stúlkan léttmeti



26.11.04
 
ég er fallin.

ljóta anna!


::: posted by anna at 02:44





13.9.04
 
saga af stúlku - lokaþáttur
einu sinni var stúlka sem hélt úti bloggsíðu þar sem hún skrifaði stundum eitthvað sem henni fannst merkilegt og ómerkilegt. einn daginn frétti hún að bloggið væri dautt og þess vegna fór hún að skrifa stopult á bloggið sitt því hún var tískubóla og vildi ekki eiga á hættu að springa.

stúlkan var líka skipulagsfrík og til að gera allt skipulagt og óafturkræft ákvað hún að jarða bloggið sitt með viðeigandi ráðstöfunum. hún tók út athugasemdakerfið sitt svo hjákátlegir og væmnir einstaklingar gætu örugglega ekki beðið um upprisu hennar eftir dauðann. svo tók hún út alla tenglana nema þá allra uppáhalds til að sál hennar gæti komið við í líki stúlkunnar á fátíðum ferðum um bloggheima.

eftir þetta andaði hún léttar, hristi hausinn og sprakk. í þetta skiptið rís hún ekki upp frá dauðum en kveður í staðinn með kurt og pí. í dauðaslitrunum stundi hún upp einni staðlaðri þakkargjörð; hósíanna og takk fyrir mig, amen.


::: posted by anna at 23:13





31.8.04
 
halló heimur
ég heiti anna og ég á þetta blogg. ég á líka ýmislegt annað sem ég nenni ekki að tíunda hérna. núna sit ég við tölvuna mína, borða brokkolí og drekk kaffi. úti er svo mikil rigning að ég nenni ekki að fara þangað þótt ég þurfi að gera allskonar dót þar. mig langar í hjól nema þegar er rigning. þess vegna á ég ekki hjól.

mér finnst gaman að horfa á munstur sem fær mann til að horfa í hringi þangað til að maður finnur miðjuna á því. mér finnst ekki gaman að horfa á ljóta liti sem stinga í augun eins og tannkremshúsin á akureyri. mér finnst gaman að vera á táslunum nema þegar þegar einhver hefur brotið glas og ekki ryksugað glerbrotin.

ég er búin að taka til í tvo daga samfleytt og samt er ekki enþá orðið tiltekið í herberginu mínu. mig langar til að henda öllu dótinu en ég ætla ekki að gera það því ég veit að ég myndi sjá eftir því seinna. það er svo margt sem ég þarf að gera í dag að ég veit ekki hvar ég á að byrja og þess vegna geri ég örugglega ekki neitt af því.

bless og takk fyrir mig.


::: posted by anna at 15:09





14.8.04
 
uppgjöf
ég hef náð botninum á annarar gráðu lífstíl. bloggskrif eru án efa ekki hluti af þeim lífstíl, enda er hann frekar tilbreytingarsnauður eins og áður hefur komið fram. í gær tókst mér að læsa mig úti úr lobbýinu, en það er um það bil það eina sem mér finnst vera af þeirri gráðu atvika sem eiga mögulega heima á svona síðu. síðan síðasta færsla var rituð hefur í alvörunni ekkert gerst sem mig langar til að skrifa um.

ég hef verið að reyna að skoða möguleika á ástæðum fyrir þessu. kannski er nýja lífið bara ekki á sömu bylgjulengd og hið gamla og þess vegna kemur eyðandi samliðunarmynstur þar sem bloggáhuginn var einu sinni. kannski er þetta líka bara darwin að segja mér að stíga næsta skref til fulls - þróast og skilja við þetta gamla.

ekki veit ég hvernig þessi þróun leggst almennt í fólk úti í bæ en ég verð að segja að mér líst ekki lengur á blikuna. nýja lífið felur til dæmis í sér ferðir á skítamóralsböll sem hingað til hafa ekki getað talist hluti af skemmtanarútínu minni. en með nýjum tímum koma ferskir dagar. mig langar í epli.



::: posted by anna at 22:39





8.8.04
 
saga af stúlku VI
stúlkan okkar er oft morgunþreytt en sú þreyta er einmitt hálfleiðinlegur fylgikvilli þess að vera svo heppinn að búa í sama herbergi og hundrað aðrar systur hennar. stúlkurnar sem búa þarna saman vinna allar vaktavinnu og þurfa sumar að mæta klukkan sjö, aðrar níu og enn aðrar ekki fyrr en eftir hádegi. eins og gefur að skilja er oft erfitt að ná samkomulagi um hvenær ljósin skulu vera slökkt og ró komin á herbergið. þegar því samkomulagi er síðan náð upphefjast oft hinar skemmtilegustu samræður um allt og ekkert.

einu sinni voru stúlkurnar búnar að semja um að fara að sofa og ljósin voru slökkt. þá upphófust þessar líka hrókasamræður um ágæti svefnsins. sumar vildu meina að ekkert væri betra en að sofa og að fullkomnum heimi væri ekki náð með fullkomnum markaði, heldur með því að gera fullkomlega ekki neitt nema sofa. aðrar tóku undir það á meðan þær sem voru að fara á morgunvakt morguninn eftir mæltust til þess að hætt yrði að tala um svefn og farið að sofa þegar í stað.

þetta þóttu stúlkunni sérstaklega áhugaverður þankagangur, þó aðalega vegna þess að hún sá ekki nokkur rök sem mæltu með því að það væri gott að geta sofið allan daginn. þvert á móti fannst henni að það hlyti að vera draumur allra að þurfa ekkert að sofa og geta vakað allan sólarhringinn því þá væri hægt að koma svo miklu í verk! stúlkunni hitnaði nokkuð í hamsi við þessa rökfærslu sína og til að leggja áherslu á mál sitt reis hún upp frá koddanum og baðaði út öllum öngum.

samræðurnar leystust þá upp í vitleysu enda slóst morgunvaktin í lið með hinum systrunum þegar fyrirséð var að það hentaði henni fullkomlega að allir færu að sofa og það strax. stúlkan neyddist því til að leggjast á koddann og hugsaði í hringi um allt það sem hún gæti verið að gera á meðan hún svæfi. þar sem hún vissi líka af dauðadegi sínum nálgast ákvað hún að rita færslu um þetta atvik sem myndi standa sem minnisvarði um þankagang hennar um óákveðinn tíma.


::: posted by anna at 12:54




 
upprisa tilbreytninnar
það er svo skrítið við að lifa tilbreytingarlausu lífi í einangruðum heimi að maður getur talið allt með fingrunum. hvað á ég marga vini? -ekki fleiri en tíu. hversu marga mismunandi hluti tek ég mér fyrir hendur í fríum? -ekki fleiri en tíu. hvað eru margir klukkutímar þangað til ég þarf aftur að fara að vinna? -ekki fleiri en tíu.

dagarnir líða svo bara, hver á fætur öðrum, án þess að vera neitt öðruvísi. í morgun vaknaði ég og hugsaði með mér að kannski væri ráð að kíkja eitthvað út í kvöld svona að því tilefni að það er föstudagur. það var ekki fyrr en ég settist við tölvuna og hóf að skrifa þennan pistil sem ég fattaði að það er ekki föstudagur í dag heldur sunnudagur og klukkan er ekki orðin átta. þá uppgötvaði ég líka að ég hef ekki sett inn færlsu á þessa síðu í meira en viku.

á þessari viku hefur þó ýmislegt gerst sem gæti gert útaf við þá staðhæfingu að líf mitt sé gersneytt allri tilbreytingu. í gær missti ég til dæmis þráðlausa símann ofan í skúringafötu og var því laus við að þurfa að hafa hann í vasanum allan eftirmiðdaginn, eða þangað til hann var orðinn þurr og komst þar með í lag. í morgun gerðist líka stórmerkilegur atburður að líkamsklukkan vakti mig klukkan tíu mínútur í sjö, sem betur fer því ég hafði gleymt að stilla vekjaraklukkuna.

eitt annað sem er merkilegt við tilbreytingarlaust líf, skammtímaminnið bókstaflega bilar. lögmálið um tilbreytingaleysi og tíu fingur á nefnilega alveg eins við um skammtímaminnið eins og allt hitt. hvað manstu marga klukkutíma aftur í tímann? -ekki fleiri en tíu.


::: posted by anna at 07:38





30.7.04
 
framtíðardraumórar og einkamálaauglýsing
mér finnst dálítið skrítið að hugsa til þess hversu framtíðardraumar mínir hafa breyst frá því í fyrra. þegar ég var að fletta bæklingi um borgarfjörð eystri mundi ég allt í einu eftir hvernig mig dreymdi að haga framtíðinni fyrir ári síðan. þá langaði mig að setjast að á borgarfirði, kaupa mér jafn vel gamlan sveitabæ og fylla kjallarann af jarðfræðihömrum og forláta holufyllingum sem þar er að finna. fara síðan í gönguferðir um gamlar megineldstöðvar og höggva í bergganga mér til skemmtunar.

síðan hefur mikið vatn runnið frá landi til lagar. með breyttum framtíðaráherslum er ég hrædd um að atvinnutækifærin í bakkagerði séu fá. öll lögfræðistörf sem mér detta í hug eru tengd inn í stjórnmál á einn eða annan hátt. þar sem ég tengist þeim pottþétt frá vitlausri hlið hvað varðar stöðuveitingar í stjórnsýslunni, byggjast draumar mínir um lögfræðitengt líf á borgarfirði á sandinum einum saman.

reyndar byggjast aðrir lögfræðidraumar mínir á svipuðum sandi. það dugar lítið að halda áfram að vera hörð til vinstri, hvað þá græn, ef ég á einhvern tímann að eiga von um að fá stöðu til dæmis sem dómari einhvers staðar. reyndar hefur verið á stefnuskránni lengi að fara í kring um þessa reglu og gifta mig inn í sjálfstæðisflokkinn (eins og stallsystur mínar eru á góðri leið með að gera). kannski er bara pæling að gera gangskör í þeim málum.

---ung, einhleyp og grænleit stúlka leitar að sæmilega skemmtilegum íhaldsmanni með tækifærishjónaband í huga. góð sambönd í sjálfstæðisflokknum skylda, helst gegn um fjölskyldutengsl. æskilegt er að viðkomandi sé ekki útlendingur nema ítök í flokknum fái útlendingalögunum breytt. verður að hafa húmor fyrir nýrnaæxlisbröndurum. Svör óskast sem fyrst.---


::: posted by anna at 19:26





28.7.04
 
syndir
eitt af því helsta sem ég hef lært á því að vinna í lobbýi er að taka aldrei mark á því sem fólk sem vinnur í lobbýi segir. ég lýg túrista fulla á hverjum degi um hitt og þetta. það er ekkert svo langt síðan ég fattaði að það var hægt að prenta út af síðu vegagerðarinnar töflu yfir fjarlægðir til ýmissa góðra staða. fram að því var ég bara búin að slumpa á þetta. "já, ertu að fara á stöðvarfjörð. þangað eru svona sextíu kílómetrar..." ég vil taka það fram að ég hef ekki hugmynd hvað eru margir kílómetrar til stöðvarfjarðar en eftir að hafa skoðað það í töflunni minni sé ég að þangað eru alveg hundrað kílómetrar.
 
við sólborg hótelstýra og stjúpmamma reynum þó að gera ýmislegt til að mennta okkur í umhverfinu því að sjálfsögðu vinnum við of mikið til að geta farið að skoða okkur eitthvað um. hún pantaði reiðinnar býsn af bæklingum úr sveitinni og hef ég eytt deginum í að lesa mér til um söfn á djúpavogi og ferðaþjónustuna í húsey. í framhaldi af þessu þarf að sjálfsögðu að búa til gagnasafn úr bæklingunum til að þeir séu til taks í þau fáu skipti sem maður segir eitthvað að viti og getur lagt þá fram sem sönnunargögn.
 
og í öllu bæklingaflóðinu skar sig einn pési úr. hann var prentaður á þykkari pappír, skorinn í stærri örk og allur veglegri að sjá. þetta var að sjálfsögðu kynningarbæklingur alcoa-reyðaráls. og hér kemur játningin. ég henti þeim öllum beint út í ruslagám og gubbaði síðan á eftir þeim til að enginn myndi taka þá upp aftur.


::: posted by anna at 22:47




 
vinnugaman
þegar manni leiðist í vinnunni geta ýmis hugarfóstur lífgað upp á daginn. ég komst að því um daginn að mörg af mínum daglegu störfum gætu eins vel og jafnvel betur verið unnin af dýrum. ég er þegar búin að sjá út góð störf fyrir ýmsar dýrategundir.
 
skjaldbökur
mjög ljóst er að skjaldbakan myndi taka á sig flutninga milli staða. mér datt í hug einu sinni þegar ég var að labba með bala á bakinu inn þvottahúsganginn að hvolfa honum yfir mig. þá varð ég eins og skjaldbaka og fattaði að gott væri að geyma dúka og annað lín inni í skildinum á skjaldbökunni. það myndi spara kostnað við að kaupa nýja bala þegar gömlu brotna.
 
apar
sérstaklega væri hentugt að hafa apa til að fara út að sækja fánann. þá þyrfti enginn að hafa áhyggjur af því að missa böndin út í vindinn, því apinn myndi að sjálfsögðu bara klifra upp í flaggstöngina og þræða stöngina upp á nýtt. einnig væri hægt að nýta hann til að troða banönum upp í leiðinlega túrista sem hefur hingað til ekki verið í verkahring neins og þar af leiðandi mjög vanrækt starf.
 
ernir og aðrir ránfuglar
þeir myndu að sjálfsögðu sjá um að strauja þar sem ég fæ ekki betur séð að klær þeirra séu sérstaklega vel til þess fallnar að halda á straujárni. það myndi líka vera heppilegt ef vængir þeirra myndu koma hreyfingu á loftið í lobbýinu því þá þyrftum við ekki að opna gluggann og myndum losna við öll fiðrildin sem flækjast núna inn.
 
búrhvalir
honum væri hægt að koma fyrir í þvottahúsinu og þá gæti hann bara opnað munninn og þvegið línið og handklæðin upp í sér. hann myndi að sjálfsögðu skyrpa því útúr sér tandurhreinu, þurru, vel sléttu og brotnu saman.
 
mörgæsir
myndu að sjálfsögðu taka að sér starf pikkalóa og þar með losa okkur hin undan því með eindæmum leiðinlega starfi. þá gætum við bara kallað út mörgæsastóðið þegar vantage-hóparnir okkar koma og þannig væri því máli reddað.
 
að sjálfsögðu þarf ekki að minnast á það að hótel með slíka fjölbreytni í starfsmannahaldi myndi vekja heimsathygli. einnig gætum við sparað í matarinnkaupum því gera má ráð fyrir að þessi dýr fjölgi sér og þá er bara hægt að éta afkvæmi þeirra.


::: posted by anna at 00:18









léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla