stúlkan léttmeti25.5.04
 
herferð
herkonan ég er snúin aftur úr baráttu við skít og annan óþverra austur í landi. þótt dvölin hafi verið stutt að þessu sinni gekk ýmislegt á í skólabyggingu menntaskólans á egilsstöðum. ég barðist á mörgum vígstöðvum með mismunandi bandamenn mér við hlið.

eftirminnilegust er líklega orustan við hvítu flekkina á baðherbergisgólfinu. ég eyddi þar mörgum klukkutímum í hinum ólíklegustu stellingum vegna þess að gólfið er nær því í stærð að vera frímerki en nokkuð annað. við tsunami-gólfhreinsir náðum hins vegar ágætlega saman og með dyggri aðstoð uppþvotta- og naglaþvottabursta náðum við að yfirbuga óvininn.

ásamt örtrefjaklút, spútnik-hreinsiefni og þjark-alhreinsi réðst ég á veggjakrot eftir óheflaða stráka á framhaldsskólaaldri. því miður lauk þeirri orustu ekki með alsherjarsigri og því stendur enn "ég totta typpi" á einni herbergishurðinni og "ert þú að kúka í klósettið mitt?" innan á annarri.

ég átti líka góðar orustur með foamy q&a, klósetthreinsi sem drepur hiv-veiruna, double effect kísilhreinsi sem grefur undan gulu blettunum í vaskinum sem þú hélst að færu aldrei og klór, klór og aftur klór. ég varð ekki fyrir alvarlegum meiðslum, ef frá eru taldar húðskemmdir á höndum og handleggjum vegna þess að bandamenn mínir þekktu oft ekki muninn á mér og skítnum sem þeir áttu að drepa.

::: posted by anna at 23:01

14.5.04
 
ráðherraveiðar
við systurnar gátum ekki stillt okkur um að horfa á umræður frá alþingi á milli þess sem við fylgdumst með carrie og vinkonum hennar í sex and the city. þar heyrði ég meðal annars í kolbrúnu halldórsdóttur sem var að velta fyrir sér hvar menntamálaráðherra hafi haldið sig í umræðunum í dag. það, kæru vinir, það veit ég.

þorgerður katrín hlýtur að hafa vaknað í morgun, fattað að það væri fimmtudagur og síðan munað að sex and the city er búið. þá hefur hún haldið að hún væri carrie og ákveðið að eyða deginum í að fara í búðir. ég hitti hana að minnsta kosti í elm-búðinni í eftirmiðdaginn, á sama tíma og stjórnarandstaðan var eitthvað að derra sig um fjölmiðlafrumvarpið á alþingi.

fleiri ráðherrar virðast líka hafa gleymt því að þær eru ráðherrar og haldið að þeir væru persóna úr sex and the city. ég frétti að charlotte friðleifsdóttir hafi einnig sést versla sér föt í eftirmiðdaginn, í kringlunni með park-poka.

kannski voru þær að dressa sig upp fyrir ríkisstjórnarpartý í kvöld og partýið skýringin á því af hverju stjórnarþingmennirnir voru ekki á alþingi í kvöld. halldór og davíð hafa bara boðið liðinu í partý á meðan stjórnarandstaðan rasar út um eitthvað sem engu máli skiptir.

::: posted by anna at 00:26

12.5.04
 
dagur á reynimel
á prófatíma búum við helga í kjallaraíbúð við reynimel og lærum saman. það er ágætt því íbúðin er inflúenseruð af tómhyggju og er því lítið við að vera nema læra. ég geri okkur þó dagamun með því að gefa frá mér ýmis fyndin hljóð, berja helgu með bókum og hoppa um gólfin í skrítnum stellingum.

í dag fann ég þó hefðbundnari aðferð til að skemmta okkur, gamalt ferðatafl, og bauð helgu umsvifalaust upp á eina skák. þótt skákkunnátta mín sé ekki saga til næsta bæjar er ég töluvert betri að tefla en helga. þessi iðja hafði því alla burði til að vera bæði stórskemmtileg og góð upplyfting í mónótónísku lífi okkar systra.

háleitir draumarnir rættust ekki vegna þess leiða siðar sem helga hefur að gefa skákina þegar hún tapar drottningunni. ég skilaði henni einu sinni tilbaka en nennti því síðan ekki aftur og ég endaði á því að tefla við sjálfa mig í dágóða stund. það er þreytandi til lengdar og ég hvet alla þá sem eru sæmilega lélegir að tefla en nenna samt að halda áfram þótt þeir missi drottninguna að líta við hjá okkur í vikunni.

::: posted by anna at 01:35

11.5.04
 
farfugl
nú fer senn að líða að því að ég flýg yfir hálendið og tek sumarsetu á egilsstöðum. síðasta prófið mitt er á laugardaginn og svo kemur bara sunnudagur og þá leggjum við stjúpmæðgurnar keyrandi af stað til höfuðstaðar austurlands. reyndar stendur þessi fyrri lota ekki yfir nema út maí og getur því einungis talist smjörþefurinn af júlí-ágúst dvölinni.

ég hugsa oft um ferðina okkar heim í ágúst í fyrra. þá kikna ég í hnjáliðunum og fæ stjörnur í augun því ég fullyrði að ég hafi aldrei áður séð neitt jafn fallegt á ævi minni en einmitt þá. það var sólskin, heiður himinn og mjög hlýtt. komið smá haust og austfirðirnir gjörsamlega ómótstæðilegir.

annars get ég ekki annað en viðurkennt að ég er farin að hlakka til að komast burt frá borginni. dreymir alveg um einsetumannslífið og að þurfa ekki að muna neitt milli daga nema hvenær ég á að mæta í vinnuna. vonandi hitti ég samt ekki fagurgala og verð í lundinum í þúsund ár eins og einsetumaðurinn einu sinni.

::: posted by anna at 01:23

7.5.04
 
nýr nágranni
þegar ég fór út í morgun tók ég eftir að við erum komin með nýjan nágranna. hún er svona sentímetri í þvermál, gul og rauð og er oftast kölluð randafluga. hún var sem sagt á stéttinni í morgun þegar ég fór í próf, aftur þegar ég kom heim og líka þegar ég fór og kom frá ferð minni í kringluna.

ég hef sterkan grun um að hún sé að búa sér íverustað til að fjölga sér rétt við innganginn á garðinum mínum. kannski er bara ágætt að vera að stinga af fyrir sumarið til að eiga ekki á hættu að kremja lítil randaflugubörn í hvert skipti sem maður gengur inn og út úr garðinum sínum.

sem minnir mig á að einu sinni flaug randafluga inn í lófann minn. það var alveg dásamleg lífsreynsla sem ég er alveg til í að reyna aftur. ég get vottað að stóru hlussurnar eru alveg jafn mjúkar og þær líta út fyrir að vera.

::: posted by anna at 14:05

6.5.04
 
að læra yfir sig
ég er hrædd um að ásta hafi hitt naglann á höfuðið hvað varðar lærdóm og gleymsku. það bara getur ekki annað verið en að maður verði gleymnari eftir því sem maður lærir meira. að minnsta kosti verð ég alveg ofboðslega utan við mig þegar ég er í prófum og mjög rugluð.

ég er búin að vera að læra fyrir próf síðan um helgina sem átti að vera í dag. í gærmorgun komst ég þó að því að prófið er ekki á morgun heldur seint í næstu viku. það væru nú aldeilis ágætar fréttar ef ekki væri fyrir þær sakir að prófið sem ég hélt að væri þennan dag í næstu viku er á morgun. ég er sem sagt búin að læra í marga daga fyrir vitlaust próf og næstum því ekkert fyrir prófið á morgun.

þessa undanförnu daga í lærdóminum hef ég þó lært sitt og hvað sem ég vona að nýtist mér um alla framtíð. til dæmis á maður ekki að byrja að horfa á lélegu myndirnar sem eru á nóttunni á stöð tvö og alls ekki endursýninguna á american idol á sunnudögum.

::: posted by anna at 11:39

5.5.04
 
skókaup
í tilefni af sumrinu og fyrirhuguðum utanlandsferðum mínum skellti ég mér í skókaupaleiðangur. alltaf eru slíkir leiðangrar nú jafn skemmtilegir og gleðja litlar sálir sem reika um völundarhús prófanna. markmiðið var að kaupa götuskó til að spássera um borgir evrópu í sumar.

ég fékk líka aukabónus út úr þessum leiðangri þar sem ég eignaðist eiginlega tvö pör af skóm. eina nýja sumarlega götuskó og eina gamla-nýja uppreimaða kuldaskó. gömlu-nýju skórnir gengu í endurnýjun lífdaga með því að fá nýjar reimar og smá pússerí. gömlu-nýju skóna hef ég átt síðan í tíunda bekk og að þeir urðu nýjir á ný fannst mér þeir eiginlega bara vera flottari en nýju skórnir og fór frekar í þeim út í gær.

í því framhaldi hef ég ákveðið að kaupa mér aldrei nýja skó aftur, heldur búa mér bara til nýja úr þeim gömlu sem ég á. það þýðir óneitanlega sparnað. ég er lauslega búin að reikna út að nýju skórinir kostuðu mig 39,97 sinnum meira en nýju-gömlu skórnir í þessari umferð og munar fátæka aurasjúka námsmenn nú um minna.

::: posted by anna at 10:38

4.5.04
 
ég er samhengi
þótt fyrsti maí hafi verið hinn ágætasti dagur, ef á heildina er litið, mun hann líklega hafa afdrifarík áhrif á líf mitt. eftir fyrsta maí kem ég til með að vera óvinsælli og þar af leiðandi óhamingjusamari en hingað til. það er nefnilega búið að loka þjóðskránni sem hefur verið mér mikið þarfaþing í samskiptum við ættingja og vini.

ég er fullkomlega ófær um að muna dagsetningar og verð mér því oft til skammar þegar ég gleymi þeim afmælisdögum sem ég á að muna. ég man hins vegar samhengi og í hvaða röð fólk á afmæli. þar kemur þjóðskráin inn því ég hef stundað það í nokkurn tíma að fletta upp á afmælisdögum þegar ég veit að þeir eru að koma.

ég ætlaði að búa mér til afmælisdagabók sem myndi leysa þjóðskrá af hólmi, en gleymdi því. það lítur því út fyrir að ég þurfi að koma mér fyrir á hagstofunni og búa bókina til, helst eigi síðar en nú þegar þar sem ég er strax farin að finna fyrir neikvæðu andrúmslofti út af þessum veikleika. allt af því að við búum í ósanngjörnu páfagaukasamfélagi sem gerir ekki ráð fyrir að maður sé samhengi.

::: posted by anna at 22:11

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla