stúlkan léttmeti29.4.04
 
ótrúleg saga
þetta er lítil saga af gærdeginum mínum sem var ótrúlegur í meira lagi. sagan er meira að segja þannig gerð að miðað við það sem ég er búin að vera að læra um "recits brefs" má segja að hún sé ævintýri. frásögnin hefst eftir hádegi og sögusviðið er ekki ævintýralegra en aðalbygging háskólans.

ég gekk sem sagt inn prófið, settist við merkta borðið mitt með prófagögnin. þar á meðal var innöndunarlyfið sem ég tek aldrei nema af bráðillri nauðsyn þar sem mér líður eins og ég sé leiðinlega "vive la france" konan í amelie þegar ég tek það. svo voru bara þessar ágætu prófspurningar og ég fór bara að skrifa.

þá seig heldur betur á ógæfuhliðina þar sem ég fékk eitt það alversta hóstakast sem þekkst hefur og þurfti að bregða mér á klósettið. þar eyddi ég góðum tíu mínútum með höfuðið upp að veggnum til að missa ekki jafnvægið sökum súrefnisskorts. svo kom ég mér bara aftur fyrir í stofunni, að vísu bólgin í framan af tárum.

svo gerðist þetta aftur og ég aftur fram. það endaði þó ekki betur en svo að hóstakastið varð til þess að ég kastaði upp, þó sem betur fer á klósettinu því annað hefði verið vægast sagt vandræðalegt. svo fór ég bara aftur inn, kláraði prófið og fór út í sólina.

líkamsstarfsemi mín virðist þó hafa farið í svo mikið ólag að eftir að ég var búin að fara í hljómfræði lognaðist ég út í rúminu mínu klukkan átta og svaf til morguns. svona er nú margt skrítið í þessum heimi, og vegir veiranna og bakteríanna órannsakanlegir.

::: posted by anna at 23:43

27.4.04
 
saga af stúlku IV
einu sinni var stúlka. hún varð stundum lasin en samt aldrei neitt svo voðalega lasin að hún þyrfti að liggja heima. en það var bara yfirskin því að henni fannst aumingjalegt að vera heima. hún hélt nefnilega í alvörunni að hún væri svo mikilvægur þáttur í heildarmynd tilverunnar að hún þyrfti alltaf að vera allsstaðar.

síðan varð hún lasin og ákvað að liggja ekki heima hjá sér. hún gamnaði sér við að fleygja því að hún væri komin með berkla því hún hóstaði eins og sjötug stórreykingakona. samferðafólk hennar hafði misgaman af þessum misheppnuðu bröndurum og hvatti hana til að leita læknis sem hún gerði að sjálfsögðu ekki.

svo fór hún bara út að skemmta sér og í vinnuna og á tónleika og allskonar dót, allt annað en að vera liggja í rúminu. þá varð hún bara meira veik og síðan kom sá dagur að hún þurfti að horfast í augu við raunveruleikann. hún viðurkenndi að hún væri lasinn og lofaði meira að segja stjúpu sinni að hringja í lækni, sem hún stóð reyndar ekki við.

stuttu seinna fékk stúlkan margfalda veirusýkingu og dó. það góða við það var að hún lést eftir að hafa náð þeim þroska að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri veik þegar hún var það í raun. hún beinir þeim tilmælum að handan að fólk leiti sér lækningar þegar eitthvað bjátar á.

::: posted by anna at 01:53

25.4.04
 
vorvítamín
þar sem ég er orðin nokkuð illa haldin af vorveikinni ákvað ég að taka vítamín. ég tek ekki oft vítamín og svoleiðis en trúi því að það geti ekki gert annað en gang. í frakklandi heldur fólk að vítamín séu allra meina bót. ef maður er eitthvað slappur í skólanum getur maður farið til hjúkkunnar, fengið vítamíndrykk og læknast.

ég er líka að fara að syngja á vorvítamíni hamrahlíðarkóranna á morgun. ég vona að það verði franskt vítamín og lækni mig af veikinni. það var hræðilegt í sinfó í gær þar sem ég þurfti að yfirgefa salinn undir sjálfum brúðarmarsinum vegna ofsafengins hóstakasts. ekki mikið vítamín þar á ferð þótt tónleikarnir hafi nú verið skemmtilegri en ég hafði gert ráð fyrir.

allir velkomnir á vorvítamínið sem er haldið í menntaskólanum við hamrahlíð. það eru tónleikar klukkan tvö og fjögur og allskonar húllumhæ á milli. þannig er mælst til þess að fólk komi klukkan tvö og sé viðstatt þangað til fjögur-tónleikarnir eru búnir.

