stúlkan léttmeti30.3.04
 
skel
að draga sig inn í skel finnst mér alltaf vera sérlega skemmtilegt orðatiltæki. þegar einhver segist ætla að gera það sé ég fyrir mér að viðkomandi sé slímugt gums sem gerir ekki neitt annað en slá. ég get ekki séð fyrir mér að einhver geti komið einhverju í verk sem sláandi gums í skel.

mér detta samt engin betri orð í hug þegar ég lít yfir líf mitt síðustu daga. allar vígstöðvar krefjast skiladaga og maður hefur ekki við að sinna blessuðum skyldunum. gums í skeljum verða nefnilega að kveðja félagslífið með kurt og pí. bless kæra félagslíf. við sjáumst aftur um páskana.

samt, ef ég er gumsið og skyldurnar eru slátturinn hlýtur heimilið að vera skelin. ef maður er alltaf inni í skelinni væri þá ekki rökrétt að maður myndi nú taka til í henni, sem á nú ekki alveg við mig. að minnsta kosti er svo mikil óreiða í herberginu mínu að eftir mikla leit fann ég námsbók á skrifborðinu mínu sem var búin að vera týnd í þrjár vikur.

::: posted by anna at 21:54

27.3.04
 
laugardagseftirmiðdagur
ef þú, kæri lesandi, ert einmana og aðgerðarlaus á þessum laugardagseftirmiðdegi hef ég ráð til að bæta úr því. þá skalt þú leggja leið þína á kappræður ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna sem hefjast klukkan tvö. þær standa fram eftir degi, þannig að þótt klukkan sé farin að ganga fjögur þá er óhætt að láta sjá sig þar.

þessar lýðræðislegu umræður fara að sjálfsögðu fram í mekka hinnar lýðræðislegu umræðu, (hmm) seltjarnarnesi. nánar tiltekið í félagsheimili gróttu við suðurströnd. þar munu þrjú umræðuefni vera rædd, og mæli ég sérstaklega með því sem verður tekið fyrir í miðjunni: "á menning að vera ríkisstyrkt?" þar mun ég mæla fyrir hreyfinguna mína.

hin tvö umræðuefnin eru þó ekki af verri endanum. fyrir okkar hönd mun
dögg velta fyrir sér hvort innflytjendur séu tímabundið vinnuafl eða auðfúsugestir. einnig kemur dagur til með að ræða um hvort banna á kaup á vændi.

::: posted by anna at 10:39

24.3.04
 
veikindi
það að mér tókst ekki að vakna í skólann í morgun reyndist ekki vera leti. ég er búin að sitja aðgerðarlaus heima í allan dag að deyja úr veikindum og of háum líkamshita. þau lýsa sér í ónotum í höfði svo ég get hvorki lært né hugsað, og eymslum í útlimum þannig ég get ekki æft mig.

eftir leiðinlegan veikindadag hef ég komist að því að mér hefur farið mjög aftur í free cell. einu sinni var ég með áttatíu prósent vinningshlutfall í þeim leik. nú hefur það hrapað niður í sextíu og sjö.

þeir sem þekkja free cell vita að leikirnir eru tölumerktir og eiga allir að geta gengið upp. einu sinni lék ég mér að því að spila leikina frá einum og uppúr og hætta ekki fyrr en mér tækist að láta þá ganga upp. ég komst upp í fjörutíu og eitthvað.

allir þeir sem halda því fram að solitaire sé betri kapall en free cell eru bjánar. solitaire er fullkomlega heiladauður kapall þar sem ekkert reynir á hugsanagang leikmanna. free cell er hins vegar einstaklega gefandi leikur þar sem reynir á gáfur og útsjónarsemi þeirra sem spila hann.

::: posted by anna at 18:24
 
vitlaus?
að minnsta kosti líður mér hálf kjánalega eftir að hafa ekki tekist að finna út hvaða námskeið ég á að velja fyrir næsta ár. það er alveg ótrúlega flókið að finna út úr öllu á blessaðri heimasíðu háskólans. endalausar upptalningar og skammstafanir sem er lífsins ómögulegt að finna hvað merkja, hvað þá hagnýta við lausn á raunverulegum vandamálum.

þetta er einungis síðasta skrefið í þrautagöngu minni í átt að námi á næstu önn sem virðist engan enda ætla að taka. ég er búin að velkjast um í tölvukerfi nemendaskrár (og reyndar líka eigin leti og sinnuleysi) síðan ég hóf nám í janúar og var í dag, áttatíu og tveimur dögum eftir námsupphaf, að fá aðgang að heimasvæðinu mínu og netpóstinum.

ef ég væri haldin fælni sem beindis til dæmis gegn skráningum eða tölvum væri ég hætt við að skrá mig í háskólann. en ég er sterk og læt ekki bugast. ég er nógu sterk til að geta farið á nemendaskrána á morgun og fengið enn eitt skráningarblaðið, fyllt það út og séð hvað svo gerist. ég læt umfangið ekki slá mig út af laginu. ég ætla mér að verða fullgildur fyrsta árs nemi í jarðfræði á haustmisseri.

::: posted by anna at 01:00

22.3.04
 
mismunandi mótmæli
eftir að hafa tekið tvisvar þátt í mótmælum á þremur dögum hef ég smíðað kenningu um mótmæli og íhald. í mótmælunum gegn skólagjöldum í dag kom glöggt í ljós að íhaldið kann bara ekki að mótmæla. þarna voru einhverjir vígalegir vökuliðar með flott spjöld og allt, en þegar kom að því að þurfa að garga litu þeir bara í kring um sig og opnuðu ekki munninn.

það þarf nefnilega vissa reynslu til að garga á mótmælum. grey vökuliðarnir voru einfaldlega of spéhræddir til að sleppa sér dálítið við gargið. það var líka engin fjölbreytni í slagorðum. "engin skólagjöld" er ágætt svona til síns brúks en oft gott að geta skreytt smá og létt á stemningunni með öðru gargi.

á sumum mótmælum þarf samt ekkert að garga en þau eru vandmeðfarin og þurfa að vera vel skipulögð. þannig var það á mótmælum gegn stríði á laugardaginn. þau svínvirkuðu þótt ekkert væri gargað. kannski ekkert skrítið þar sem þar voru vanir skipuleggjendur við stjórnvölinn. stúdentaráð ætti kannski að ráða s.h.a. til að skipuleggja fyrir sig mótmælin.

::: posted by anna at 23:42

21.3.04
 
ástsýki
mér finnst ástfangið fólk vera upp til hópa hundleiðinlegt. ég þekki nú þegar nokkra frábærlega hressa og skemmtilega einstaklinga sem hafa fallið í ástina og ekki sést síðan. breyst í leiðinlegar gufur sem tala ekki um neitt, horfa bara dreymandi út í bláinn og flissa ef maður spyr um hvað þeir hafa verið að hugsa.

eftir miklar spekúlasjónir hef ég komist að því að ástin er sjúkdómur. um leið og fólk smitast af ástinni hættir það að vera til og fer að lifa sem annar helmingur af tveimur. líf á eigin forsendum hverfur þá eins og dögg fyrir sólu því það verður of veikt til að hugsa sjálfstætt.

ég er viss um að einhverjir ástfangnir (sjúklingar) eiga eftir að vorkenna mér voðalega mikið fyrir að vera bitur stúlka út í dásemdir lífsins, þ.e. ástina. ég er hins vegar sannfærð um að þeir hinir sömu séu bara hræðilega meðvirkir með sjálfum sér og veikindi þeirra skyggi á almenna rökhugsun. ég mæli með að viðkomandi leiti sér lækningar, meðal annars hjá s.á.á.

::: posted by anna at 23:17

20.3.04
 
hin fullkomna flétta
ég ákvað í dag að leggjast í hugmyndavinnu sem á endanum myndi skila hinni fullkomnu fléttu. oft hef ég pirrast yfir þeim mörgu og augljósu vanköntum sem eru á fléttunum mínum en það var ekki fyrr en nú sem ég sé að ráðast þarf á rót vandans. þetta er spurning um rökrétta hönnunarvinnu.

ég vann frumdrögin í dag með því að skilgreina það sem ég vil ná fram með þessari hönnun. nú þarf bara að leggjast í útfærslur á framkvæmdinni sem ég hef gefið heitið "hin fullkomna flétta" sem ég hyggst meira að segja fá einkaleyfi á og reyna að selja þegar fram í sækir. ég hef séð að mikil eftirspurn er eftir góðum fléttum og því hlýt ég að eiga ríkidæmi vís, bara rétt handan við hornið.

það sem einkennir fyrst og fremst góða fléttur er að hún þarf að vera svo þétt að hún haldist óhreyfð í heilan dag án þess að verða ruskuleg. hún má ekki vera bylgjótt heldur nærri því rennislétt og með fallegum boga þar sem hún stækkar jafnt og þétt. einnig þarf að gera ráð fyrir að jafnar krullur komi í hárið daginn eftir ef hún hefur verið sett í blautt hár.

::: posted by anna at 00:08

18.3.04
 
á döfinni
það er mikil vinna að vera tónlistarnemi og komið að hinum árlega tíma þegar allt er að gerast í því lífi. allir hafa gott af því að mæta á tónleika svona endrum og sinnum og fylgir hér með listi yfir ágætis uppákomur sem vert er að kíkja á.

laugardagur 20. mars, klukkan 16
afmælistónleikar tskd í háskólabíói. þetta eru alsherjartónleikar þar sem til dæmis er hægt að heyra hátt í hundrað lítil og stór selló- og fiðlubörn flytja "bláu augun þín." það sem er helst að sjá á þessum tónleikum eru þrír sembalkonsertar eftir bach, fluttir á píanó, við undirleik hljómsveitar sem ég spila í. væntingarstuðull: 2/5

þriðjudagur 30. mars, klukkan 20
aðrir afmælistónleikar og nú í salnum. lítil og stór börn að spila einleik og samleik á ýmis hljóðfæri, en allt örugglega mjög flott því þarna verða bara úrvals nemendur. ég er að spila með sellóhóp lítil lög eftir snorra sigfús birgissson, sem ég er reyndar ekki búin að heyra þannig ég get lítið sagt um skemmtanagildi þeirra. væntingarstuðull: 3/5

miðvikudagur 31. mars, klukkan 20
tónleikar framhaldsnema í tsdk líka í salnum. ég er að spila e-moll sónötu eftir brahms fyrir selló og píanó sem og strengjakvartett eftir borodin með kvartettinum sem fann grúvið. borodin er rosa flottur, brahms er illa æfður. að minnsta kosti svífur þar rómantíkin yfir vötnum. væntingarstuðull: 3,5/5

laugardagur 3. mars, tímasetning óákveðin
þetta eru tónleikar hamrahlíðarkórsins. á efnisskránni eru mjög skemmtileg íslensk verk og í rauninni ekkert sem er beinlínis leiðinlegt. væntingarstuðull 4,5/5

::: posted by anna at 15:12
 
skemmtileg lífsreynsla
ég lenti í dálitlu voðalega skemmtilegu um daginn. það var dagurinn sem var þoka og ég lét ekki gabbast af henni því ég vissi að það myndi koma sól um hádegið. ég var sem sagt á gangi á háskólasvæðinu þar sem ég braust í gegn um þokuna þar sem það var ekki komið hádegi.

þar sem ég gekk framhjá fimmustrætóskýlinu við suðurgötu kom drengur á móti mér og ávarpaði mig. "fyrirgefðu, fröken. gætir þú nokkuð sagt mér hvað tímanum líður?" þetta þótti mér skemmtileg spurning, sérstaklega í ljósi þess að drengurinn var líklega á milli tíu og tólf ára gamall og klæddur í vandræðaunglingalegan íþróttagalla.

drengurinn endurreisti trú mína á ungdómnum í þessari einu setningu. þetta var allt annað hljóð en var í strokki drengjanna sem ég hitti á tjörninni. þeir voru að skauta á sprungnum ísnum í tíu stiga hita og ég ég benti þeim vinsamlegast á að koma sér af ísnum. ég hefði nú frekar kosið að þeir hefðu kallað mig fröken í staðin fyrir hóru.

::: posted by anna at 00:38

16.3.04
 
slys
ég var búin að fá veður af þessu slysi. ótrúlegt hvernig sömu hræðilegu hlutirnir endurtaka sig alltaf sama hversu hörmulegir þeir eru. ég hef reynt að afneita því en eftir að hafa keyrt niður laugaveginn í dag get ég ekkert nema horfst í augu við það. pastellitir eru aftur komnir í tísku.

þeir sem hanna götulínurnar í tískufyrirtækjum gera klárlega ekki ráð fyrir því að maður vilji eiga fötin sem maður kaupir lengur en í eitt sumar. pastellitir eru klassískt dæmi um lit á klæðnaði sem lifir sumarið ekki af. svo er ekki þverfótað fyrir þessum hörmungum og ef maður vill aðeins hressa upp á fataskápinn neyðist maður bókstaflega til að kaupa pastel.

síðast þegar pastellitir voru í tísku keypti ég pastelbleika peysu. hún var allt í lagi á þeim tíma en eltist mjög illa. ég hitti hana í skápnum mínum um daginn og komst ekki hjá því að gubba.

::: posted by anna at 00:45

15.3.04
 
óhamingjudagur
ég lenti í ótrúlegum óhamingjudegi í gær. það er bara langt síðan ég hef lent í öðru eins. það var ekkert sem mögulega gat kætt mig, nema hugsanlega gott veður við ástjörn í hafnarfirði. ég var eitthvað að druslast við að vinna vinnuna mína og komst að því að hún er örugglega leiðinlegasta vinna í heimi hér.

þegar komið var fram á kvöld og ég búin að vinna lagði ég leið mína niður í bæ. þar fann ég gott fólk þó var næstum því of upptekið við að tala við mig og ég neyddist til að labba heim. á leiðinni fékk ég hræðilegan magakrampa sem varð þess meðal annars valdandi að ég var næstum því búin að leggjast í fósturstellingu á landakotstúni.

loksins komst ég heim og við það hvarf magaverkurinn (?) en við tók ei skárri krankleiki. ég fór að hnerra svakalega og klæja í kinnholurnar sem leiddi af sér enn eina andvökunóttina. þegar ég vaknaði um nóttina svona í sjötta skiptið varð mér litið í spegilinn og sá að æð hafði sprungið í auganu mínu. þá varð ég fúlt, magasjúkt, hnerrandi skrímsli með bleikt auga.

sem betur fer var þessi hörmulegi dagur rammaður inn af tveimur afar skemmtilegum. bleika árshátíð röskvu á laugardaginn var sérlega vel heppnuð, þótt æfingarnar þann daginn hafi verið helst til langdregnar. svo var svo fallegt í gróttu í dag og ekki annað hægt en brosa yfir því.

::: posted by anna at 23:50

11.3.04
 
nýtt líf
í gær var ég óhamingjusöm. þá var ég sálarlaus aumingi með fullar bankabækur af peningum. í dag er ég hamingjusöm, brosmild og æðislega glöð. ég er aftur orðin að fátækum námsmanni með nokkrar krónur inni á bankareikningi.

ég hef verið tóm að innan alveg síðan ég seldi sellóið mitt fyrir nokkrum vikum. baráttan við litlu neyslupúkana inn í mér sem vilja kaupa fullt af skóm í kron og urban outfitters hefur verið æði ströng. ég er fegin að ég ligg ekki lengur á öllum þessum peningum sem vilja svo gjarnan láta eyða sér í vitleysu.

tímabili vökunátta og endalausra bollalegginga um kosti og galla hinna ýmsu sellóa er lokið. í dag keypti ég rúmlega hundrað ára gamalt þýskt selló. nú er bara best að fara að æfa sig því allir ætla auðvitað að mæta á tónleika bráðum og hlusta á gripinn.

::: posted by anna at 00:06

9.3.04
 
saga af stúlku II
þess má geta strax að sagan er ekki sönn. ég er á því að það sé til lítils að segja sannar sögur því þær eru oftast svo miklu leiðinlegri en stílfærðar sögur. hversdagsleg atvik geta fengið á sig ævintýrablæ, einungis með því að vera lítillega færð í stílinn.

febrúardag einn hélt stúlkan að það væri komið sumar, sem er algengur misskilningur á hennar bæ. hún vaknaði þennan sunnudagsmorgunn og bjó sig til að yfirgefa húsið til erindagjarða dagsins. hún fór í sumarföt, jarðaberjabol og sumarskó, og skokkaði út um dyrnar því strætó var að koma. þar tók illskeytt rigningin tók á móti henni því í raun var bara vetur úti.

eitt leiddi af öðru og hún neyddist til að ganga úthverfið kópavog þvert og endilangt með þeim afleiðingum að rigningin náiði loks tökum á henni. hún byrjaði á því að ná fótunum á sitt vald, síðan hárinu og loks öllum líkamanum. stúlkan viltist í kópavogi, rigndi niður þar og sást því miður aldrei aftur. einu leifarnar um veru hennar í kópavogi var rennblautur og skítugur jarðaberjabolur.

upp úr þessu fóru vísindamenn að velta fyrir sér hvað þarf til að fólk rigni niður og þannig beinlínis deyji úr rigningu. rannsóknir eru vel á veg komnar, sem má algjörlega þakka stúlkunni sem lést úr rigningu í kópavogi, sunnudag einn í febrúar.

::: posted by anna at 01:53

6.3.04
 
vetnisvagnar
ég hef ákveðið að stíga fyrsta skrefið í áttina að því að uppfylla áramótaheitin mín. þannig er mál með vexti að litla systir mín er farin að læra að keyra bíl. henni datt í hug að við myndum fara að læra saman á bíl og fara saman í ökuskólann sem ég og samþykkti. þetta líst mér vel á því áramótaheitinu mínu var að þessu sinni að hluta til helgað bílprófsloforði.

einhvern tímann lýsti ég því yfir í blaði að ég myndi ekki fá mér bílpróf fyrr en vetnisbílar yrðu almenningseign. ég fattaði í vetnisvagni um daginn að ég er ekki að fara á bak orða minna með því að fá mér bílpróf. peningarnir okkar fara í strætó, við eigum þess vegna strætó, við erum almenningur og strætó á vetnisbíla. af þessu leiðir að vetnisbílar eru vissulega orðnir almenningseign.

við þetta tækifæri langar mig til að lýsa gleði minni yfir fjölgun í vetnisvagnaflotanum. mér finnst þeir vera svo töff að ég hef við fleiri tækifæri tekið tvistinn heim, því tvisturinn var einu sinni eina leiðin þar sem voru vetnisvagnar. nú er ég hætt að þurfa að gera það því bæði sexan og þristurinn eru stundum vetnisvagnar. það er mjög gott því það tekur mig tuttugu og tvær mínútur að labba heim úr tvistinum en bara hálfa að labba heim úr sexunni eða þristinum.

ég hét því líka að fá mér göt í eyrun. ég býst samt við að ég láti það bíða haustsins.

::: posted by anna at 17:36

3.3.04
 
hvít andlit
sólin er farin að hækka á lofti og andlitin okkar verða hressilegri með hverjum deginum. ég skellti mér í bláa lónið um helgina og er ekki frá því að andlitið hafi verið útiverunni fegið. að minnsta kosti hef ég tekið eftir því að hátt í tugur frekna hefur fest sig í sessi á og í kring um nefið upp úr þessari ferð.

þessar freknur hafa ekki látið sjá sig í marga mánuði. síðan sumarið söng sitt síðasta hef ég, jafnt og þétt, misst húðlitinn. þegar birtan af jólaljósunum er hætt að lýsa okkur upp er hægt að segja að ísland breytist í draugabæ, svo endalaust litlaus verðum við (þótt ég fái nú aukabónusstig út á að hárið mitt er aldrei rauðara en í desember.) allir eru líflausir og óspennandi í útliti, eiginlega bara ljótir og í raun furðulegt að einhver pör verði til yfir höfuð í svartnættinu.

þá er það alltaf spurningin hvort ljótleikinn er nógu hræðilegur til að maður hætti á að fá krabbamein til að koma í veg fyrir hann. mér finnst ekki, enda hef ég aldrei verið fyrir ljósaböð. fátt finnst mér vera leiðinlegra og tilgangslausara en að liggja í ljósum, svo ekki sé nú minnst á það að húðin mín sólbrennur við það eitt að stíga fæti inn á ljósabaðstofur. ég reyni bara að láta mömmu sannfæra mig með setningunni sinni: "það er fallegt að vera hvítur."

::: posted by anna at 01:38

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla