eiga sér sérlega aðdáendur, þótt aragorn eigi sér kannski flesta (sem er eitthvað sem ég næ ekki alveg upp í. aðrar stúlkur hafa greinilega ekki verið að fylgjast almennilega með legolasi).

ástæðan fyrir þessu er einföld. ég þori að fullyrða að sjaldan í sögu epískra stórmynda, hvað þá annarra mynda, hafa jafn mörg tár runnið niður kinnar hetja og í þrílógíunni um hringadróttinssögu. eins og allir vita er fátt jafn einlægt og að sama skapi kynþokkafullt og alvöru karlmenn sem kunna að fella tár.

hetjurnar í hringadróttinssögu gera það líka iðulega án þess að afmyndast í framan. þetta er hæfileiki sem alls ekki allir karlleikarar hafa náð að tileinka sér. ég held til dæmis að gretta loga geimgengils þegar svarthöfði sagði honum frá stóra leyndarmálinu hafi staðið honum mjög fyrir þrifum í frama sem kyntákns.

::: posted by anna at 17:12
 
hin besta skemmtun
netheimarnir geta veitt manni mjög skemmtilegar stundir. nú rétt í þessu var ég á ferðalagi um þá heima og skellti mér inn í frjálshyggjulandið. það var alveg rosalega fyndið og skemmtilegt. allra fyndnast er að fara inn á vefsíðu frjálshyggjufélagsins en þar er að finna kynstrin öll af fáránlegum ályktunum og greinum. þegar maður yfirgefur þessa vefsíðu er maður kominn með krampa í hláturvöðvana af ofnotkun.

sökum tilviljana gærkvöldins rataði ég inn á blogg framkvæmdastjóra frjálshyggjufélagsins. ekki var hún síður fyndin en heimasíða frjálshyggjufélagsins og meira að segja að mínu viti fyndnari. þar las ég alveg kostulega grein sem ég má til með að deila með ykkur, kæru lesendur. passiði ykkur á því að hláturinn ræni ekki frá ykkur öll vit og munið að öllu gamni fylgir nokkur alvara og að það er til fólk sem hugsar eins og þessi maður.

::: posted by anna at 02:42

1.1.04
 
erfitt val
ég veit varla í hvorn bankafótinn ég á að stíga, eða hvaða bankafót ef því er að skipta. ég er fædd inn í búnaðarbankann, þar sem afi minn var einu sinni bankastjóri. þá var bankinn líka ríkisbanki.

ég var nú ekkert rosalega sátt þegar s-hópurinn keypti búnaðarbankann minn. enn ósáttari var ég þegar hann hætti að heita búnaðarbanki og fór að heita kaupþing og lenti síðan í allskonar rugli og vitleysu. núna er ekkert eftir af gamla búnaðarbankanum. nýtt nafn og nýtt lógó sem er svo ljótt að það stingur í augun.

ekki langar mig til að gera eins og dabbi dóni og flytja mín gífurlega umsvifamiklu fjármál í landsbankann. mig langar ekki heldur að hlaupa undir anga kolkrabbans í íslandsbanka. svo er bara verið að fara að selja spron. það er eiginlega fokið í flest skjól. ég held að það væri bara ágætt að taka allt fjármagnið út af bankanum og geyma undir koddanum. biðja síðan um að héðan af greiði fólk mér fyrir vinnu í beinhörðum peningum.

::: posted by anna at 20:52

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla