stúlkan léttmeti22.6.04
 
b-b-bruni
það er svo skrítið að þegar maður hangir úti í sólbaði svo klukkustundum skiptir tekur maður engan lit. svo þegar maður er næstum því ekkert úti og þá næstum því bara í skugga kemur maður undan degi með bleika slikju á allri húðinni. þannig er ég í dag og það er ekki bara ljótt heldur einnig sársaukafullt.

sólbrunar eru að vísu mínar ær og kýr eins og tíðkast dálítið með rauðhært fólk. ég brenn við minnsta sólargeisla jafnvel þótt ég setji á mig sun-block sólarvörn ótt og títt. ég get ekkert að þessu gert og heyriði það þið þarna illkvittna fólk sem gerir illkvittnar athugasemdir við mig og mitt bleika bak hvert sem ég fer.

ekki það samt að ég vilji vera eitthvað brún. í rauninni finnst mér asnalegt að vera brúnn. eins og ég hef sagt áður: það er fallegt að vera hvítur. fallegt segi ég. en það er ekki fallegt að vera rauður og bleikur og þess vegna sjáiði mig örugglega ekki mikið næstu daga.

::: posted by anna at 01:19

21.6.04
 
áfram stelpur
það er oft gaman að koma til ömmu og skoða dót úr geymslunni hennar. amma var virk í rauðsokkahreyfingunni í gamla daga og á alls konar dót því tengt. svo kom hún um daginn með grip sem ég hef beðið eftir í dálítinn tíma. nefnilega hina frábæru plötu áfram stelpur. hér er lítið textabrot til að hjálpa lesendum að skilja snilldina við plötuna.

gullöldin okkar var ekki úr gulli

gullöldin okkar var ekki úr gulli
og íslandssagan er full af bulli
þar er ei fólkið sem verkin vann
segi ég þér með sann.

ekki skánaði eftir hana
ekki var brugðið af gömlum vana
jafnvel á kúgunarhnútum hert
og var þó töluvert.

við stelpurnar verðum að standa sem einn
styrkur vor annars er ekki neinn.

svo komu aldir upplýsingar
og almennrar fræðslu en fátæklingar
og konur í verstu verkunum enn
eins og ófrjálsir menn.

á íslandi eru allir jafnir
en sumir jafnari og sumir hafnir
yfir jafnrétti yfirleitt
og einmitt því verður breytt.

við stelpurnar verðum að standa sem einn
styrkur vor annars er ekki neinn.

ofan í fordóma fenjum er setið
og framlag kvennanna er einskis metið
og nú skal í sögunni bortið blað
við bindum endi á það.


::: posted by anna at 11:51

18.6.04
 
bond pía
lífið getur tekið á sig fjöldamargar myndir. lífið getur líka líkst fjöldamörgum myndum og í raun þeim allra ólíklegustu. á morgun stíg ég á svið í tjarnarbíói og endurleik að einhverju leyti atriði úr bond mynd þar sem ég er sjálf í hlutverki bond gellunnar.

og hvernig má það vera? ójú, bond gellan í the living daylights er sellóleikari eins og ég. hún á að vísu stradivarius og er með stærri brjóst en ég, en að öðru leyti erum við alveg eins. atriðið sem um ræðir er þegar hún er eitthvað búin að vera að hanga með bond og þarf síðan aftur að fara heim til tékklands til að spila á tónleikum.

það sem bond áhorfendur fá að sjá af þessum tónleikum er einmitt notturno úr strengjakvartett númer tvö eftir borodin sem strengjakvartettinn tumi flytur í tjarnarbíói á morgun klukkan átta. ég verð þó að segja að ég býst við að standa mig betur en leikkonan í myndinni, því ég skal sko segja ykkur það að ef sellóið hennar hefði ekki verið að mæma þetta í myndinni hefði þetta verið hræðilega ljótt hjá henni.

ég bíð þess þó með hryllingi að líf mitt breytist allgjörlega í þessa mynd. ég ekki mögulega séð fyrir mér að ég gæti komið fjárhagslega vel út úr því að renna mér niður snæviþakta brekku um borð í sellókassanum með alsbert sellóið sem stýritæki. þótt stradivarius bond gellunnar hafi komið óskaddaður úr þessari svaðilför er ég ekki viss um að sellóið mitt gæti slíkt hið sama.

::: posted by anna at 14:04

14.6.04
 
þjóðbúningamegrun
barátta mín við aukaspikið hefur nú staðið í næstum jafn mörg ár og ég hef lifað. nú sé ég fram á að þurfa að taka góða hálfsmánaðarlanga orustu og lifa á eplum og vatni. eftir tólf daga þarf ég nefnilega að vera orðin þannig í laginu að ég geti andað í upphlutnum sem halldóra var svo dásamlega að lána mér.

ég er sem sagt að fara í kórferð til eistlands þar sem kórbúningarnir eru engir aðrir en íslenskir þjóðbúningar. þar sem ég er svo óheppin að hafa átt kringlóttar einsoghálfs metra langar formæður þurfti ég að fá lánaðan upphlut formóður halldóru. sú var þó ekki alveg eins vaxin og ég þannig að eina sem dugar er anda inn - anda út aðferðin til að troða mér í gripinn.

svo þegar ég er loksins komin í hann lít ég út eins og ólétt valkyrja, því ég næ ekki að krækja upphlutnum sjálfum saman í miðjunni og þarf að fela það með því að binda svuntuna upp undir handarkrika. til að verða ekki uppnefnd ólétti íslendingurinn í eistlandi þarf eitthvað að gerast. einnig væri ágætt að ná að losa nógu mikið um mittið að ég nái viðunandi öndunarflæði og þar með sungið eitthvað að ráði. það dugar því ekkert annað en stórátak með virðingarnafn: þjóðbúningamegrunin.

::: posted by anna at 00:08

13.6.04
 
kúlheit
það er fátt frábærara en að koma heim í eftirmiðdaginn og láta taka á móti sér með trommuslætti. ég fæ að reyna það svona endrum og sinnum, kannski sjaldnar er ég myndi vilja. ástæðan er einföld, ekki alls fyrir löngu tók lítið bílskúrsband sér bólfestu í skúrnum hjá nágrönnunum.

bílskúrsbandið er strax orðið mitt uppáhald. það er skipað nokkrum fjórtán ára seltirningum sem spila bara koverlög. þegar ég gekk upp tröppurnar heim til mín í gær voru þeir einmitt að spila james bond lagið. þá leið mér eins og ég væri fáránlega mikilvægur njósnari og á leiðinni upp stigann leit ég sérstaklega í kring um mig til að kanna grunsamleg atferli. þá leið mér líka eins og enginn í þessum heimi toppaði mig í kúlheitum.

ég verð þó að segja að þótt ég dýrki bílskúrsbandið útaf lífinu er það ekki efst á vinsældarlistanum þegar þeir æfa fyrir hádegi á sunnudögum. ég segi þó alltaf við sjálfa mig að þetta eigi eftir að lagast. ég get ekki ímyndað mér að nokkuð annað bílskúrsband en það sem er skipað fjórtán ára piltum taki upp á því að æfa fyrir hádegi.

::: posted by anna at 03:12

11.6.04
 
saga af stúlku v
einu sinni var stúlka sem gekk í gegn um stúlkulega hluti einu sinni í mánuði. þessu veseni fylgdu ávallt sérstakar vítiskvalir og gerðu verkir í maga, baki og útlimum það að verkum að einn dag í mánuði var hreyfigeta stúlkunnar stórlega skert, sem og hæfileiki hennar til rökhugsunar og einbeitingar. af því leiddi að þessa daga hélt hún sig heimavið á spjalli við sjálfa sig.

stúlkunni var illa við læknadóp og forðaðist í lengstu lög að lina þjáningar sínar með pilluinntöku. mánaðarlegu dagarnir enduðu þó iðulega með hálfdauða hennar milli þess tímapunkts að hún ákvað að taka inn dópið og þangað til að það fór að virka. í dag voru kvalirnar svo svakalegar að hún emjaði og veinaði þótt enginn væri heima.

á slíkum augnablikum hafði stúlkan þann vana að njóta eftirmiðdagsdagskrár sjónvarpsstöðvanna. hún er einmitt sniðin að þörfum túrverkjandi stúlkna þar sem valið stendur á milli bandar- og rómantískrar b-myndar og fólki sem hættir ekki að þrefa hinsvegar.

en þegar hún ætlaði að hlamma sér í sófann til sjónvarpsgláps heyrði hún þó að óhamingju dagsins væri ekki enn lokið. í stofunni var nefnilega heljarinnar geitungamóðir sem suðaði reiðilega. sökum skertar hreyfigetu og almennrar vorkunnar ákvað stúlkan að yfirgefa stofuna og imbakassann þann daginn. sem betur fer tókst henni að nappa tölvunni á leiðinni út því annars hefði hún dáið úr leiðindum.

::: posted by anna at 01:15

8.6.04
 
la révolution des fourmis
ég er að lesa rosalega skemmtilega bók eftir franska vísindaskáldsagnahöfundinn bernard werber. hún er þriðjungur af þrílógíu sem endar (að ég held) með því að maurar taka yfir heiminn. bókin hefur svo mikil áhrif á mig að ég stóð sjálfa mig að því að ljósmynda mauraþúfu á meðan á frakklandsdvöl minni stóð.

síðan kom ég heim og það fyrsta sem ég sá þegar ég gekk inn í herbergið mitt var mökkur af maurum. já, ég sjálf hef orðið fyrir byltingu þessara litlu skriðkvikinda og ekkert allt of sátt við það. ég er að vísu búin að hrekja þá að mestu út úr herberginu mínu núna.

vísindaskáldsagan blandaðist svo heiftarlega við raunveruleikann í draumaheimi mínum í nótt. svo heiftarlega að þegar ég vaknaði var ég sannfærð um að maurahópurinn sem ég náði að yfirbuga í vikunni væri einungis forsmekkurinn af því sem koma skildi. ég beið ekki boðanna heldur tók mig til í náttfötunum og setti límrendur í kring um alla glugga. svo eyddi ég góðri stundu í geymslunni við dauðaleit að skordýraeitri því mér fannst alveg nauðsynlegt að baða koddann minn upp úr slíku efni.

eftir því sem líður á daginn virðast þessar gjörðir þó hjákátlegri og hjákátlegri. ég kenni werber og frásagnargáfu hans um þessi ofstækisfullu viðbrögð. það skal sko enginn segja mér að það bjóði ekki hættunni heim að lesa vísindaskáldsögur.

::: posted by anna at 18:10

léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla