stúlkan léttmeti26.2.04
 
símaspjall
ég er komin með leið á hringitóninu mínu. ég er búin að vera með það sama í rúmt ár og verð eiginlega að fara að fá mér nýtt. þetta er fínasta hringitón, lag úr myndinni amelie, en eins og með margt langar mann oft að endurnýja. það versta er að mér er lífsins ómögulegt að upphugsa lag sem gæti verið hentugt í hringitón. spurning hvort maður ætti kannski að semja e-moll sellósónötuna eftir Brahms, samt ekki.

tóta hefur stungið upp á vopnaða manninum eftir erik mogensen, sem er mjög góð hugmynd. hún er hins vegar illframkvæmanleg vegna þess að það er ekki hægt að setja yfirbundnar nótur inn í nókíasímana. það myndi ég segja að væri einn stærsti hönnunargalli nókíasíma. ég verð því að biðla til ykkar um fleiri uppástungur.

annað sem ég hef verið að velta fyrir mér í sambandi við síma er símaheilsan. nú hef ég í nokkur ár svarað símtölum með stelpulegu halló-i. hins vegar held ég að tími sé kominn til að fullorðnast og taka upp fullorðinnamanna siði í þessu máli. ég hef því ákveðið að reyna eftir fremsta megni að svara símanum af meiri alvöru héðan í frá.

::: posted by anna at 14:13

24.2.04
 
enn um perur
hvet alla til að mæta á frábæran fyrirlestur í mh á fimmtudaginn. þar mun ég leiða alla þá sem vilja í sannleikann um bestu hljómsveit allra tíma, kryddpíurnar. fyrirlesturinn hefst klukkan 10 og eru allir kryddaðdáendur, sem og allir aðrir, innilega velkomnir.

::: posted by anna at 14:32
 
perufólk
mér finnst perufólk vera sérlega skemmtilegt fólk. ég þori eiginlega að fullyrða að mér finnist það skemmtilegra en annað fólk. það er svo gott að það hefur alltaf eitthvað fram að færa. er með ótrúlegustu skemmtiupplýsingar um öðruvísi málefni.

það er nefnilega gott að fá hluti á peruna. ég kem að minnsta kosti litlu í verk nema ég fái það á peruna. perur dýpka skilninginn. svo er það líka alveg óskaplega gaman. hvenær myndi maður nenna að sanka að sér fáránlegum upplýsingum nema af því að maður er með hluti á perunni.

ég er perukona og stolt af því. einhver sagði að ég væri alltaf með svo margt á perunni að og þess vegna tæki maður ekkert svo sérstaklega mikið eftir því í fari mínu. barnæskusögur perukrakka eru skemmtilegastar í heimi. ég er mjög leið yfir að hafa ekki verið perukrakki á síðustu öld. ég myndi alveg vera til í að geta sagt sögur af því að hafa átt skipulagt bókasafn með merktum bókum og útlánskerfi þegar ég var lítil, eins og sumir.

::: posted by anna at 14:12

22.2.04
 
að vera eða vera ekki tónlistarnemi
um þessa helgi er ég tónlistarnemi, með tilheyrandi árshátíð, ávarpi og spileríi á málþingi, æfingum og tónleikum. það er óskaplega skemmtilegt þótt ég viðurkenni að mér myndi líklega leiðast það til lengdar ef ég ætti mér ekki önnur líf. það er þó gott að geta lagt rækt við ákveðnar greinar í lífi manns svona endrum og sinnum.

árshátíð tónlistarnema var haldin á föstudaginn með tilheyrandi spenningi. hefðin er að hver tónlistarskóli komi fram og sýni að minnsta kosti eitt skemmtiatriði. þau voru ekki af verri endanum þetta árið. nýji tónlistarskólinn vann keppnina um besta skemmtatriðið að mínu mati óverðskuldað (þótt þau hafi svo sem verið með ágætis atriði).

við hefðum að sjálfsögðu átt að vinna þessa keppni þar sem við vorum með langflottasta atriðið. við sungum "a capella" í þremur röddum yfirheimalagið (overworld theme) og undirheimalagið (underworld theme) úr mario bros leiknum. það var mjög flott, einstaklega hreint og krafðist gríðarmikils af okkur sem sungum, sérstaklega þó af sóprununum. þær brugðu sér leikandi létt upp á háa c hvað eftir annað við mikinn fögnuð viðstaddra. miklir hetjusópranar það!

::: posted by anna at 11:53

19.2.04
 
afmæli í bloggheimum
mér finnst alltaf jafn fyndið að lesa færslur á bloggsíðum þar sem fólk talar um bloggafmælin sín. mig langar ósköpin öll til að vera fyndin en ég á mjög erfitt með það. af einhverjum ástæðum er ekki hægt að skoða gömlu bloggin mín á heimasíðunni sem gerir það aðeins erfiðara að finna fyrsta bloggið, bloggið sem úrskurðar um afmælið.

ég er þó ekki þekkt fyrir að drepast og lagðist í heilmikla rannsóknarvinnu. byrjaði á því að fletta "anna er byrjuð að blogga" upp á google. það bar engan árangur. því næst heimsótti ég odd, þó til þess eins að finna út að hann er heldur ekki með möguleika á því að kanna gömul blogg.

þá fór ég inn í blogger og fletti upp skemmtilegum orðum eins og "byrjuð", "upphaf", "blogga" og fann síðan fyrstu færsluna á lykilorðinu "byrja". hún var rituð fimmtudaginn sjötta mars fyrir ári og mun sá dagur framvegis vera haldinn hátíðlegur. ég held ég stingi meira að segja upp á því við breiðholtsdeildina að önnufélagið taki hann upp sem önnuhátíðardaginn, því að við munum ekki hvenær félagið var stofnað.

í þessari ferð minni um úreltar bloggslóðir kom ýmislegt fleira upp úr kafinu. ég man núna eftir frábærum þætti sem ég skrifaði nokkrum sinnum á bloggið mitt. hann heitir "að vera eða vera ekki" og getur verið mjög skemmtilegur og frumlegur. kannski ég taki hann upp á ný.

::: posted by anna at 13:40

18.2.04
 
hækur
mér þykja hækur afar skemmtilegt tjáningarform. það frábæra við þær er að um leið og þær ganga upp þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að eitthvað annað hafi hnikast til. eins og þegar maður er að reyna að ríma, endurraðar aðeins í línunum og fattar að það er orðið of langt á milli stuðlanna. svo er það bara þannig að þær eru væmnar að eðlisfari og ekkert við því að gera.

hljóðin sem koma
úr áttatíu munnum
sameinast í eitt.

ugla á bestu hæku sem ég hef nokkurn tímann lesið. henni tekst á meistaralegan hátt að gera ónáttúru úr náttúru, það er að segja að gera hæku sem er ekki væmin. sem er reyndar frekar skrítið þar sem ugla er nú frekar væmin að eðlisfari og gerir sér far um að vera það í samskiptum við annað fólk.

amma gubbaði
á þetta gras fyr'löngu
þá var hún yngri.

::: posted by anna at 23:28
 
vin í hinni ómstríðu eyðimörk
það er óhætt að segja að janúar og byrjun febrúar hafi verið ómstríður tími í lífi mínu. ómstríðan er svo sem ágæt fyrir sig en hún getur verið dálítið þreytandi ef henni er haldið til streitu of lengi. sem á reyndar við um ýmislegt annað í þessum heimi.

ómstríðan elti mig á öllum vígstöðvum og gerir enn að vissu leyti. alls staðar þar sem voru tónar var ómstríða. það var þess vegna alltaf jafn ánægjulegt þegar tími var kominn fyrir preludium hans egils, fyrir tvö píanó, strengi og slagverk. ég er meira að segja búin að sakna ómþíðunnar síðan við fluttum þetta á tónleikunum áttunda þessa mánaðar.

en, greinilegt er að hægt er að ráða bót á öllu. sérstaklega ef maður hefur veraldarvefinn á valdi sínu. haldið þið ekki, kæru vinir, að egill sé búinn að gefa öllum netverjum tækifæri á því að hlusta á herlegheitin í gegn um tölvu. ég mæli með að þið heimsækið hann og hlustið á verkið.

::: posted by anna at 17:26

17.2.04
 
nafnabrjálæði
við systurnar skemmtum okkur konunglega í kvöld við að velta fyrir okkur nöfnum á tilvonandi börnin okkar. við komumst að þeirri niðurstöðu að hentugt væri að við systurnar veldum okkur samræmd þemu í nafngiftum. það myndi verða svo stílhreint og skemmtilegt fyrir mömmu og pabba og þau hin.

ég myndi taka fuglanöfn. nöfnin sem kæmu til greina væru til dæmis örn, lóa og erla. við vorum þó sammála um að við þyrftum að velja nöfn sem skæru sig úr. þá myndi vera mun skemmtilegra að velja rjúpa, spói, kría og hrossagaukur. þarna kæmu athyglisverðir möguleikar fram ef um tvínefni væri að ræða. fátt slær út hrossagaukur spói eða langvía rjúpa.

helga var alveg á því að hún myndi taka jurtir og blóm. hún er svo hrifin af eins atkvæðis nöfnum og ég stakk upp á því að hún myndi skýra stúlkubarn rós, sem henni þótti þó heldur væmið. hún var mun hrifnari af nöfnum eins og maríustakkur, mosi, gleym-mér-ei og krækiberjalyng. krækiberjalyng er mjög hentugt nafn þar sem orðið er í hvorugkyni og getur því notast á bæði stelpur og stráka. maður verður bara að passa sig á því að drífa í þessu áður en það er skráð á kyn á undan manni hjá mannanafnanefnd.

halla tók ekki virkan þátt í umræðunum og var því úthlutað fiskanöfnunum. þar er greinilega óplægður akur því við mundum ekki eftir neinu nafni úr lífríki sjávarins nema nafninu hrefna. það gefur aftur á móti tækifæri á miklum frumleika. ég er sérlega hrifin af loðnu og ýsu sem kvenmannsnöfn og svo er skata ekki svo slæmt. hákarl sló í gegn sem karlmannsnafn og fannst okkur tilvalið ef halla myndi einhvern tímann eignast strákatvíbura að þeir yrðu skírðir hákarl og höfrungur.

þessi þemu eru langt frá því að vera ótæmandi. snjókomuþemað, með nöfnum eins og drífa og mjöll, gæti fengið skemmtilega viðbót með upptöku nafna eins og skafrenningur og einfaldlega snjór. það er greinilegt að með góðu ímyndunarafli er hægt að hleypa einhverju nýju inn í íslensku mannanafnaflóruna.

::: posted by anna at 23:39
 
millibilsástand
síðan klukkan fimm í gær á ég ekkert selló. þá seldi ég gamla sellóið mitt, hann fídel, sem hefur þjónað mér dyggilega síðan ég fermdist. nú á hann önnur stelpa sem líka er að fara að fermast, sem er mjög heppilegt því fídel finnst sérlega skemmtilegt að vera í fanginu á fermingarstúlkum.

þótt leit hafi staðið yfir í þónokkurn tíma hefur arftaki hans hefur ekki enn verið fundinn. hann þarf að vera hljómfagur og þýður og fara vel í fangi. ekki er verra að hann sé spjátrungur. ég er vön því, eftir að hafa átt fídel í fimm ár, að sellóið mitt krefjist þess að vera skreytt á einhvern hátt þegar það kemur fram.

mér finnst ekki annað hægt en að gefa nýja tilvonandi sellóinu mínu nafn. fídel var svo gott og satt nafn á selló og ég er eiginlega hálf týnd í því að reyna að toppa það. einhver stakk upp á að nota nafnið tryggur sem er óneitanlega mjög fyndið. veit samt ekki alveg hvort það samrýmist þeirri ábyrgðarfullu og grafalvarlegu mynd sem ég er að reyna að gefa af sjálfri mér að skýra selló næstum því í höfuðið á pabba sínum. ég er nú einu sinni farin að nálgast þrítugsaldurinn ískyggilega mikið.

::: posted by anna at 13:44

16.2.04
 
vonbrigði
fimmtudagurinn var dagur vonbrigðanna. ég fór á sinfóníutónleika með ungum einleikurum. þótt upphaf færslunnar gefi það til kynna varð ég ekki fyrir vonbrigðum með framistöðu stúlknanna fjögurra, þvert á móti. ég hafði sérstaklega gaman af síðasta kaflanum í brahms. þótt ég gefi mig út fyrir að vera meira fyrir hina svokölluðu "nútímatónlist" er ég algjör sökker fyrir brahms.

vonbrigðin voru þegar gyða byrjaði að spila sjostakovitsj sellókonsertinn. alltaf þegar ég fer að hlusta á sellókonserta í sinfó verð ég jafn spennt. fer að iða í sætinu um leið og einleikarinn gengur í salinn síðan liggur við að líkamsstarfsemi mín hætti sekúntubrotið sem líður á milli þess að boginn er kominn á strenginn og hljóðið nær eyrunum... sem eru einmitt vonbrigðin. ég gleymi í hvert skipti að háskólabíó er algjört killer fyrir sellóeinleik.

fyrr í vetur fór ég að sjá frægan norskan sellóleikara flytja nýjan konsert eftir hafliða hallgrímsson. ég sat (reyndar á hinum margnídda bekk númer tuttuguogeitt) og horfði á hann í þvílíkum fingrafimleikum upp og niður gripbrettið. ég horfði bara á hann því að ég heyrði ekki í einleikaranum. meint eyðandi samliðun hljóðbygjanna á tuttugastaogfyrsta bekk er þar að einhverju leyti um að kenna, en það er staðreynd að rannsóknir hafa sýnt að sellóhljóð berast verst af öllum hljóðum í háskólabíó.

þetta voru fyrri vonbrigði fimmtudagskvöldsins. ég ætla ekkert að tala um seinni vonbrigðin, og þó. segjum að það venst illa að tapa kosningum.

::: posted by anna at 01:57

8.2.04
 
vetrarríki
ótrúlegt hvað maður getur verið krónískt vitlaus.í hvert einasta skipti sem kemur ágætis veður að vetrarlagi á þessu landi sannfæri ég sjálfa mig um að það sé að minnsta kosti ár í næsta kuldakast. ég man eftir að hafa verið að hugsa þetta íklædd þunnum sumarjakka á dögunum. ég get þó nýtt það sem afsökun að það var sól og meira að segja vorlykt.

allir sjá núna að þrátt fyrir mikla drauma mína um janúarsumar er febrúarsnjóskrímslið komið. það sannaðist allsvakaleg um helgina. ég ætlaði að ná mér í seðla með milliöngu eins af hraðbönkum borgarinnar við laugaveg. það var ekki hægt fyrir veðri. þetta hljómar dálítið eins og ég hafi ekki geta stungið kortinu í hraðbankann fyrir brjáluðum stormhviðum sem var þó ekki raunin. frostið olli því að takkarnir voru óvirkir og ég gat ekki stimplað inn lykilnúmerið mitt.

og talandi um krónískan vitleysisgang. ég myndi gjarnan vilja fá kennslu í því að klæða mig eftir veðri. á einhvern einstakan máta tekst mér aldrei að velja föt sem hæfa því veðri sem ég er að fara út í. spurning hvort sé langsóttara að sækja kennslu í þessu eða drífa í að hanna allraveðragallann sem ég hef lengi ætlað að búa mér til.

::: posted by anna at 23:59

5.2.04
 
kominn tími til
nú eru liðin ár og öld síðan konur fóru að ganga buxum dagsdaglega. það er þó ekki þar með sagt að hömlur í klæðaburði séu úr sögunni, eiginlega þvert á móti. karlar búa nefnilega við miklar hömlur í fatavali. ástæðan fyrir því er óljós, ég held samt að þetta helgist af því að karlar eru ekki eins vanir því að þurfa að berjast fyrir jafnrétti og konur.

það sem ég sakna mest í klæðaburði karla eru pilsin. víst er það rétt að karlmenn geta klætt sig í pils, eins og einar ágúst og beckham, en þó er það ekki viðtekin venja í samfélaginu. þarna eru skotapilsin auðvitað undanskilin en karlar ganga ekki í þeim nema þeir komi frá skotlandi. ég er til dæmis viss um að mörgum myndi bregða í brún ef lúðvík bergvinson mætti í pilsi utan yfir jakkafatabuxurnar í þingsal á morgun, þótt það væri skotapils.

samt er tæknilega séð ekkert sem stoppar karlmenn að vera pilsklæddir nema samfélagið, ef undanskilin er sú staðreynd að ekkert er framleitt af pilsum fyrir karla. það helgast samt auðvitað af því að enginn markaður er fyrir karlapils í hinum vestræna heimi sem er fáránlegt. maður sér iðulega karla klæðast pilsum á sýningarpöllum " la haute couture", sem sannar að pils geta alveg klætt karla, meira að segja mjög vel.

fyrir mér er þetta spurning um jafnrétti. spurning um að eyða þeim samfélagslegu fordómum um að karlmenn megi ekki gera hitt og þetta og konur sömuleiðis. vissulega er hægt að segja að karlmenn hafi aldrei klæðst pilsum í gegn um aldirnar. konur höfðu líka aldrei unnið á vinnumarkaði fyrir einhverjum árum. það er búið að breytast. af hverju ekki pilsin?

::: posted by anna at 14:19

4.2.04
 
...skjálfandi lítið gras
hvað ætli myndi gerast ef allir breyttust allt í einu í plöntur. eða enn betri spurning, hvaða planta myndir þú vera ef þú breyttist allt í einu í eina slíka? ég veit að einhverjir eru að velta fyrir sér undir hvaða kringumstæðum fólk breytist í plöntur. setjum þær pælingar aðeins til hliðar og gleymum okkur í eina litla mínútu.

spurning hvaða persónueinkenni endurspeglast í plöntum. við erum með pottaplöntutýpuna sem nennir ekki að fara neitt út úr húsi. svo er það birkitréð sem stendur af sér storma og svoleiðis. rósin sem lifir og deyr fyrir fegurðina og svo auðvitað gleym-mér-ei.

útlit myndi auðveldlega endurspeglast í blómunum. sumir eru fallegir eins og sólblóm, traustvekjandi og tignarlegir eins og aspir, ljótir eins og arfi, nú eða bara í stíl eins og krækiberjalyng. ég er reyndar alveg viss um að ég myndi breytast í krækiberjalyng. og helga í bláberjalyng.

::: posted by anna at 23:38

3.2.04
 
saga af stúlku I
þetta er sagan um það þegar stúlkan seldi litla bróður sinn. hún er dagsönn og það sem meira er, allir þeir sem koma fyrir í sögunni eru til og lifandi og geta þar með staðfest að hún er sannari en dagurinn í dag.

einu sinni var stúlkan heima hjá pabba sínum. henni og fjölskyldu til dægrastyttingar ákváðu þau að taka í spil. vegna þess hversu hugulsöm og góð stúlkan er ákvað hún að leyfa litla bróður sínum að vera með sér í spilinu.

þetta fyrirkomulag hentaði ágætlega því enginn annar vildi vera með stúlkunni í liði. um leið og leikar hófust fór hún nefnilega að tapa öllum spilapeningunum. þar sem bróðirinn var mjög lítill skildi hann ekki að þau voru að tapa því stúlkan sagði honum að það væri ekki gott að eiga fullt af spilapeningum.

síðan var svo komið að stúlkan og litil bróðirinn áttu ekki nógu marga peninga til að vera með í spilinu. þá hóf hinn frjálshyggni og útsjónasami hluti stúlkunnar að huga að því að leita leiða til að leysa fjárhagsvandann. það sem lá auðvitað beinast við var að selja föðurnum son sinn, en hann átti þá fullt af spilapeningum. svo fór að bróðirinn var seldur fyrir fimmtán spilapeninga.

af þessu má draga tvær mikilvægar lexíur. annars vegar að það er alltaf hægt að leysa fjárhagsvanda með því að selja lítil og fögur börn til þeirra ríku og allgjör óþarfi að hafa miklar áhyggjur af slíkum vanda. í annan stað er ekki er ráðlegt að reyna að selja fimm ára börn fyrir meira en fimmtán spilapeninga því annars er þeim skilað aftur sem gallaðri vöru.

::: posted by anna at 23:30

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla