|
|
|
|
|
stúlkan
léttmeti
|
|
|
|
|
31.8.04
halló heimur
ég heiti anna og ég á þetta blogg. ég á líka ýmislegt annað sem ég nenni ekki að tíunda hérna. núna sit ég við tölvuna mína, borða brokkolí og drekk kaffi. úti er svo mikil rigning að ég nenni ekki að fara þangað þótt ég þurfi að gera allskonar dót þar. mig langar í hjól nema þegar er rigning. þess vegna á ég ekki hjól.
mér finnst gaman að horfa á munstur sem fær mann til að horfa í hringi þangað til að maður finnur miðjuna á því. mér finnst ekki gaman að horfa á ljóta liti sem stinga í augun eins og tannkremshúsin á akureyri. mér finnst gaman að vera á táslunum nema þegar þegar einhver hefur brotið glas og ekki ryksugað glerbrotin.
ég er búin að taka til í tvo daga samfleytt og samt er ekki enþá orðið tiltekið í herberginu mínu. mig langar til að henda öllu dótinu en ég ætla ekki að gera það því ég veit að ég myndi sjá eftir því seinna. það er svo margt sem ég þarf að gera í dag að ég veit ekki hvar ég á að byrja og þess vegna geri ég örugglega ekki neitt af því.
bless og takk fyrir mig.
::: posted by anna at 15:09
14.8.04
uppgjöf
ég hef náð botninum á annarar gráðu lífstíl. bloggskrif eru án efa ekki hluti af þeim lífstíl, enda er hann frekar tilbreytingarsnauður eins og áður hefur komið fram. í gær tókst mér að læsa mig úti úr lobbýinu, en það er um það bil það eina sem mér finnst vera af þeirri gráðu atvika sem eiga mögulega heima á svona síðu. síðan síðasta færsla var rituð hefur í alvörunni ekkert gerst sem mig langar til að skrifa um.
ég hef verið að reyna að skoða möguleika á ástæðum fyrir þessu. kannski er nýja lífið bara ekki á sömu bylgjulengd og hið gamla og þess vegna kemur eyðandi samliðunarmynstur þar sem bloggáhuginn var einu sinni. kannski er þetta líka bara darwin að segja mér að stíga næsta skref til fulls - þróast og skilja við þetta gamla.
ekki veit ég hvernig þessi þróun leggst almennt í fólk úti í bæ en ég verð að segja að mér líst ekki lengur á blikuna. nýja lífið felur til dæmis í sér ferðir á skítamóralsböll sem hingað til hafa ekki getað talist hluti af skemmtanarútínu minni. en með nýjum tímum koma ferskir dagar. mig langar í epli.
::: posted by anna at 22:39
8.8.04
saga af stúlku VI
stúlkan okkar er oft morgunþreytt en sú þreyta er einmitt hálfleiðinlegur fylgikvilli þess að vera svo heppinn að búa í sama herbergi og hundrað aðrar systur hennar. stúlkurnar sem búa þarna saman vinna allar vaktavinnu og þurfa sumar að mæta klukkan sjö, aðrar níu og enn aðrar ekki fyrr en eftir hádegi. eins og gefur að skilja er oft erfitt að ná samkomulagi um hvenær ljósin skulu vera slökkt og ró komin á herbergið. þegar því samkomulagi er síðan náð upphefjast oft hinar skemmtilegustu samræður um allt og ekkert.
einu sinni voru stúlkurnar búnar að semja um að fara að sofa og ljósin voru slökkt. þá upphófust þessar líka hrókasamræður um ágæti svefnsins. sumar vildu meina að ekkert væri betra en að sofa og að fullkomnum heimi væri ekki náð með fullkomnum markaði, heldur með því að gera fullkomlega ekki neitt nema sofa. aðrar tóku undir það á meðan þær sem voru að fara á morgunvakt morguninn eftir mæltust til þess að hætt yrði að tala um svefn og farið að sofa þegar í stað.
þetta þóttu stúlkunni sérstaklega áhugaverður þankagangur, þó aðalega vegna þess að hún sá ekki nokkur rök sem mæltu með því að það væri gott að geta sofið allan daginn. þvert á móti fannst henni að það hlyti að vera draumur allra að þurfa ekkert að sofa og geta vakað allan sólarhringinn því þá væri hægt að koma svo miklu í verk! stúlkunni hitnaði nokkuð í hamsi við þessa rökfærslu sína og til að leggja áherslu á mál sitt reis hún upp frá koddanum og baðaði út öllum öngum.
samræðurnar leystust þá upp í vitleysu enda slóst morgunvaktin í lið með hinum systrunum þegar fyrirséð var að það hentaði henni fullkomlega að allir færu að sofa og það strax. stúlkan neyddist því til að leggjast á koddann og hugsaði í hringi um allt það sem hún gæti verið að gera á meðan hún svæfi. þar sem hún vissi líka af dauðadegi sínum nálgast ákvað hún að rita færslu um þetta atvik sem myndi standa sem minnisvarði um þankagang hennar um óákveðinn tíma.
::: posted by anna at 12:54
upprisa tilbreytninnar
það er svo skrítið við að lifa tilbreytingarlausu lífi í einangruðum heimi að maður getur talið allt með fingrunum. hvað á ég marga vini? -ekki fleiri en tíu. hversu marga mismunandi hluti tek ég mér fyrir hendur í fríum? -ekki fleiri en tíu. hvað eru margir klukkutímar þangað til ég þarf aftur að fara að vinna? -ekki fleiri en tíu.
dagarnir líða svo bara, hver á fætur öðrum, án þess að vera neitt öðruvísi. í morgun vaknaði ég og hugsaði með mér að kannski væri ráð að kíkja eitthvað út í kvöld svona að því tilefni að það er föstudagur. það var ekki fyrr en ég settist við tölvuna og hóf að skrifa þennan pistil sem ég fattaði að það er ekki föstudagur í dag heldur sunnudagur og klukkan er ekki orðin átta. þá uppgötvaði ég líka að ég hef ekki sett inn færlsu á þessa síðu í meira en viku.
á þessari viku hefur þó ýmislegt gerst sem gæti gert útaf við þá staðhæfingu að líf mitt sé gersneytt allri tilbreytingu. í gær missti ég til dæmis þráðlausa símann ofan í skúringafötu og var því laus við að þurfa að hafa hann í vasanum allan eftirmiðdaginn, eða þangað til hann var orðinn þurr og komst þar með í lag. í morgun gerðist líka stórmerkilegur atburður að líkamsklukkan vakti mig klukkan tíu mínútur í sjö, sem betur fer því ég hafði gleymt að stilla vekjaraklukkuna.
eitt annað sem er merkilegt við tilbreytingarlaust líf, skammtímaminnið bókstaflega bilar. lögmálið um tilbreytingaleysi og tíu fingur á nefnilega alveg eins við um skammtímaminnið eins og allt hitt. hvað manstu marga klukkutíma aftur í tímann? -ekki fleiri en tíu.
::: posted by anna at 07:38
|
|
|
|