::: posted by anna at 00:29

23.4.04
 
stærðfræðitími
litla systir er að byrja í samræmdu prófunum og af góðmennsku minni hjálpaði ég henni aðeins í stærðfræðinni í gær. gefnu svörin voru eitthvað að stríða okkur og þess vegna ákvað ég að dusta rykið af grafísku reiknivélinni minni og biðja hana um aðstoð. gripurinn hefur kúldrast í skrifborðsskúffu í nokkra mánuði, eða síðan í síðasta stærðfræðiprófinu mínu í mh.

við grafíska reiknivélin höfum ekki verið aðskilin svona lengi síðan ég fjárfesti í henni fyrir tæpum þremur árum. að handleika hana á ný var eins og að hitta gamlan vin sem maður var búinn að gleyma að væri bæði skemmtilegur og gáfaður. hæfileikar hennar eru nánast ótakmarkanlegir og veitir hún góða leiðsögn þegar leysa þarf erfið vandamál samtímans.

eftir stærðfræðitíma gærdagsins dundaði ég mér heillengi við að teikna gröf og reikna allskonar dót í vélinni. ég ætla sko ekki að láta eins langt líða á mili skipta sem ég brúka vélina eins og núna og með það að leiðarljósi kom ég henni fyrir á náttborðinu mínu. ég sé nefnilega að í staðinn fyrir að lesa einhverjar bækur og þannig á kvöldin er allt eins hægt að reikna nokkur dæmi sér til ánægju og yndisauka.

::: posted by anna at 00:10

18.4.04
 
askja
ég fór á opnun náttúrufræðihúss háskólans, öskju, dag einn í vikunni. það þótti mér hin ágætasta skemmtun þótt mér hafi reyndar verið tjáð seinna að við hefðum misst af skemmtilegu ræðunum. við náðum þó að hlusta á doktor magga sem fræddi okkur um að byggingar ættu ekki að vera teiknaðar með notagildi að leiðarljósi.

samkvæmt mínum bestu heimildum er askja teiknuð eftir þeirri forskrift. agnarsmátt bókasafn, fáir kennslusalir og lítil sem engin lestraraðstaða veldur því að húsið getur varla talist sérstaklega hentugt fyrir nemendur. ekki er pláss fyrir næstum því alla kennsluna í húsinu, því á þeim tuttugu árum sem húsið hefur legið á teikniborðinu eru skorin sem það á að hýsa löngu búin að sprengja það utanaf sér.

ég get samt eiginlega ekki að því gert að mér finnst eitthvað æðislega heillandi við öskju. auðvitað er ekki æskilegt að svona miklum fjármunum sé varið í hús sem hægt er að nota svona lítið en ég skil samt alveg doktor magga og hans sjónarmið. þau ná líka vel fram að ganga í öskju sem er notalegt hús, bjart, skemmtilegt og óskaplega fallegt.

enda varð ég eins og stúlka í sælgætisverksmiðju og gekk um brosandi út að eyrum. fór á milli hæða og benti önnufélaginu á forláta jarðskjálftamæla, fallegar eldfjallabækur og allt dótið sem fólk í raunvísindadeild fær að leika sér með daginn út og inn. ég hef líka vart getað hugsað um neitt annað en öskju síðustu daga og fæ fiðrildi í magann þegar ég leiði hugann að haustinu.

::: posted by anna at 16:50

16.4.04
 
vinna
ég fékk tvö atvinnutilboð í gær og komst að því að þótt ég sé vissulega haldin aurasýkinni er hún ekki enn á alvarlegu stigi. að minnsta kosti tókst mér að neita heilsdagsvinnunni sem mér var boðin á grundvelli þess að ég þarf að læra. þar sýndi ég og sannaði að sýkin hamlar því ekki að ég taki skynsamlegar ákvarðanir.

ekki löngu eftir fyrra tilboðið fékk ég þó annað sem ég gat ekki með nokkru móti hafnað. gamall sellókennari minn er með fótbrotna au-pair stelpu sem getur ekki sótt börnin sem hún á að vera að passa á leikvöllinn. mitt starf er því að sækja tvö börn á leikvöll tvisvar í viku og labba með þau svona hálftíma spotta heim til sín.

í fyrstu göngunni datt mér í hug að kannski ætti ég bara að gera bissniss úr þessu. taka að mér að sækja fullt af börnum og labba með þau heim, samhliða því að ég færi út að ganga með hunda og inniketti. kannski jafnvel færi að bera út auglýsingapésa og fá börnin og hundana til að skottast með þá inn um lúgur. mér finnst þetta alveg frábær hugmynd, svo frábær að síðan ég fékk hana hef ég bara ekkert lært. enginn þarf háskólapróf til að fara út að ganga með börn, hunda og inniketti.

::: posted by anna at 14:27

10.4.04
 
brothættur heimur
við búum í alveg hræðilega brothættum heimi. svo brothættum að ég held að það gefi næstum því tilefni til þess að sitja heima alla daga og halda að sér höndum. sérstaklega þegar maður er, hvað skal segja, ekkert sérstaklega penn í hreyfingum.

ég hef brotið margt, þar á meðal þrjú selló og ótal strengjastóla. samanlagður viðgerðarkostnaður hleypur örugglega á hundruðum þúsunda, þótt ég hafi nú skipt honum með blessuðum tryggingafélögunum.
í fyrradag braut ég svo rauðu gleraugun mín og því mun enginn framar sjá mig með þau á nefinu.

umgjörðin er brotin í miðjunni og já, ég er búin að athuga hvort er hægt að nota þau sem einglyrni og það fúnkerar bara ekki. glerin virka samt mjög vel og ég held ég kaupi bara nýja umgjörð utan um þau. kannski voru þetta bara æðri máttarvöld að segja mér að kaupa gul gleraugu, nú eða græn.

::: posted by anna at 12:26

9.4.04
 
gleðilega páska
páskarnir eru fyndið fyrirbrigði. svona eins og endurgerð af jólunum nema það vantar allan hátíðleikann. ég tengi páskana aðallega við fermingarundirbúning, samræmdu prófin, stigspróf, og man reyndar ekki til þess að ég hafi gert eitthvað annað á þessari hátíð undanfarin ár.

ég er þó með meiningar um hvað maður á að gera á páskunum. það fyrsta og jafnframt það mikilvægasta er að borða camembert. varast ber þó að borða hann með of sætu kexi því þá er hann ekki eins góður. einnig er mikilvægt að huga að blómunum, helst kaupa mörg blómabúnt til að hafa um allt húsið og klæðast fötum með blómamynstri.

ekki á að koma sér hjá því að þenja raddböndin lítið eitt. gott getur verið að syngja lögin úr "sound of music" í góðra vina hópi. ég mæli líka með því að allir skelli sér í messur og taki undir í hátíðartóninu. tónið bætir allgjörlega upp fyrir predikanirnar, sama hversu leiðinlegar þær eru, ég tala nú ekki um ef maður fær að syngja "ég kveiki á kertum mínum" líka.

::: posted by anna at 12:24

5.4.04
 
saga af stúlku III
einu sinni var stúlka. hana langaði að læra allt í heiminum og var staðráðin í því að hætta aldrei í skólanum. hún nennti ekki að vinna en gerði það þó þegar hún neyddist til, eða þegar hún þurfti aura til að fjármagna nám sitt. síðan gerðist það að hún slysaðist til að byrja að vinna af því að hún fékk auraveikina.

einn sérdeilisgóðan veðurdag vaknaði stúlkan við undurfagran sólargeisla og fuglasöng. hún reis glöð upp úr rúminu þangað til að hún fattaði að hún þurfti að fara að vinna. síðan sat hún heilan dag í vinnustólnum og bölvaði sólinni því að hún gerði leiðinlegan glampa á tölvuskjáinn hennar.

eftir sólardaginn kom stúlkan heim og borðaði kvöldmat. síðan ráfaði hún um húsið sitt því hún vissi ekki hvað hún átti að gera við líf sitt. þá tók hún til hjá sér og ryksugaði og áður en hún fór að sofa stillti hún vekjaraklukkuna sína svo snemma að hún gæti verið komin í vinnuna áður en sólin kæmi upp.

svo hætti stúlkan að blogga því eftir heilan vinnudag við skriftir nennti hún ekki að skrifa meira. seinna meir dó hún bara því vinnan hennar var menningarsnauð og hún gat ekki lifað án þess að eitthvað gæfi lífi hennar gildi.

::: posted by anna at 19:18

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla