stúlkan léttmeti



30.7.04
 
framtíðardraumórar og einkamálaauglýsing
mér finnst dálítið skrítið að hugsa til þess hversu framtíðardraumar mínir hafa breyst frá því í fyrra. þegar ég var að fletta bæklingi um borgarfjörð eystri mundi ég allt í einu eftir hvernig mig dreymdi að haga framtíðinni fyrir ári síðan. þá langaði mig að setjast að á borgarfirði, kaupa mér jafn vel gamlan sveitabæ og fylla kjallarann af jarðfræðihömrum og forláta holufyllingum sem þar er að finna. fara síðan í gönguferðir um gamlar megineldstöðvar og höggva í bergganga mér til skemmtunar.

síðan hefur mikið vatn runnið frá landi til lagar. með breyttum framtíðaráherslum er ég hrædd um að atvinnutækifærin í bakkagerði séu fá. öll lögfræðistörf sem mér detta í hug eru tengd inn í stjórnmál á einn eða annan hátt. þar sem ég tengist þeim pottþétt frá vitlausri hlið hvað varðar stöðuveitingar í stjórnsýslunni, byggjast draumar mínir um lögfræðitengt líf á borgarfirði á sandinum einum saman.

reyndar byggjast aðrir lögfræðidraumar mínir á svipuðum sandi. það dugar lítið að halda áfram að vera hörð til vinstri, hvað þá græn, ef ég á einhvern tímann að eiga von um að fá stöðu til dæmis sem dómari einhvers staðar. reyndar hefur verið á stefnuskránni lengi að fara í kring um þessa reglu og gifta mig inn í sjálfstæðisflokkinn (eins og stallsystur mínar eru á góðri leið með að gera). kannski er bara pæling að gera gangskör í þeim málum.

---ung, einhleyp og grænleit stúlka leitar að sæmilega skemmtilegum íhaldsmanni með tækifærishjónaband í huga. góð sambönd í sjálfstæðisflokknum skylda, helst gegn um fjölskyldutengsl. æskilegt er að viðkomandi sé ekki útlendingur nema ítök í flokknum fái útlendingalögunum breytt. verður að hafa húmor fyrir nýrnaæxlisbröndurum. Svör óskast sem fyrst.---


::: posted by anna at 19:26





28.7.04
 
syndir
eitt af því helsta sem ég hef lært á því að vinna í lobbýi er að taka aldrei mark á því sem fólk sem vinnur í lobbýi segir. ég lýg túrista fulla á hverjum degi um hitt og þetta. það er ekkert svo langt síðan ég fattaði að það var hægt að prenta út af síðu vegagerðarinnar töflu yfir fjarlægðir til ýmissa góðra staða. fram að því var ég bara búin að slumpa á þetta. "já, ertu að fara á stöðvarfjörð. þangað eru svona sextíu kílómetrar..." ég vil taka það fram að ég hef ekki hugmynd hvað eru margir kílómetrar til stöðvarfjarðar en eftir að hafa skoðað það í töflunni minni sé ég að þangað eru alveg hundrað kílómetrar.
 
við sólborg hótelstýra og stjúpmamma reynum þó að gera ýmislegt til að mennta okkur í umhverfinu því að sjálfsögðu vinnum við of mikið til að geta farið að skoða okkur eitthvað um. hún pantaði reiðinnar býsn af bæklingum úr sveitinni og hef ég eytt deginum í að lesa mér til um söfn á djúpavogi og ferðaþjónustuna í húsey. í framhaldi af þessu þarf að sjálfsögðu að búa til gagnasafn úr bæklingunum til að þeir séu til taks í þau fáu skipti sem maður segir eitthvað að viti og getur lagt þá fram sem sönnunargögn.
 
og í öllu bæklingaflóðinu skar sig einn pési úr. hann var prentaður á þykkari pappír, skorinn í stærri örk og allur veglegri að sjá. þetta var að sjálfsögðu kynningarbæklingur alcoa-reyðaráls. og hér kemur játningin. ég henti þeim öllum beint út í ruslagám og gubbaði síðan á eftir þeim til að enginn myndi taka þá upp aftur.


::: posted by anna at 22:47




 
vinnugaman
þegar manni leiðist í vinnunni geta ýmis hugarfóstur lífgað upp á daginn. ég komst að því um daginn að mörg af mínum daglegu störfum gætu eins vel og jafnvel betur verið unnin af dýrum. ég er þegar búin að sjá út góð störf fyrir ýmsar dýrategundir.
 
skjaldbökur
mjög ljóst er að skjaldbakan myndi taka á sig flutninga milli staða. mér datt í hug einu sinni þegar ég var að labba með bala á bakinu inn þvottahúsganginn að hvolfa honum yfir mig. þá varð ég eins og skjaldbaka og fattaði að gott væri að geyma dúka og annað lín inni í skildinum á skjaldbökunni. það myndi spara kostnað við að kaupa nýja bala þegar gömlu brotna.
 
apar
sérstaklega væri hentugt að hafa apa til að fara út að sækja fánann. þá þyrfti enginn að hafa áhyggjur af því að missa böndin út í vindinn, því apinn myndi að sjálfsögðu bara klifra upp í flaggstöngina og þræða stöngina upp á nýtt. einnig væri hægt að nýta hann til að troða banönum upp í leiðinlega túrista sem hefur hingað til ekki verið í verkahring neins og þar af leiðandi mjög vanrækt starf.
 
ernir og aðrir ránfuglar
þeir myndu að sjálfsögðu sjá um að strauja þar sem ég fæ ekki betur séð að klær þeirra séu sérstaklega vel til þess fallnar að halda á straujárni. það myndi líka vera heppilegt ef vængir þeirra myndu koma hreyfingu á loftið í lobbýinu því þá þyrftum við ekki að opna gluggann og myndum losna við öll fiðrildin sem flækjast núna inn.
 
búrhvalir
honum væri hægt að koma fyrir í þvottahúsinu og þá gæti hann bara opnað munninn og þvegið línið og handklæðin upp í sér. hann myndi að sjálfsögðu skyrpa því útúr sér tandurhreinu, þurru, vel sléttu og brotnu saman.
 
mörgæsir
myndu að sjálfsögðu taka að sér starf pikkalóa og þar með losa okkur hin undan því með eindæmum leiðinlega starfi. þá gætum við bara kallað út mörgæsastóðið þegar vantage-hóparnir okkar koma og þannig væri því máli reddað.
 
að sjálfsögðu þarf ekki að minnast á það að hótel með slíka fjölbreytni í starfsmannahaldi myndi vekja heimsathygli. einnig gætum við sparað í matarinnkaupum því gera má ráð fyrir að þessi dýr fjölgi sér og þá er bara hægt að éta afkvæmi þeirra.


::: posted by anna at 00:18





27.7.04
 
jákvæðni
ég hef lifað þessu lífi í blekkingu þar sem ég held að góðir hlutir byggist aðalega upp á jákvæðni. öllu skuli vera tekið með opnum örmum og litið á björtu hliðarnar í öllum málum, sama hvort þau séu góð eða slæm. það er hins vegar alveg greinilegt að þetta er allgjört bull sem gerið lífið að böl. jákvæðnin blindar fólki sýn og brenglar möguleikann á að horfa á heiminn með hlutlausum augum.
 
í gegn um tíðina hefur oft komið mér í koll að vera of jákvæð. ég er svo jákvæð gagnvart öllum lífsins verkefnum og held að ég geti allt, leyst allt. það er mjög mikill misskilningur og veldur mér iðulega sálarkvölum eftir að kemur upp úr kafinu að ég get ekki ýmislegt. eða aðrir geti ekki ýmislegt þegar ég hef sett traust mitt á þá.
 
verst er þó þegar maður kæfir eigin dómgreind með jákvæðni. þegar litlir púkar inní manni vara við að þetta og hitt séu nú ekkert rosalega góðar hugmyndir en maður kæfir raddirnar á jákvæðninni einni saman. þá er sko betra að vera nöldrandi fábjáni enda alþekkt staðreynd að ef maður passar sig á öllu kemur aldrei neitt manni í koll. jákvæðnin setur lífið bara af sporinu og gerir það verra.
 
ég er komin með nóg. ég er hætt að vera jákvæð.


::: posted by anna at 22:59




 
svefn og (geð)heilsa
á hverju hótelsumri kemur sá tími að andlega þolið fer undir sjávarmál. það er einmitt þá sem maður kemst ekki lengur upp með að stilla bara vekjaraklukku þegar maður á að fara á morgunvakt, heldur verður símaklukkan alltaf að vera við hendina til að minna á tímann. þá gildir einu hvort vakin byrjar klukkan sjö um morgun eða kvöld, öll vaktafrí eru nýtt til svefns og ekkert grín að drífa sig á lappir. í nótt svaf ég í þrettán tíma og munaði engu að ég svæfi yfir mig á þrjú-vaktina mína.
 
óreglulegum svefni fylgja svo þær rosalegustu árlegu geðsveiflur sem ég upplifi. skammdegisþunglyndi er eins og draumur á bleikum skýjum í samanburði við síðsumarsgeðillskuna. ekki bætir svo úr skák að búa í sama herbergi og tvær aðrar stúlkur sem eru haldnar sama ástandi og hef ég í því framhaldi ákveðið að úthluta tiltlinum ungfrú geðvond á hverjum degi. þess má geta að ég er núverandi handahafi titilsins.
 
eina sem hefur getað hresst mig við eru heimsóknir frá vinum og vandamönnum og þarf þá lítið til að gera daginn frábæran. einn besti dagurinn sem ég átti á laugum í sælingsdal var þegar vigdís kom í heimsókn. það var ógeðslegt verður og því ekkert sérstaklega skemmtilegt að skoða náttúruundur. í staðinn fyrir að fara í hundraðasta sinn í búðardal  keyrðum við laxárdalinn og stoppuðum í staðarskála þar sem við keyptum okkur hamborgara og horfðum á dawson's creek.


::: posted by anna at 20:05





26.7.04
 
...sem á endanum tóku yfir heiminn
við erum að missa tökin á plánetunni. fyrr en varir eigum við eftir að lúta í lægra haldi fyrir tölvunum og þurfa að þræla þangað til spendýrið maður deyr út. þetta byrjaði allt með fyrstu leikjatölvunum og heldur bara áfram. einu sinni var word til dæmis bara venjulegt ritvinnsluforrit. núna ákveður það hvar maður á að setja stóran staf og hvernig skal haga tölusetningum og fleira.
 
blogger er farinn að stjórna lífi mínu meira en góðu hófi gegnir. hann þurfti að breyta um útlit og fara að taka ákvarðanir fyrir mann. ég reyndi að búa til bloggfærslu sem heppnaðist ekki betur en svo að allt bloggið mitt varð hræðilega ljótt, eins og glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir. eftir misheppnaðar björgunaraðgerðir hef ég engin önnur ráð til að færa bloggið mitt í þolanlegt horf en að blogga rosalega margar færslur og sem munu fylla bloggið fljótt af huggulegri stafastærð og stafagerð.
 
ég hef því ekkert val um bloggið. það gildir einu hvort mig langi eitthvað til að tjá mig eða hvort ég hafi eitthvað að segja. nei, því ég verð að blogga og það hratt og mikið. þetta er bara fyrsta skref bloggers. bráðum fer hann að krefja mig um afköst og áður en ævi mín er á enda sé ég fram á að verða þrætt hans og annarra tölva að eilífu.


::: posted by anna at 21:04




 
bloggfærsla að fornum sið
ég lenti á voðalega skemmtilegum túristum í morgun. þetta var fimm manna fjölskylda, maður og kona með tvö börn og ömmu, svokallaðir vestur-íslendingar í leit að uppruna sínum. þau voru voðalega forvitin, glöð og áhugasöm um ísland og sérstaklega skemmtileg þangað til þau fóru að spyrja mig hvort ég þekkti nöfnin á sveitabæjunum sem forfeður þeirra höfðu alist upp á, sem ég gerði að sjálfsögðu ekki.
 
af einhverri ástæðu hef ég ekki verið sérstaklega eftirtektasöm hvað varðar bæjarnöfn þrátt fyrir að tækifærin hafi skoppað til mín í kílóavís. ég á afa sem þekkir öll bæjarnöfn á íslandi og veit ættartölu ábúenda eftir að hafa tekið þátt í kosningabaráttum með langafa mínum forsætisráðherranum. þegar við ferðumst saman bendir hann á bæina, segir hvað þeir heita og kemur síðan með eina skemmtilega sögu af ábúendum, og gildir þá einu í hvaða landshluta við erum að ferðast.
 
þrátt fyrir fáfræði mína get ég státað mig af því að þekkja öll bæjarnöfn í innri hluta fnjóskadals og vita í hvaða röð bæirnir eru. alltaf þegar ég sé lödur man ég bæjarrununa því ég var látin læra hana utanbókar og þylja í hvert skipti sem ég keyrði með hinum afa mínum á lödunni hans í skóginn okkar.
 
ekkert bæjarnafn er mér þó minnisstæðara en þrasastaðir í skagafirði. einu sinni þegar ég var lítil vorum við að keyra í skagafirði. það var á þeim aldri sem við helga rifumst stanslaust sem mömmu og pabba þótti eðlilega mjög leiðingjarnt. í miðju rifrildi keyrðum við framhjá þrasastöðum og mamma hótaði að stoppa og skilja okkur eftir ef við hættum ekki að þrasa.


::: posted by anna at 12:08





22.7.04
 

meira um eigið atferli
sumir kaupa bara boli og sumir safna skóm. það er erfitt að henda reiður á af hverju fólk laðast frekar að ákveðnum tegundum af fötum. ég hef til dæmis lengi verið haldin pilsasýkinni. ég get ekkert að því gert. það er bara þannig að þegar ég geng inn í búð og lít yfir herlegheitin, stoppa augun mín alltaf við pilsarekkann, án þes að ég reyni það eitthvað sérstaklega.

þetta atferlismunstur hefur staðið mjög lengi og hefur myndast úr því allgott safn pilsa frá ýmsum löndum. nú er svo komið að ég get auðveldlega farið í gegn um daga heils mánaðar án þess að þurfa að fara tvisvar í það sama. nokkur eru þó ekkert sérstaklega fögur, sem er líklega ástæðan fyrir því að ég stunda þetta ekki.

en með nýjum tímum koma ný munstur (eins og tískuheimurinn þekkir svo vel). ég er nefnilega komin með nýtt æði sem ég ræð ekki við: kjólaæðið. á síðustu tveimur og hálfri viku hef ég fjárfest í fjórum nýjum kjólum. eins og mamma komst svo skemmtilega að orði þegar þriðji kjóllinn var í höfn: "anna, þú ert kjóll".

ég vona samt að ný hegðun banki á dyrnar hjá mér bráðum. eftir langvarandi pilsaæði og þá staðreynd að kjólar eru nú ekki beint til þess fallnir að notast sem hversdagsflíkur nema í sérlega góðum veðrum getur verið erfitt fyrir mig að búa til heilklæðnaði úr því sem ég á. það væri ekki ónýtt að fá bolaæði eða peysuæði því þá get ég hætt að vera alltaf ber að ofan við þessi pils mín.



::: posted by anna at 00:33





19.7.04
 
einhver rétti mér gleraugun
eitthvað það merkilegasta að fylgjast með er eigin atferli. mér líður sjaldan jafn mikið eins og ég hafi stjórn á öllu en einmitt þegar ég er búin að uppgötva munstur í minni eigin hegðun og greina orsök þess og afleiðingu. stundum eru uppgötvanirnar ánægjulegar, en ég verð að viðurkenna að þær eru miklu oftar ekkert svo sérstaklega ánægjulegar.

ég setti upp kynjagleraugun um daginn og leit á eigin atferli. ég komst að því strax að ég er mjög svo lituð af hinu karllæga samfélagi í leik og þó sérstaklega í starfi. án þess að vilja það sjálf treysti ég körlum betur fyrir öllum upplýsingum sem snúa að hótelinu.

ferðamenn koma hingað flestir í pörum (enda er stærstur hluti mannkyns helmingur af pari, því miður). þegar þeir koma til að tékka sig inn fer einhver sjálfvirkur mekanismi í gang og ég læt karlinn alltaf fá lykilinn og fylla út bókunarspjaldið. ég fatta það oftast ekki fyrr en fólkið fjarlægist móttökuborðið, þegar karlinn er oftast búinn að láta konuna hafa lykilinn til að hann geti borið báðar töskurnar.



::: posted by anna at 23:17





18.7.04
 
veðurlög og ferðalög
svo virðist sem það sé skráð í veðurlögin að alltaf þegar er gott veður á egilsstöðum er vont veður í reykjavík. á meðan ég sleiki sólina í tuttugu og fimm stiga hita, krókna reykvíkingar úr kulda og skafrenningur eyðileggur jarðaberjauppskeruna. þar sem ég er alltaf að reyna að leita að jákvæðu punktunum við að eyða sumrinu hérna verð ég að segja að jákvæðnin fær rosalegt búst þegar ég man eftir þessu.

hins vegar eru þessi lög langt frá því að vera eins góð þegar veðrið er gott í reykjavík því þá snýst virknin við. á sama tíma snúast öll spjótin í höndunum á mér og margfalda tölu hinna sem snéru þegar að mér. ekki nóg með að ég sé hérna heimilislaus, vinalaus og allslaus (ef ekki væri fyrir systurnar) heldur sit ég uppi með landslag sem sést ekki fyrir þoku, skítakulda og rigningu.

sem betur fer er á stefnuskránni að breyta því. ég get glatt aðdáendur mína á suðvesturhorninu með því að ég stefni á að koma heim í tvo daga í næstu viku og njóta veðurblíðunnar með meiru. ég bið vaktavinnandi og atvinnulausa vini og kunningja sem kunna að hafa áhuga á stefnumóti við mig á miðvikudaginn eða fimmtudaginn að hafa samband.



::: posted by anna at 10:49





16.7.04
 
nördismi
ég er á því að allir reglulegir tölvunotendur eigi sér einhvern ákveðinn nördisma. eiginlega má segja að internetið sé nördastaður. þessi fullyrðing styðst við þá útskýringu á orðinu nörd að þar sé átt við fólk með afmarkað áhugamál/afmörkuð áhugamál sem hinn staðlaði jón eða hin staðlaða gunna hefur engan áhuga á, og að fyrir ástæðum áhugamálsins sé ekki hægt að færa nein ákveðin rök.

þessi áhugamál geta verið ýmiskonar, en eiga öll sameiginlegt að vera með einhvers konar birtingarmynd á netinu. sumir sigla um netið í leit að fötum, bara til að láta sig dreyma um að kaupa. aðrir leita uppi fánýtan fróðleik um hljómsveitir, bíómyndir og sjónvarpsþætti. enn aðrir tjá sig um persónulega hagi sína á þar til gerðum persónulegum síðum, bloggsíðum. svo er náttúrulega hugi.is, sem ég hef nú reyndar ekki gerst svo fræg að skoða almennilega.

ég á mér mjög leynda nördíska hlið sem snýr að mjög svo nördalegu áhugasviði mínu. ég skoða mjög oft jarðeðlissvið veðurstofu íslands þar sem maður getur séð jarðhræringar síðustu tvo sólarhringa. þessum nördisma deili ég með pabba mínum sem gæti vel talist yfirnörd þar sem honum tókst að rækta nördið í sér þrátt fyrir internetleysi þess tíma. pabbi átti nefnilega stjörnukíki og grafíska reiknivél, áður en þær urðu almenningseign.

::: posted by anna at 17:04




 
hrós dagsins
þetta hnoss hefur ekki verið veitt lengi og þykir mér því við hæfi að veita það núna í gleðivímu. hrósið fær að sjálfsögðu hinn ótrúlega frábæra litla-stóra systir mín hún helga, sem er einnig þekkt sem fimmta systirin, sú er heldur sig heima við á meðan við hinar sleikjum sólina á austurlandi. hrósið fær hún þó ekki fyrir landfræðilega legu sína heldur fyrir að hafa rúllað upp nokkrum prófum í síðasta mánuði og öðlast þannig rétt til að hefja nám í læknadeild hí í haust. hún fullkomnar þannig þrennuna sem sá hluta systrakvintettsins ógurlega sem kominn er með stúdentspróf ætlar að búa til í hí, helga í lækninn, ég í lögfræði og sædís í sálfræði. framlengi ég þá hrósið til okkar hinna líka og hrósa okkur fyrirfram fyrir að rúlla upp prófunum í desember.

systurnar lengi lifi. húrra, húrra, húrra.

::: posted by anna at 00:55





15.7.04
 
við lagarfljótið II
þegar maður býr á hóteli sem er alltaf fullbókað er ekki hlaupið að því að finna sér stað til að sofa á. eftir að hafa unnið á svoleiðis stað í þrjú sumur er ég orðin helvíti sjóuð í þessum málum. að þessu sinni sofum við systurnar fjórar saman í niðurgrafinni skólastofu á ganginum inn af móttökunni þar sem er að finna fjögur rúm, nokkur borð, litla skápa með læsingum á einum vegg og fatahengi.

eins og venjulega reynum við að gera umhverfið eins heimilislegt og hægt er. við erum með ljósaseríur, myndir í ramma og nokkur kerti til að gera skólastofuna meira eins og herbergi. svo erum við með sjónvarp, playstation2 og fullt af viðeigandi diskum, þannig í rauninni er nóg við að vera.

það má þó taka fram að þessi tuttugu fermetra skólastofa er í rauninni eini staðurinn sem ég get verið á þegar ég er ekki í vinnunni. þegar maður umgengst gestina í tíu tíma á dag nennir maður ekki að fara að horfa á fréttirnar innan um þá eða setjast fram í sófa til að lesa blaðið. heldur húkir maður í dimmri, loftlausri skólastofunni og horfir á leitina að nemó í hundraðasta sinn.

::: posted by anna at 20:30





14.7.04
 
ferjudagur
stundum er gott að hafa hasar og stundum er gott þegar ekkert er að gera. akkúrat núna þegar ég er búin að vinna að mér finnst í hundrað daga samfleytt (þótt þeir séu í raun ekki nema típrósent af því) hefði ég ekkert á móti því að hafa rólegan dag. miðvikudagar geta þó ekki annað en verið klikkaðir dagar, ferjudagar. á fimmtudögum fer norræna nefnilega frá seyðisfirði og norrænir ferðalangar fylla alla kima og skápa á öllum gististöðum fjórðungsins.

á ferjudögum er góð pæling fyrir lobbýstúlku að vera með allt sitt á hreinu, hafa alla gesti mjög örugglega í öllum herbergjum og passa að enginn verði útundan. að sama skapi er ekkert sérstaklega góð pæling fyrir lobbýstúlku að yfirbóka hótelið sitt á ferjudögum. það má eigilega segja að yfirbókanir séu stóra nó-nó-ið hjá lobbýstéttinni og miðað við starfsaldur minn er óviðeigandi og óviðunandi að í kvöld á ferjudegi hafi ég yfirbókað mitt eigið hótel.

álagið á þessum ferjudegi dauðans er búið að vera að sliga mig frá því í morgun. á þeim að því að mér finnst hundrað vinnutímum í dag (þótt þeir séu í raun ekki nema rúmlega típrósent af því) hefur mér þar að auki tekist að senda fólk á vitlaus herbergi í tvígang, bókað allt of marga í svefnpokapláss og fara með töskur á vitlaus herbergi. þar að auki þurfti ég að reka eina starfstúlkuna okkar út úr skólastofunni sinni, inn í skólastofuna þar sem við systurnar fjórar sofum, til að láta yfirbókaða bílstjórann gista inni í hennar stofu.

þessa stundina er mér því frekar illa við ferjudagana. eiginlega er mér svo illa við ferjudaga að mig langar til að bíta skrúfuna af þessari fokking norrænu. ég ætla samt að reyna að bæta mér það upp með því að plata pabba og litla bróður minn, hann tóta múslí, með mér á seyðisfjörð á morgun. mér er sagt að risaskipið með afbitnu skrúfuna taki sig vel út í þeim fagra firði.

::: posted by anna at 19:58





11.7.04
 
við lagarfljótið I
egilsstaðir hafa breyst mikið síðan ég kom hingað fyrir ári síðan. húsin spretta upp eins nú sé komið vor í fyrsta skipti í þúsund ár, eða síðan þyrnigerðið lagðist yfir mannlífið. bæjarandinn er líka mjög breyttur. já, það má eiginlega segja að við lagarfljótið hafi myndast lítið heimsþorp með væntingunum einum saman.

mér hefur sjaldan liðið eins cosmopolitan og einmitt þessa daga síðan ég kom hingað. veðrið hefur verið svo international og ég hef sprangað hér um í pilsum frá parís og kjólum frá helsinki með heimsborgarabrosið á vörunum. spjallað við allskonar útlendinga um allt mögulegt milli himins og jarðar á tungumálum sem ég vissi ekki að ég kynni. alþjóðlegi bragurinn gerir það að verkum að upp úr mér vellur ekki bara franska og enska heldur er ég farin að geta átt í samræðum á þýsku og ítölsku.

utan vinnutíma býður staðurinn líka uppá ýmis konar aktivítet sem sæma sönnu heimsþorpi. hér getur maður fengið sér kaffi í frauðmáli og gengið um göturnar bæjarins, sem eru flestar orðnar malbikaðar. ekki vantar einu sinni almenningsgarðana og jarðaberin á spottprís sem gera kjöraðstæður fyrir lestur á vogue og öðrum kannski meira cosmo blöðum.

::: posted by anna at 23:48




 
bloggfíkn og hlekkir
ég er bloggfíkill. margir þekkja vonandi þennan sjúkdóm sem lýsir sér í því að dagurinn er ekki fullkominn nema ég hafi farið á einhver blogg, þar á meðal mitt eigið. mér finnst ég þekkja fólk sem ég les oft bloggið hjá og finnst ég sérstaklega tengd þeim sem eiga bloggsíður sem eru hlekkjaðar við mína. ég er hætt að geta sagt sögur af mér því að um leið og ég byrja segir viðmælandi minn: "já, ég las það á blogginu þínu".

ég er alltaf að finna ný og ný blogg hjá vinum og kunningjum og finnst gaman að setja upp hlekki á aðrar síður. ég geng út frá þeirri vinnureglu að hlekkja ekki á neinn nema mér þyki möguleiki að viðkomandi myndi kannski slysast í jarðarförina mína ef ég myndi óvart deyja í dag. sú regla er þó stundum brotin fyrir reglulega skemmtileg blogg.

já, ég býst sko við troðfullri dómkirkju ef ég myndi taka upp á því að drepast, því mér finnst hlekkjalistinn minn vera allt of langur. nú er ég komin með tengla á hátt í hundrað blogg og finnst nokkuð nóg um. allmörg öldungis ágæt blogg týnast í hafsjónum, og á það sérstaklega við um blogg sem byrja á f - k af því ég skiptist á að byrja bloggrúntinn efst og neðst.

ég hef velt fyrir mér að koma upp einhvers konar skiptingu á tenglalistanum. mér er illa við stéttaskiptingu og hef hugsað mér að líklega sé best að skipta fólki upp eftir því hvernig ég þekki það. svoleiðis skipting getur þó verið jafn vandasöm og stéttaskiptingin því eins og allir vita er maður oft hlekkjaður við fólk á fleiri en einn máta. þetta mál er því svo hringsnúið að ég næ ekki áttum lengur og kenni fíkninni um. það er nú einu sinni henni að kenna að fólk veit ekki hvenær á að segja stopp.

::: posted by anna at 11:36





9.7.04
 
hrakföll á hrakföll ofan
þetta byrjaði allt í eftirmiðdaginn þegar ég var að beygja mig niður til að þrífa glerið í útihurðinni. þá rifnaði upp úr öllu sárinu á hnénu mínu (þessu sem ég fékk þegar ég hrundi á nefið í ganginum á hjónagörðum um daginn, leit út eins og sikiley en minnir núna mest á surtsey) og fór að fossblæða. stuttu seinna datt ég í stiganum upp á hundrað gang, fékk tvo rosalega skurði á ilina og ökklann og annað sár og stóran marblett á hitt hnéð.

á þessum tímapunkti leituðu vökvar út úr líkama mínum á fleiri stöðum. ekki bara rann blóð úr kaunum fóta minna heldur varð krónískt nefrennsli þess valdandi að ég þurfti að snýta mér á tveggja mínútna fresti. ég var því ekkert sérstaklega hress og kát þegar ég kom í mat, og var svo utangátta að mér tókst að skera mig í vísifingurinn svo það fór að blæða þar líka.

síðan fór ég að hnerra mikið og grét dálítið með því. ég veit ekki hvort það tengist eitthvað öllu þessu vökvaútstreymi, en ég var send "heim" úr vinnunni um níu leytið með hita og annan slappleika. þessi dagur hefur því verið frekar ömurlegur og bið ég fólk því að sýna mér samúð. blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir en símtöl verða afgreidd í réttri röð með bros á vör og gleði í hjarta og sárum.

::: posted by anna at 00:45





7.7.04
 
vinnudagar enn á ný
það er svo ágætt að vera aftur kominn að vinna. lífið verður alveg ferkantað og niðurnjörvað og hættir að flæða svona út um allt eins og til dæmis þegar maður er á ferðalagi. ég er ekki frá því að ég ætti að gefa upp á bátinn að verða lögfræðingur eða eitthvað svoleiðis. frekar ætti ég að fá mér vinnuferil sem verkakona, svo gaman hef ég af mekanískum hreyfingum.

mér finnst fátt betra en fara í þvottahúsið og eyða þar dágóðri stund. þvottahúsið er dálítið eins og draumaland þar sem hvítur ilmandi þvotturinn veður upp um alla veggi. vinnan þar er ekki flókin heldur alveg eins og ég vil hafa hana. hrista hrista, brjóta brjóta, slétta slétta, brjóta brjóta, slétta slétta, hrista hrista, o.s.frv. svo getur maður látið hugann reika í friði fyrir öllu óreglulegu áreiti.

síðan ég kom til egilsstaða hef ég, án allra ýkja og lyga, ekki gert neitt nema vinna, borða og sofa. góða veðrið sem á víst að vera hérna sé ég eingöngu út um gluggann, ekki að það sé eitthvað slæmt því útsýnið er fagurt að vanda. ekki halda þó annað en ég uni ekki glöð við nýfundið mekanískt líf mitt. þvert á móti og svo ríflega það að ég held ég hætti við akademísku draumana og fái mér aðra svona unaðslega vinnu á þessum fallega stað á landinu þegar sumrinu lýkur. ég á erfitt með að gera upp við mig hvort það á að vera í álverinu á reyðarfirði eða uppi á kárahnjúkum.

::: posted by anna at 23:11





6.7.04
 
eistlandssaga
ég er komin heim frá eistlandi. þótt margar lífshættulegar þrautir hafi verið lagðar fyrir mig í ferðinni á ég enn önd. við kórfélagar og kórfélugur stóðum oft við dauðans dyr og ætla ég hér að veita forlögunum heiður og eilífa þökk fyrir að:

-engri moskítóflugu né maur né mýflugu né könguló tókst að drepa mig.
-ég gleymdi hvergi flugmiða, vegabréfi, þjóðbúningi, ferðatösku né nótum og dó því ekki úr því. þvert á móti kom ég með allt heim sem ég fór með út og gerði gott betur.
-mótlæti veldur ekki skyndidauða.
-grátur og hlátur fer blessunarlega ekki illa með líkamann upp að því marki að það dragi mann í gröf í óhóflegu magni.
-menn geta lifað þrátt fyrir svefnleysi og illa upplagningu.
-ekki er hægt að deyja úr skrúðgöngum, hvort sem þær eru eða eru ekki.
-sýkingin í vinstra hnénu mín hélt sig til friðs og dó drottni sínum á eistlands grundu.
-kgb starfar ekki lengur.
-þegar manni finnst maður ætla að deyja úr hræðslu þegar maður sér gervi-kgb mann í alvöru kgb-fangageymslu er það bara plat því það þarf mikið meira til að deyja í alvörunni úr hræðslu.
-húfur drepa ekki nema einstaka konu og einstakan mann.
-þjóðbúningar valda ekki dauðsföllum þótt handhafa þeirra líði eins og viðkomandi geti ekki andað.
-blóðsykur fer ekki upp á lífshættulegt stig við að borða kjöt í morgunmat marga daga í röð.

ég nenni eiginlega ekki að skrifa meira um eistland. ég árétta þó að það er af einskærri lítilmennsku þar sem ég er sannfærð að líflegri og skemmtilegri frásagnir úr eistlandsförinni frægu er að finna á mörgum betri bloggsíðum bæjarins. ég mæli með því að fólk skelli á einhvern af tenglunum hér til hægri og athugi hvort ekki vill svo til að viðkomandi hitti á frækinn fara eða frækna föru.

annars sendi ég guði og reykvískum konum og mönnum kærar kveðjur af austurlandi sem skartar sínu fríðasta nú um stundir og hataði ekki að heilsa með skýlausu snæfellinu og skyggni lengst inn á víðlendurnar.

::: posted by anna at 22:27









léttmeti
ásta
dagur
dögg
mummi
hafdís
halla
halla
himmi
inga
klúbburinn
sigurgeir
sædís
sölvi
tobbi
tóta
ugla